25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3819 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

315. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ekkert af því sem kom fram í umr. kom mér raunverulega á óvart. Að vísu neita ég því ekki að ég tel að ein ræða, sem hér var flutt, hefði verið betur óhaldin. En sleppum því. Það má deila um atriði í þessu frv., sem ég bjóst við að menn rækju augun í, t. d. hvort þetta ættu að vera 10% eða önnur tala. Ef Alþingi féllist á 20% þá stendur ekkert á mér að samþykkja það. Það kemur hins vegar líka mjög til umræðu að þetta væri ein ákveðin upphæð, hvort sem það væri 50 þús., 80 þús. eða hvað að nú væri, en það væri ekki bundið í prósentur. Ég vil í sannleika sagt afnema alla skatta af verkafólki. Ég er á því að tekjuskattur sé í reynd orðinn fyrst og fremst launamannaskattur og styð þess vegna allar lækkanir á honum og gerbreytingar. Þetta er að verða einn ranglátasti skattur sem til er í þjóðfélaginu. En það kallar fram aðra langa ræðu að útlista það.

Menn mega nú ekki tala eins og þeir hafi aldrei hlýtt hér á umræður eða fylgst með tillögum. Hér liggur fyrir frv. sem ég er flm. að ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, Margréti Frímannsdóttur og Karvel Pálmasyni um að kauptrygging verði þannig að hámarkið, sem þetta fólk sé án kauptryggingar, séu 160 klst. á ári og megi aldrei vera nema 80 klst. í senn. Alþingi á kost á því, ef því er svona annt um þetta fólk, og það er gleðilegt að heyra að svo er, að samþykkja þetta frv. Það myndi gerbreyta málinu. Til Alþingis eru komnar áskoranir frá stjórnum tuga verkalýðsfélaga og í frystihúsum vítt og breitt um landið fer fram undirskriftasöfnun, nokkrar þeirra undirskrifta þegar komnar, um að þetta frv. verði samþykkt. Þm. eiga því vissulega kost á því. Vitanlega leysir þetta frv. ekki allan vanda. En af hverju að tala svona? Ég lagði á það ríka áherslu í minni ræðu að því færi fjarri að þetta leysti allan vanda, það yrði að bæta frekar kjör fiskverkunarfólks, en þetta væri spor í rétta átt. Með samþykkt frv. um kauptrygginguna ásamt með þessum tekjuskattsafslætti mundi vera stigið verulegt spor. Ég tók alveg skýrt fram kjaraskerðinguna á launafólki og það þarf ekkert að vera að brýna mig á því.

Talað var um af hverju þessi niðurfelling næði ekki til útsvars. Þetta nær að nokkru leyti til útsvars. Ef viðkomandi borgar mjög lágan tekjuskatt eða engan, þá gengur ónýttur persónuafsláttur til greiðslu á útsvari. En það eru viss byggðarlög þannig að það er kannske svo og svo stór hluti, yfir helming af tekjum, 80% af útsvörum frá sjómönnum og fiskverkunarfólki. Þau bæjarfélög mundu hreinlega snarast yfir ef svo væri gert. Það er með tilliti til þessara bæjarfélaga sem það er ekki lagt til.

Út úr þessu frv. kemur ekki neitt, er sagt. (Gripið fram í: Hver segir þetta?) Vertu nú ekki, hv. þm., að stríða mér neitt á því hver segir þetta. Þú heyrðir það vel. Það kemur út úr því að þetta fólk, eins og ég tók fram, vinnur í bónus. Það vinnur langan vinnudag. Og ég tók skýrt fram í ræðu minni að í mörgum tilfellum gætu árstekjur vegna þessa langa vinnudags orðið nokkuð sæmilegar, en það er mikið á sig lagt fyrir það. Og það væri vissulega til bóta. Það hefur enginn talið að þetta væri lausn. Ég lagði áherslu á hið gagnstæða, það yrði að gera meira. Og það liggur hér fyrir frv. eins og ég hef áður bent á.

Það er verið að tala um að fólkinu væri illa við að verið væri að tala hér um Háskólann og önnur menningarmál. Það var hv. 5. þm. Vestf. sem það sagði. Það sem var ákaflega skiljanlegt og þm. átti við var að ef það hallaði verulega á fiskiðnaðinn þá væri ekkert fé hvorki til háskóla né menningarlífs. Ef undirstaðan brygðist þá þýddi lítið að tala um annað. Það má ekki snúa út úr þessu þannig að það sé verið að fjandskapast við háskóla eða menningu — öðru nær.

