26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

303. mál, reglur um byggingar framhaldsskóla

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. menntmrh. Ég hefði að vísu kosið að fá einhver skýrari svör eða svör yfirleitt og helst viljayfirlýsingu. Það kom fram í máli hæstv. ráðh. að um væri að ræða tímabæra fsp. En mér virðist helst að þetta mál allt saman tengist því að hæstv. ráðh. hefur gefist upp á eða gefið upp á bátinn að reyna að ná samræmingu á löggjöf um framhaldsskóla. Það er mjög brýnt að slík löggjöf komi fram í dagsljósið sem fyrst.

Mismunun er mjög mikil á þessu sviði almennt, ekki bara hvað varðar reglurnar um bygginguna og stofnkostnaðinn. Þó er það ekki lítið atriði þegar litið er til þess að þegar um er að ræða byggingu menntaskóla er hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði 100% en aðeins 60% þegar um er að ræða fjölbrautaskóla. Auk þess er sá hlutur aldrei 60% heldur mun lægri í reynd. Það væri auðvitað hægt að tala hér langt mál um þá mismunun sem fram kemur líka í rekstrarkostnaði annars vegar við menntaskóla og hins vegar við fjölbrautaskóla, þar sem prósentuhlutur ríkisins er 100% í rekstri menntaskóla en ekki nema 50% þegar kemur að fjölbrautaskólunum.

Mér finnst að þetta mál þurfi að skoða allt í samhengi og taka það til athugunar að skóli sem þjónar heilu byggðarlagi er ómetanlegur og er að því mikill sparnaður fyrir nemendur að fá menntun sína í heimabyggð auk þess sem félagslegt gildi menntastofnunar á staðnum er mikið. Ég vonast til að við fáum sem fyrst að sjá heildarlöggjöf um þessi mál.