25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3794 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

331. mál, náttúruvernd

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að mér finnst umræðan hafa færst á ansi lágt plan og taldi reyndar áðan, þegar hv. 3. þm. Suðurl. ræddi um að ákveðinn þm. hefði blásið sig upp og annað í þeim dúr, að það væri tilefni til þess að þingforseti áminnti hann um að vera ekki með slík köpuryrði í garð þm. Er það reyndar fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég veit að forseti er sanngjarn og við virðum forseta og ég vænti þess að svona málflutningur verði ekki ástundaður hér framar.