26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3827 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

325. mál, samfelldur skólatími

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég má til með að gera athugasemd við ummæli bæði hv. 5. landsk. þm., sem nú talaði, og hv. 10. landsk. þm., fyrirspyrjanda. Þau nefna bæði að starfshópurinn sem hefur unnið að þessu máli sé að vinna að allt öðrum verkefnum. Það er bara alrangt. Ég vitnaði einmitt til þess, ég las upp úr erindisbréfinu í svarræðu minni þar sem segir að starfshópnum er falið nákvæmlega þetta verkefni. Það stendur hér skýrum stöfum: „Sérstaka áherslu þarf að leggja á athugun á samfelldu skólastarfi, skynsamlegu fyrirkomulagi nestismála o. fl. í samráði við fulltrúa foreldra o. s. frv.“ Oft finnst mönnum einhvern veginn umfangsmeira og skemmtilegra til frásagnar á leiðarþingum í kjördæmum sínum að geta sagt að skipuð hafi verið nefnd í tilefni af þessari ályktuninni eða hinni. En mér þykir skynsamlegra að hafa ekki margar nefndir í sama verkefninu eða skipa alltaf nýja og nýja nefnd, heldur að þeir sem hafa málið með höndum og þeir sem gerst mega þekkja til vinni áfram úr verkefnunum. Ég tel það skynsamlegra en að skipa nýja nefnd. Og ég get alveg sagt hv. 5. landsk. þm. það að ef fjárlaga- og hagsýslustofnun hefði fengið þetta mál í hendur hefði hún vafalaust leitað upplýsinga hjá fræðslustjórunum rétt eins og þessi nefnd gerði. Það eru nefnilega þeir sem eru með upplýsingarnar.