25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3800 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það er einkennileg staða komin hér upp, að óskað skuli vera eftir að fresta þessu máli sem er búið að vera hér lengi inni á borðum hv. þm. og þeir hafa haft tíma til að fjalla mjög um. Hvort sem það hefur verið í þingflokkum eða ekki hafa þeir þó gert það sín á milli. En ég ætla engan dóm hér að leggja á úrskurð hæstv. forseta í þessum efnum. Hann hefur sinn framgang.

Hv. þm. Ragnar Arnalds nefndi áðan fyrirtæki á Suðurnesjum. Því miður eru erfiðleikar hjá mörgum fyrirtækjum víðar en á Suðurnesjum. En ég vildi segja honum að það hefur engin áhrif á fyrirtæki á Suðurnesjum eða annars staðar hvort Seðlabankinn endurkaupir hluta af framleiðslulánum þeirra eða ekki. Þessi fyrirtæki eru því miður það hart keyrð mörg að það er komið langt yfir það mark sem viðskiptabankarnir hafa sett og geta því ekki varið að lána þeim meira. Ég vildi benda á þetta því að þarna má ekki rugla saman. Það sem skeður varðandi afurðalán er það, að síðan ég man eftir hefur það verið ríkjandi regla að það hafa verið endurkeypt 50–60% af skilaverði afurðanna — það hefur oftast verið í kringum 55–56% en komist þó upp í tæp 60% ef ég man rétt. Ofan á þessi 50–60% hefur viðskiptabankinn lánað 20%. Þetta hafa því látið nærri að vera 67–71 % afurðalán.

Breytingin, sem nú er lögð til og er að komast í framkvæmd, er sú að þarna verði farið upp í 75% og það þá hjá einum banka, viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Ég tel til bóta að þetta sé haft á einum stað í stað þess að vera með sérstök lán í Seðlabanka, svokölluð endurkaupalán, og svo 20% í ofanálag, viðbótarlán sem kallað er, í viðskiptabönkunum. Þá er viðskiptabankinn orðinn einn um þessi mál. En hann stendur ekki undir því nema hann fái losað um bindiskylduna í Seðlabankanum. Menn geta deilt um með hvaða rétti hún á að stjórna almennu fjárstreymi í þjóðfélaginu. Ég tel ekki til bóta að Seðlabankinn sé með sérstakar hömlur á því, nema síður sé. Það kom fram í viðræðum við þá fulltrúa viðskiptabankanna sem komu á fund n. að einum bankanum dugar ekki sú lækkun í 18% sem lagt hafði verið til að ákveða. Hann þarf meiri lækkun til að geta leyst sín mál. Landsbankinn væri nokkurn veginn í kringum núllið. Einn bankinn fengi verulega upphæð lausa en ég sé ekki betur en Seðlabankinn haldi áfram að binda 28% vegna þess að þeir sem eiga að fá lausa peninga eru látnir binda þá áfram í skuldabréfum í Seðlabankanum, þeir fá ekki féð laust. Þetta er athugaverð framkvæmd líka.

Seðlabankinn bjargar ekki fyrirtækjunum sem skulda mikið. Hann kaupir ekki fleiri afurðalán. Ég vil að það komi skýrt fram.