25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér, undir þessum dagskrárlið sem varðar aðgerðir til að bæta hag sjómanna, að koma hér að máli sem tengist hagsmunamálum sjómanna, þ. e. bátasjómanna, þeirra sem stunda veiðiskap á smábátum undir 10 tonn að stærð. Það er nýlega búið að greina frá því að stöðvaðar hafi verið veiðar þeirra báta nú um tveggja vikna skeið. Er það lengri stöðvun en almennt hefur gerst á þessa báta sem hafa ekki veitt yfir páskana. Ég vil leyfa mér að inna hæstv. sjútvrh., sem hér er viðstaddur, eftir því hvað valdi þessari ákvörðun, hvort fylltur hafi verið sá kvóti sem ákveðinn var skv. reglugerð. Hér er um stórt hagsmunamál að ræða fyrir verulegan fjölda sjómanna og ég held að nauðsynlegt sé að við fáum að vita um hvað valdi þessari ákvörðun, hver sé ástæðan.