25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3795 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur haft mál þetta til rækilegrar skoðunar og m. a. boðað ýmsa menn á sinn fund og aflað gagna um málið. Í nál. meiri hl. er greint frá gangi mála. Það er raunar sameiginlegt með báðum nál. að vakið er máls á því að einmitt á sama tíma sem n. fjallaði um málið var tekin ákvörðun af Seðlabanka Íslands og hæstv. ríkisstj. um nokkra breytingu á bindiskyldu. Það vildi raunar svo til að á sama tíma sem við í n. ræddum við Jóhannes Nordal seðlabankastjóra, Jónas Haralz, formann Sambands viðskiptabanka og bankastjóra Landsbankans, Stefán Pálsson bankastjóra Búnaðarbankans og Halldór Guðbjarnason bankastjóra Útvegsbankans ásamt Axel Kristjánssyni aðstoðarbankastjóra, þá sat ríkisstj. á rökstólum og gaf síðan út tilkynningu um að bindingin í Seðlabankanum skyldi lækka í 18% úr u. þ. b. 28% sem okkur er tjáð að hún hafi verið að undanförnu þó að bankinn fengi á s. l. þingi heimild til að binda allt að 38% og sú prósentutala er nú í lögum eins og hv. þm. er kunnugt um.

Í nál. meiri hl. er það rakið hvernig um málið var fjallað í n. og skal ég drepa á helstu atriðin þó að menn geti raunar lesið sér það til sjálfir og hafi gert. En það er ljóst að ef viðskiptabankarnir eiga að geta sinnt greiðslu á afurðalánum öllum, bæði til sjávarútvegs og þó sérstaklega til landbúnaðar, nægir naumast að færa bindiskylduna niður í 18%. Það kemur raunar alveg skýrt fram að þá yrði Seðlabanki að lána Búnaðarbankanum um 170 millj. kr. til þess að Búnaðarbankinn væri í stakk búinn til að sinna öllum afurðalánum, einkum og sér í lagi þegar nú hefur loks verið ákveðið að bændur skuli fá greiðslur sínar nokkurn veginn samtímis því sem þeir leggja afurðir inn. Að því er mjólkurframleiðendur varðar skal það gerast nú strax 1. júní eftir ákvörðun ríkisstj. og að því er sauðfjárbændur varðar um næstu áramót.

Það er alveg ljóst af því sem bankastjórarnir allir segja að það mundi þurfa að lækka bindiskylduna niður í 10% til að bankarnir hafi nægilegt fé til þess að annast þessar greiðslur og lausafjárstaða bankanna mundi komast í lag, eins og bankastjórarnir allir komast að orði í sínum ummælum.

Ég var að gera mér vonir um það satt að segja eftir umfjöllun í n. að það næðist allsherjarsamkomulag um afgreiðslu þessa máls, að samþykkja þetta frv., og satt best að segja kom nú aldrei fram neinn verulegur ágreiningur í n. En tveir nm. telja þó eðlilegra að vísa málinu til ríkisstj. og segja að eðlilegt sé að reglur Seðlabankans um bindingu sparifjár verði teknar til endurskoðunar þegar séð er hver áhrif þeirra breytinga, sem nú standa yfir, verði. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. Ég hef ekkert við því að segja.

Við hin í nefndinni teljum að við höfum fengið allar þær upplýsingar sem nægi til að sýna að óhjákvæmilegt sé að færa bindiskylduna alla leið niður í 10%. Annars muni viðskiptabankarnir ekki hafa nægilega góða lausafjárstöðu til að anna afurðalánum og hinum almennu viðskiptum við borgara landsins líka. Menn vita hver lánsfjárþörfin er og þurrð á peningum í umferð. Það kemur m. a. fram í því að fjöldi húsbyggjenda er að missa eigur sínar jafnvel þó að eignirnar séu miklu meira virði en skuldirnar.

Við þekkjum öll fólk sem hefur verið að berjast í að koma sér upp lítilli íbúð, sem kostar 1 millj. svo að við tökum dæmi, og á kannske helminginn í íbúðinni. Engu að síður standa á þessu fólki öll járn og jafnvel yfirvofandi nauðungaruppboð og það getur hvergi fengið smálán til að bjarga sér út úr því.

Staðan er orðin svo erfið hjá viðskiptabönkunum að þeir ráða ekki við þessi mál. Það þekkja allir landsmenn. Bankastjórarnir segja sjálfir að lækkun bindiskyldunnar niður í 18% nægi þeim ekki. Hún þurfi að lækka meira. Einn þeirra, bankastjóri Útvegsbankans, segist að sjálfsögðu vera sammála því að lækka hana í 10% en vildi gjarnan lækka hana meira.

Raddir hef ég heyrt um það að bindiskylduna ætti jafnvel alveg að afnema. En þess þarf að gæta að Seðlabankinn hefur þegar keypt talsvert af viðskiptabréfum, skuldabréfum sem hann hefur fjármagnað með bindiskyldunni. Ég tel þess vegna hóflegt að færa lög Seðlabankans í það horf sem þau upphaflega voru, en á 7. áratugnum var aldrei bundið meira fé en sem svaraði 10% af sparifé landsmanna. Ég tel eðlilegt að lögin verði færð í þetta gamla horf.

Það er ástæðulaust að ég sé að fjölyrða frekar um þetta. Ég vil aðeins geta um það að að meirihlutaálitinu standa auk mín þeir Eiður Guðnason, Valdimar Indriðason og Ragnar Arnalds, sem skrifar undir með fyrirvara þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ragnar Arnalds hefur þann fyrirvara um afstöðu sína að bindiskylda gæti átt fullan rétt á sér til að fjármagna sameiginleg verkefni þjóðarinnar og draga úr erlendum lántökum. En með hliðsjón af því, sem gerst hefur í afurðalánamálum að undanförnu og eftir að Seðlabankinn hefur hætt endurkaupum á afurðalánum, er hann samþykkur lækkun bindiskyldu bankanna í 10%.“

Þetta eru fullgild rök og skýr og þarfnast ekki skýringar nema sjálfsagt gerir sá sem athugasemdina vildi hafa þarna grein fyrir henni hér á eftir. En það er óþarft að ég geri það.

Síðan skrifar Sigríður Dúna Kristmundsdóttir einnig undir og hér stendur: „Jónína Leósdóttir, Bandalagi jafnaðarmanna, sat fundi nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.“

Við afgreiðslu málsins hér við 2. umr. geri ég mér vonir um og tel raunar fullvíst að málinu verði ekki vísað til ríkisstj., á þessu stigi allavega. Ég tel eðlilegt að málið sé rætt hér í Alþingi og alþm. fái um það upplýsingar og geti gert sér grein fyrir því hvað á ferðinni er. Og vonandi geta þeir sem vildu vísa málinu til ríkisstj. fallist á að greiða atkv. með frv., þegar það kemur til atkv., þó að till. þeirra kunni að verða felld, sem ég vænti og vonast til.

Það er flutt ein brtt. Hún er einmitt flutt með hliðsjón af þeirri tilkynningu sem ríkisstj. hefur sent út, um að afurðalánagreiðsla til bænda breytist 1. júní. Þá töldum við eðlilegt allir í nefndinni að ef frv. yrði að lögum skyldu þau ekki öðlast gildi fyrr en 1. júní n. k.