Síðan er spurt: Af hverju er ekki verkalýðsforustan búin að lagfæra kjör þessa fólks? Ja, ég verð nú að spyrja: Hvar hefur fólk eiginlega verið? Ár eftir ár, samninga eftir samninga hefur verið reynt, eins og ég tók fram í ræðu minni, að lyfta þessu fólki, fá betri tryggingu fyrir það. Ég minnti á það að þarna væri andstaðan hörðust. Afleiðingar bónussins eru kannske að koma fram. Yfirgnæfandi meiri hluti fólks í frystihúsum var fylgjandi bónusnum á sínum tíma. Hins vegar hefur hann greinilega farið út í hreinar öfgar. Og afleiðingarnar eru að koma fram fyrir þá sem lengi hafa í honum starfað, að þarna er of langt gengið. Það þarf ekki endilega að afnema hann að fullu. Það eru til margs konar form á þessu og þyrfti fólk að kynna sér það áður en það færi mikið um þetta að fullyrða.

Ég hef sýnt fram á í minni frumræðu að ég dragi mjög í efa að ríkissjóður tapaði nokkuð á þessu, vegna þess að bætt kjör fiskverkunarfólks skila sér í aukinni framleiðslu og jafnframt mundi það draga úr þörfinni á að flytja inn verkafólk. Ég endurtek: mér er það mjög til efs. Ég er líka sannfærður um að þjóðfélagið í heild græðir í þessu tilfelli. Hér er ekkert verið að mótmæla því að til staðar sé lágt kaup hjá launafólki almennt í landinu, fjarri því. Ég held ég hafi tekið það tvisvar fram í ræðunni. Og það er ekki verið að tala um að ekki eigi eitthvað að hygla þessu fólki. Ég tók það fram um sjávarútveginn að það væru ekki síður aðrir sem græddu á honum en þeir sem í honum ynnu. Þarna var ekkert nýtt.

Ég fagna því í sjálfu sér að hæstv. fjmrh. lét svona góð orð falla um þetta frv. þó að í þeim fælust engar skuldbindingar eða loforð. En gerum okkur bara grein fyrir því að það frystihús sem er hér næst Alþingishúsinu getur ekki mannað öll sín borð, það fæst ekki fólk. Gerum okkur grein fyrir því að á fjölmörgum stöðum allt í kringum landið verður að setja fisk í ódýrari umbúðir og selja hann á ódýrari markaði vegna þess að fólk fæst ekki. Við verðum að hafa þetta í huga. Þarna er ákveðið neyðarástand að skapast í þjóðfélaginu. Það er verið að reisa rönd við því þó í litlu sé.

Ég er alveg reiðubúinn að ræða breytingar á frv., hvort sem það er prósentuhækkun eða ákveðin föst upphæð. Ef þetta frv. verður samþykkt og frv. um kauptryggingu verkafólks sem liggur fyrir þingi þá hefur rést úr kjörum þessa fólks. Það hefur enginn haldið því fram að þetta væri lausn á kjörum launamanna í landinu. Ég held að við verðum að líta bara á þessar einföldu staðreyndir. Þær æpa á okkur og við þurfum að ganga til móts við þær en ekki að flýja þær.

Ég er á andstæðri skoðun við hæstv. fjmrh. þegar hann dregur í efa að hægt sé að afgreiða þetta með hliðsjón af tæknivinnu hjá skattstofum eftir að framtöl hafa átt sér stað og verið skilað. Það er mjög auðvelt. Það kostar að vísu nokkra vinnu en við skulum ekkert vera að telja eftir vinnu sem er í þágu þessa fólks. Fjmrh. var reyndar ekki að því. En það er hægt að reikna út hvað þetta er. Þetta er ákaflega misjafnt eftir byggðarlögum, eftir frystihúsum og frá ári til árs. En meginþorrinn af þessu fólki greiðir einhvern tekjuskatt og ef það greiðir hann ekki þá greiðir það útsvar og þá fer þessi ónýtti persónuafsláttur til greiðslu á útsvari.

Nú reynir á Alþingi, hvort það ætlar að svara þessu fólki með jákvæðum aðgerðum eða hvort það ætlar að svæfa þetta í nefnd. Ég treysti hv. þd. til þess að svo verði ekki — afgreiðslan verði jákvæð og snögg.