26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

325. mál, samfelldur skólatími

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta Ed. fyrir þær upplýsingar sem hún gaf hér. Það er kannske í raun og veru óþarfi fyrir mig að koma hér aftur í ræðustól, en ég freistast til þess að beina þeirri ráðleggingu til hv. 10. landsk. þm. að spara sér hneykslunina til annars tækifæris. Þetta mál er nefnilega í athugun, nákvæmlega eins og orðað er í þál. sem hér er um rætt, og hjá því fólki sem best þekkir til og hefur raunar það verkefni að gera úttekt á fjárþörf m. a. til þessara hluta. Ætli sannleikurinn sé nú ekki sagna bestur hér sem endranær, en hann er sá að hv. þm. vildi gjarnan láta koma till. um þetta efni, vegna þess að þetta er mjög gott mál. En málið var bara í fullum gangi þegar till. var flutt og er enn, og þetta er reyndar ekkert mjög langur tími þegar tillit er tekið til þess, að a. m. k. síðan ég var tvítug, og það er æðilangt síðan, hefur verið talað um þörfina á því að koma á samfelldum skólatíma. Bæði ég og hv. fyrirspyrjandi og vafalaust flestir þm. geta litið í eigin barm og muna sjálfsagt eftir því hvað þeir hugsuðu oft í ungdæmi sínu að ósköp væri nú þægilegt að þurfa ekki að vera að þessum hlaupum og betra væri að hafa samfelldan skólatíma. Þetta hugsa menn enn í dag.

Menn hafa náð ýmsum áföngum í þessu. Þetta eru allt annars konar vandamál í þéttbýli en dreifbýli. Þessi spurning á ekki við með sama hætti þar sem eru heimavistarskólar t. d. Það eru einmitt fræðslustjórarnir sem hafa yfirsýn yfir þessa hluti, gera kostnaðaráætlanir í sínum umdæmum, en hv. þm. hneykslaðist mjög á að þeim skyldi hafa verið fengið þetta mál til athugunar. Það vill nú svo til að það eru einmitt þeir sem gerst mega um þetta vita. Og að svo miklu leyti sem hægt er að gera nákvæma áætlun á þessu stigi um þetta, þá eru það þeir sem þurfa að vinna að því. Áætlun fyrir næsta skólaár verður væntanlega gerð í sumar. Ég vonast því til að þá liggi fyrir eitthvað frekar og hægt verði að stíga ný skref til framfara í þessum málum á næsta skólaári. Þetta eru mál sem við verðum að reyna að leysa skref fyrir skref eins og svo margt það sem til framfara horfir.