25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það þurfti ekki lengi að hlusta á síðasta hv. ræðumann til að þekkja í hvaða flokki hann væri, svo grunn og ósanngjörn var ræða hans að það leyndi sér ekki hvar eru hans heimahús.

Auðvitað er þetta kvótakerfi upp tekið vegna þess að menn höfðu þungar áhyggjur af ofveiði við Ísland og hversu komið var fyrir okkar fiskstofnum, m. a. vegna ástands í sjónum en hann var mjög kaldur. Við vitum öll að illa yrði fyrir okkur komið ef svo nærri yrði gengið fiskstofnum að ekki drægist þorskur úr sjó. Þegar aftur glæðist afli og lífsskilyrði í sjónum batna er auðvelt að koma og segja að það eigi að rýmka þetta og rýmka, það hafi verið óþarfi að setja á kvóta o. s. frv. Það er auðvelt að segja núna að fiskifræðingar hafi verið allt of bölsýnir. Það er líka auðvelt að segja núna, vegna þess að afli er að vaxa, að stjórnmálamenn hafi verið rakkar að þeir skyldu ekki ganga lengra fram úr spám fiskifræðinga og ráðleggingum en gert var. Það er alltaf hægt að tala þannig eftir á, en það er frekar ómerkilegur málflutningur. Ég var sjálfur aldrei mjög hlynntur því að kvóti yrði tekinn upp, en ég sætti mig við hann, eins og raunar íslenskir sjómenn og útgerðarmenn, vegna þess að við vissum að nauðsynlegt var að beita meira aðhaldi varðandi sókn en áður og stemma stigu við ofveiði. Það var skýringin á því að þetta kerfi var upp tekið. Við sjáum það líka á viðbrögðum sjómanna og útvegsmanna, síðan þetta kerfi var tekið upp, að þeir menn sem sjóinn stunda skilja þetta og vita af hvaða hvötum þetta var gert. Þetta var gert til þess að búa í haginn fyrir framtíðina, til að koma í veg fyrir að fiskstofnarnir yrðu eyðilagðir nú.

Það er líka auðvelt fyrir þá sem vita að ekki verður farið að þeirra tillögum að segja að við eigum að gefa línuna frjálsa og handfærin frjáls. En hvaðan yrði sá þorskur tekinn sem veiddist á línu og handfæri? Yrði hann ekki tekinn af hinum sem eru með önnur veiðarfæri? Er till. þessa hv. þm. að fara enn lengra fram úr því sem fiskifræðingar telja ráðlegt og skynsamlegt? Þá held ég að það sé rétt að þessi þm. segi umbúðalaust hvað hann telji hæfilegt nú að veiða á Íslandsmiðum af þorski. Hvað vill hann ganga langt fram úr heimildum og hvar er ábyrgðin á bak við þetta hjal?