26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3822 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

325. mál, samfelldur skólatími

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þegar till. til þál., sem hér er fjallað um, kom fyrst til umræðu á Alþingi hafði nefnd á vegum menntmrn., undir forsæti hæstv. núv. forseta Ed., setið að störfum í nokkra mánuði og fjallað m. a. um það mál sem hér er spurt um, samfelldan skólatíma. Í erindisbréfi þeirrar nefndar, sem tók til starfa í júlí 1983, sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

Menntmrh. hefur ákveðið að skipa vinnuhóp sem athugi sérstaklega tengsl fjölskyldu og skóla og geri tillögur um hvernig bæta megi þau tengsl. Hópurinn athugi sérstaklega eftirfarandi:

1. Hvernig má samræma betur vinnutíma foreldra og skólabarna?

2. Hvað er unnt að gera í skólastarfi til að styrkja samband barna og foreldra og þar með stuðla að samheldni fjölskyldna?

a) Hvaða ráðstafanir í ofangreindu skyni væri hægt að gera án tilkostnaðar, b) með litlum tilkostnaði, c) aðrar ráðstafanir.“

Síðar segir í erindisbréfinu:

„Sérstaka áherslu þarf að leggja á athugun á samfelldum skóladegi, skynsamlegu fyrirkomulagi nestismála og fleira í samráði við fulltrúa foreldra. Hópurinn hafi í störfum sínum samráð við samtök foreldra- og kennarafélaga eftir því sem staða verks gefur tilefni til.“

Á meðan unnið var að þessu verkefni og hv. fyrirspyrjandi flutti þáltill. um þetta efni komst þingið að þeirri niðurstöðu að það væri málinu til stuðnings að till. væri samþykkt og raunar þá haldið áfram með það verk sem hafið var. Þegar menntmrn. barst ályktunin, sem var samþykkt 9. apríl, hafði nefndin m. a. fjallað um þessi efni sem í ályktuninni segir og þess vegna vísaði rn. þál. til nefndarinnar til umfjöllunar. Í fyrri hluta ályktunarinnar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að næsta skólaár verði komið á einsetningu í grunnskólum og samfelldum skóladegi þar sem húsnæði og aðrar aðstæður leyfa.“

Nú vita menn að það er því miður ekki nægilega víða sem húsnæði og aðrar aðstæður leyfa slíkt. Þess vegna er hér að nokkru leyti um langtímamarkmið að ræða. En að því er skipulagsatriðin varðar hefur verið unnið að þessu atriði.

Nefndin sem áður er getið starfar enn og skilaði áfangaskýrslu í október s. l., þar sem m. a. er fjallað um samfelldan skóladag. Sú stefna sem nefndin markar um þetta atriði og rn. mun beita sér fyrir er í samræmi við áðurnefndan lið þessarar þál. Síðan er í tillögum nefndarinnar talað um nokkur atriði sem geti orðið til þess að ná þessu umrædda markmiði. Því miður verður það of langt mál að lesa, vegna þess tíma sem til umráða er, en þau eru í skjali, sem útbýtt hefur verið til þm., áfangaskýrslu nefndar um tengsl heimila og skóla og um samfelldan skóladag. Skýrslunni var útbýtt hér í vetur og á bls. 28 eru þessar tillögur. Sumar þeirra eru skipulagsatriði, eins og sú fyrsta sem er um bætt skipulag og stundaskrárgerð og að stefnt skuli að samfelldum viðverutíma í skólum. Það eykur líkur á samfeldni tíma nemenda í skólanum. Samfelldur skóladagur þýðir ekki endilega að nemendur séu allan daginn í skólanum, heldur einungis að stundataflan sé ekki bútuð í sundur.

Önnur tillagan var um að tekið skuli tillit til þessa atriðis við hönnun skólahúsnæðis og í framkvæmdum við skólabyggingar. Þetta er auðvitað að mörgu leyti langtímaverkefni.

Í þriðja lagi var nefnt að efla skólasöfnin og vinnuaðstöðu nemenda utan fastra kennslustunda, einmitt til þess að ekki skapist göt í stundaskránni með þeim afleiðingum að nemendur þurfi að fara úr skólanum á milli, ef heppilegra þykir að þeir séu á staðnum, sem vitanlega er oftast, og koma upp lesaðstöðu í tengslum við skólasöfn.

Fjórða tillagan var um að gefa kost á nestispökkum eða máltíðum á skólatíma, að unnt væri að gera slíkt með einhvers konar áskrift að nestispökkum. Það hefur nokkuð verið unnið að þessu efni og nefndin gert tillögur um hvernig því megi fyrir koma.

Loks er nefnt að skipuleggja þurfi skólastarf á sveigjanlegan hátt, þannig að nemendur geti byrjað og lokið skóladegi á mismunandi tímum. Losa þurfi um fastmótað bekkjakerfi ef önnur hópaskipan gefur betra tækifæri til þess að hafa skóladaginn samfelldan.

Fyrir öllum þessum tillögum er gerð nánari grein í áfangaskýrslu nefndarinnar. Tekið verður tillit til þeirra við skipulagningu næsta skólaárs.

Þessi áfangaskýrsla fjallar einkum um þéttbýli. Nefndin vinnur nú að gerð sérstakrar skýrslu um dreifbýlið. Þar hagar á margan veg öðruvísi til einmitt um þetta efni sem um er spurt. Ákveðið var að vinna verkið í tvennu lagi af þeim ástæðum. Ég vænti þess að við eigum líka eftir að sjá hér á Alþingi áfangaskýrslu um sama efni í dreifbýli.

Skv. upplýsingum formanns nefndarinnar, hæstv. forseta Ed., hefur nefndin nokkuð rætt síðari lið þál. fyrirspyrjanda. Sú skoðun kom fram meðal nefndarmanna að könnunin, sem lagt er til að gerð verði, geti orðið svo kostnaðarsöm að staldra verði við áður en hafist sé handa. Menn þurfi að gera sér grein fyrir því hvort fé það, sem til könnunarinnar yrði varið, kæmi ekki fleiri nemendum til góða ef það væri notað með öðrum hætti, t. d. í uppbyggingu skólasafna, en það gæti auðveldað að koma á samfelldum skóladegi. Nefndin vill freista þess að gera sér ljóst hversu umfangsmikil og kostnaðarsöm sú könnun, sem þál. gerir ráð fyrir, yrði í framkvæmd. Í þeim tilgangi sneri hún sér til fræðslustjóranna í fræðsluumdæmunum átta. Þeir voru beðnir um að gera nefndinni grein fyrir því hvort þeir teldu könnunina gagnlega og enn fremur að gera lauslega áætlun um kostnað og umfang í hverju umdæmi fyrir sig. Þessar upplýsingar hafa ekki enn þá borist en þegar þær berast mun verða tekin ákvörðun um það hvert áframhaldið skuli vera.