25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3812 í B-deild Alþingistíðinda. (3161)

315. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það frv. sem hér er nú til umr. er vissulega skref í átt til þess að leiðrétta áratuga misrétti í þjóðfélaginu. En í mínum huga er það spurning hvort þetta sé réttasta skrefið og hvort þetta sé nógu stórt skref til þess að hægt sé að fá fólk til að vinna í þessari grundvallaratvinnugrein landsmanna. Það fer auðvitað ekkert á milli mála og er öllum ljóst, eins og hér kom fram hjá hv. frsm., að kjaraskerðing undangenginna mánaða hefur bitnað hvað harðast á sjómönnum og fiskvinnslufólki. Nú er svo komið, og ætti raunar ekki að þurfa að ítreka það hér í umr. á Alþingi, að víða í sjávarplássum, þar sem fiskvinnsla og fiskveiðar eru meginatvinnuvegir á hverjum stað, yfirgnæfandi meiri hluti launafólks vinnur við þær greinar, þar flykkist nú fólk úr þessum undirstöðuatvinnuvegi. Sjómennirnir fara af bátunum, fiskvinnslufólkið yfirgefur frystihúsin. Frammi fyrir slíkri staðreynd er það spurning í mínum huga hvort menn eru hér nægilega róttækir í breytingum til þess að hægt sé að leiða að því líkur að við gefum snúið þessu dæmi við. Ég minni á í þessu sambandi margfluttar — og að nokkru leyti samþykktar tillögur Alþfl. hér á Alþingi um að afnema með öllu tekjuskatt af almennum launatekjum. Það er auðvitað aðgerð sem löngu ætti að vera búið að framkvæma. 10% skattalækkun hjá fiskvinnslufólki er í mínum huga kannske ekki eina rétta leiðin til að létta byrðar, bæta kjör og auka öryggi þessa fólks. Trúlega þurfa fleiri leiðir að koma til ef við ætlum að gera okkur vonir um að við höldum þessu hæfa fólki sem í gegnum árin og áratugina hefur starfað í þessari atvinnugrein en hefur borið hvað skarðastan hlut frá borði.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði hér áðan, að alltaf er verið að mismuna í þjóðfélaginu. Meiri hl. Alþingis, ekki bara þess sem nú situr heldur og oft áður, hefur ekki vílað fyrir sér að skerða hlut þessa fólks trekk í trekk, breyta samningum og kjaraákvæðum hjá því eins og svo mörgum öðrum launþegum á þann veg að skerða verulega áunnin réttindi og launakjör. Þetta er ekki að gerast fyrst í dag þó að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafi verið gengið miklum mun lengra í þessum efnum en oft áður. Fordæmin eru mörg. Það verður fróðlegt í ljósi þess að heyra, þegar hæstv. forsrh. svarar hér fsp. væntanlega á næstu dögum um það, hversu stjórnvöld hafi oft og með hvaða hætti gripið inn í gerða kjarasamninga á undangengnum 15 árum. Það hygg ég að kunni að verða fróðleg lesning, ekki bara fyrir fiskvinnslufólk, heldur og almennt fyrir launafólk í landinu og kannske fleiri.

Að sjálfsögðu tek ég undir það frv. sem hér er nú til umr. En ég ítreka að ég hef ekki allt of mikla trú á því að það nægi eitt og sér til að tryggja það með einhverjum hætti að þetta hæfa fólk, sem hefur verið í fiskvinnslunni og frystihúsunum undangengin ár, haldi áfram að vera þar eða skili sér aftur, það sem er búið að yfirgefa þessa vinnustaði. Ég held að það þurfi að gera meira. Það þarf að leita fleiri leiða til að bæta aðstöðuna, tryggja atvinnuöryggi þessa fólks. Hv. frsm. vék hér áðan að því gífurlega öryggisleysi fiskvinnslufólks hér á landi sem fær uppsögn jafnvel margsinnis á sama árinu. Slíkt er auðvitað ekki sæmandi þjóð sem byggir um eða yfir 70% af útflutningsverðmætum sínum á sjávarfangi. Það er ekki sæmandi og það er með ólíkindum hversu augu og eyru þeirra forustumanna þjóðarinnar sem leitt hafa hana undangengin nokkuð mörg ár eða áratugi, hversu augu og eyru þessara stjórnmálaforingja svokölluðu virðast hafa verið lokuð fyrir þeirri nauðsyn að hlúa að þessum þætti, sem er meginþátturinn í okkar atvinnulífi og allt annað byggist á. Það minnkaði fljótt í buddunum hjá öðrum ef þetta fólk skilaði ekki þeim afrakstri og árangri sem það hefur gert í gegnum árin. Það tæmdust þá fljótt buddurnar hér t. d. á þessu svæði og menn keyptu ekki mikið frá degi til dags, ef þetta fólk yrði hrakið úr þessari atvinnugrein vegna þess að misvitrir stjórnmálamenn hafa ekki hugað að því, annaðhvort vísvitandi eða óafvitandi, að bæta svo stöðu og kjör þess að það fengist til að vera áfram í þessari atvinnugrein.

Ég vænti þess að við fáum að heyra hér viðhorf þeirra sem nú ráða ferðinni hér á Alþingi, þess meiri hluta sem skipar nú sæti á Alþingi, stjórnarliðsins, til þessa máls. Ég á bágt með að trúa því að augu manna séu ekki farin að opnast fyrir því, hversu geigvænlega horfir nú einmitt í þessum málum hjá okkur Íslendingum. Og því fyrr sem ráðandi menn gera sér það ljóst að vá er fyrir dyrum, sums staðar þegar skollin á, að því er þetta varðar, því betra. Og ég vil trúa því að menn geti sameinast um það hér, þó ekki væri nema að stíga þetta skref, þó að ég telji að það þurfi að gera meira en þetta til að tryggja þessu fólki ekki bara mannsæmandi laun og launakjör heldur mannsæmandi atvinnuöryggi á borð við aðra þjóðfélagsþegna velflesta.