26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

325. mál, samfelldur skólatími

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég er nú ekki viss um nema það kunni að vera svo í ýmsum skólum í þéttbýli að skóladagur nemenda sé enn sundurslitnari en var fyrir svona 20–25 árum. Ég hef vissar efasemdir um þá fullyrðingu hæstv. menntmrh. að öll séu þessi mál í betra horfi núna.

En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs er fyrst og fremst sú að 10. apríl 1984 samþykkti Alþingi Íslendinga þáltill. um að könnun skyldi fara fram á ákveðnum kostnaðarþáttum á sviði skólamála. Nú er tæpt ár liðið síðan Alþingi gerði þessa samþykkt og það kemur hér fram að enn er þetta mál í athugun og því hefur verið vísað til starfshóps, sem hefur unnið ágætt starf undir forustu hæstv. forseta Ed., og mér er nokkuð kunnugt, en bara á allt öðru sviði. Síðan skjóta menn sér hér undan með því að segja að málinu hafi verið vísað til þessa starfshóps. Hér er auðvitað um afar einfalt mál að ræða, mál sem einfaldlega hefði átt að vísa til fjárlaga- og hagsýslustofnunar ríkisins eða ríkisendurskoðunar sem hefur tekið að sér slík verkefni.

Nú er liðið tæpt ár síðan Alþingi samþykkti þessa till. og málið er í athugun í starfshópi, sem er að fjalla um allt aðra hluti að meginefni til og hefur unnið þar gott starf, ekki skal ég draga úr því. Mér finnst það vera umhugsunaratriði hvað Alþingi Íslendinga á að láta framkvæmdavaldið og einstaka ráðh. bjóða sér í þessum efnum. Ég tel að hér hafi ekki verið farið að vilja Alþingis eins og hann kemur skýrt fram í áðurnefndri þál. heldur er verið að drepa málinu á dreif og draga það allt of lengi. Þessi könnun er ekki svo umfangsmikið mál að því sé ekki hægt að ljúka á einhverjum tiltölulega skömmum tíma, kannske 1–2 mánuðum. Ég leyfi mér að átelja þau vinnubrögð sem hafa verið höfð uppi af hálfu hæstv. menntmrh. og ríkisstj. í þessu máli.