26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3830 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

340. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 2. þm. Austurl. á þskj. 545 skrifaði ég fyrirtækinu Kísilmálmvinnslunni hf. til og óskaði eftir upplýsingum frá fyrirtækinu og geri svör fyrirtækisins við fyrstu fjórum liðunum að mínum og vitna nú orðrétt til þeirra:

„Vegna fsp. frá Helga Seljan til iðnrh. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði telur Kísilmálmvinnslan hf. rétt að fram komi eftirfarandi varðandi einstaka liði fsp.:

1. Rætt hefur verið við hátt á annan tug erlendra fyrirtækja um þátttöku í byggingu og rekstri kísilmálmverksmiðjunnar á Reyðarfirði. Þeirri meginreglu hefur verið fylgt að skýra ekki opinberlega frá nöfnum einstakra fyrirtækja enda hefur þess verið óskað af hálfu hinna erlendu aðila. Hjá því hefur þó ekki verið komist að frá nöfnum nokkurra þessara fyrirtækja hefur verið greint í íslenskum fjölmiðlum. Það eru Elkem í Noregi, Dow Corning Corporation í Bandaríkjunum, Voest Alpine í Austurríki og Rio Tinto Zink Metals í Bretlandi.

Með tilvísun til þess að viðræður standa enn yfir við nokkur fyrirtæki er það ekki talið þjóna hagsmunum íslenskra stjórnvalda að greina opinberlega frá viðræðum við einstök fyrirtæki eða niðurstöðum þeirra þar sem þær liggja fyrir. Slíkt gæti gert samningsstöðu mjög erfiða og skaðað hagsmuni Kísilmálmvinnslunnar hf. Þá ber og að virða þær óskir hinna erlendu aðila að á viðræðurnar sé litið sem trúnaðarmál af hálfu beggja aðila.

Ekki hefur sérstaklega verið rætt við innlenda aðila um eignaraðild þeirra að verksmiðjunni og enginn innlendur aðili hefur sýnt því áhuga að fyrra bragði.

2. Hinum erlendu aðilum sem rætt hefur verið við hefur verið kynnt það ákvæði laga nr. 70 frá 1982, um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, að ekki minna en 51% hlutafjárins skuli jafnan vera í eigu íslenska ríkisins. Jafnframt hefur þeim verið greint frá því að væri eitthvert hinna erlendu fyrirtækja reiðubúið til að eiga meiri hluta hlutafjárins þá væri núv. iðnrh. tilbúinn til þess að beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum til þess að slíkt væri mögulegt. Með hliðsjón af því að viðræður standa yfir við nokkra aðila er ekki talið rétt á þessu stigi að greina frá þeirri eignarhlutdeild sem rædd hefur verið í hverju tilviki.

3. Athuganir á arðsemi verksmiðjunnar hafa verið miðaðar við 18 millidala orkuverð á kwst. Fram hefur komið af hálfu hinna erlendu aðila að þeir séu ekki tilbúnir til þátttöku í byggingu og rekstri verksmiðjunnar á grundvelli þess verðs þar eð það tryggi ekki samkeppnisstöðu hennar gagnvart öðrum framleiðendum og hagstæðara raforkuverð bjóðist annars staðar. Engin formleg tilboð hafa verið gerð um annað raforkuverð en að framan greinir.

4. Ef undan er skilin nákvæm áætlun um fjármögnun og hugsanlegir samningar um markaðsmál þá er lokið öllum öðrum þáttum undirbúnings að byggingu kísilmálmverksmiðjunnar á Reyðarfirði er ástæða er talin til að hafa lokið á þessu stigi. Fjármögnun og markaðsfærsla afurða verksmiðjunnar er hluti eignaraðildarviðræðna þeirra er nú eiga sér stað. Viðræður við erlenda aðila um eignaraðild að kísilmálmverksmiðjunni eru í höndum nefndar er skipuð var af iðnrh. í júní s. l. Í nefndinni eiga sæti þeir Birgir Ísl. Gunnarsson, formaður, og Guðmundur G. Þórarinsson úr stóriðjunefnd og Axel Gíslason og Geir H. Haarde fulltrúar stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. Með nefndinni hafa starfað starfsmenn Kísilmálmvinnslunnar hf. og aðrir sérfræðilegir ráðunautar.

Eins og fram hefur komið hér að framan þá hafa niðurstöður ekki fengist enn í viðræðum við erlenda aðila um aðild þeirra að verksmiðjunni en nefndin hefur lagt áherslu á að hraða störfum sínum.“

Undir þetta svarbréf skrifar fyrir hönd Kísilmálmvinnslunnar hf. Geir A. Gunnlaugsson framkvæmdastjóri.

Vegna 5. liðar sem hljóðar svo: „Hvaða skilyrðum þarf að vera fullnægt til að ráðh. beiti sér fyrir því að ríkisstj. taki ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir við verksmiðjuna?“ vil ég svara því til að það eru þau skilyrði að afkoma fyrirtækisins þyki viðunandi, og eru markaðsmál og orkuverð meginatriði þeirra skilyrða.