25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3149)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef ekki með mér nákvæmar tölur yfir þessa bátastærð, en það liggur fyrir að þeir munu fara nokkuð yfir áætlað magn á fyrsta tímabili. Það þýðir að það flyst yfir á næsta tímabil. Nú er því þannig háttað að það er mjög mismunandi eftir því hvar er á landinu hvenær þessir bátar hefja róðra. Ljóst er að eftir því sem þeir fara meira fram úr á fyrsta tímabili, þeim mun verr mun það koma við báta í ákveðnum landshlutum.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að þessir bátar verða stöðvaðir í hálfan mánuð eða í eina viku umfram páskastoppið. Þetta stopp hefst á morgun og verður fram yfir páska, en stöðvun netabáta er einni viku síðar þannig að hér er einungis um einnar viku stöðvun umfram þá báta að ræða.

Eins og menn muna þótti ósanngjarnt hve lengi þessir bátar voru stöðvaðir seinni hluta síðasta árs. Með þessari ákvörðun er unnt að dreifa þessari stöðvun meira. Einnig er á það að líta að aflabrögð hafa verið mun betri hjá þessum bátum fyrri hluta ársins en var á sama tíma í fyrra og hefur það einnig áhrif á það að til þessarar stöðvunar er gripið nú en það er í fullu samræmi við þá reglugerð sem sett var um veiðar þessara báta.