25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3798 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það hefði sjálfsagt af ýmsum ástæðum verið ástæða til að þrautræða þetta frv. sem nú er komið hér til 2. umr. Ég mun ekki gera það. Ég get ekki annað sagt en að hér hafi komið fram, ekki síst í máli síðasta hv. ræðumanns, að ýmislegt skorti á að þær upplýsingar liggi fyrir um peningapólitísk markmið sem gerir okkur hv. þm. kleift að taka afstöðu til þessa frv.

Eins og kunnugt er eru þessi mál og hafa ævinlega verið fyrst og fremst á valdi og vegum ríkisstj. Ég veit ekki til þess að þetta mál hafi verið þrautrætt innan núv. stjórnarflokka. Vafalaust hefur verið á það minnst, en mér er ekki kunnugt um að fyrir liggi niðurstaða, ef ég má svo að orði komast, varðandi þetta frv. A. m. k. er það þannig í mínum flokki.

Ég fer fram á það við hæstv. forseta að umr. um þetta mál verði frestað með vísan til þess sem ég nú hef sagt. Ég tel ófært annað en að fá ráðrúm — a. m. k. tala ég þá fyrir minn munn og minn flokk — til að ræða þetta mál þar. Ég fer sem sagt fram á, virðulegi forseti, að þessari umr. verði frestað.