26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3835 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 595 ber hv. 6. landsk. þm. fram fsp. til landbrh. um vatnstöku Íslandslax hf. í Grindavík. Vegna orða hans hér vil ég taka það fram að þessi fsp. er eðlilega fram borin á þann hátt að henni sé beint til landbrh., þar sem landbrn. hefur farið með málefni jarðarinnar Staðar, ég veit ekki hvað lengi. Og allir þeir samningar sem hafa átt sér stað hafa verið gerðir af landbrn., enda þótt þarna sé um kirkjujörð að ræða. Ég hygg að sú skipan hafi verið allt frá því sú verkaskipting var gerð í stjórnarráðinu að landbrn. væri sérstakt rn.

Við spurningu hv. þm. um hver sé húsbóndi kirkjumrh. get ég aftur á móti ekki gefið svar. Ég hygg að a. m. k. að sumu leyti sé kirkjumrh. settur yfir biskup, en hver er þar æðri læt ég fyrirspyrjanda um að giska á.

Að þessum formála loknum skal ég reyna að svara í stuttu máli þeim spurningum sem hér eru fram bornar. 1. spurningin er þannig: „Var ráðh. ljóst þegar hann heimilaði Íslandslaxi hf. vatnstöku í landi Staðar í Grindavík að samningaviðræður stjórnar Hitaveitu Suðurnesja og Íslandslax hf. um sölu á heitu vatni voru á lokastigi?“

Fulltrúi landbrn., sem vann að samningagerðinni, hafði samband við framkvæmdastjóra Hitaveitu Suðurnesja í janúarmánuði s. l. og gerði grein fyrir því að hann teldi að ef ekki yrði um samninga að ræða milli Hitaveitu Suðurnesja og Íslandslax mundi verða veitt heimild til töku á heitu vatni úr landi jarðarinnar Staðar. Þarna var því haft samband á milli með nokkrum fyrirvara.

2. spurning: „Var haft samband við bæjarstjórn Grindavíkur eða aðra aðila á Suðurnesjum um samning rn. við Íslandslax hf.?“

Aðdragandi þess máls er sá að með bréfi dagsettu 28. mars 1984 fór Samband íslenskra samvinnufélaga þess á leit við landbrn. að fá spildu úr landi Staðar í Grindavík til leigu fyrir byggingu mannvirkja og annað athafnasvæði fiskeldisstöðvar. Auk leigu á umræddri landspildu var óskað eftir vatnsréttindum fyrir bæði heitt og kalt vatn í næsta nágrenni lóðarinnar vegna reksturs fiskeldisstöðvar.

Þessu bréfi svaraði landbrn. 30. maí 1984 þar sem gefið er fyrirheit um lóð á þessum stað sem rúmi byggingar og nauðsynlega aðstöðu fyrir fiskeldisstöð af þeirri stærð og gerð sem Samband íslenskra samvinnufélaga áformar að reisa. Þá er og gefið fyrirheit um að með í leigunni fylgi nauðsynleg vatnsréttindi, bæði fyrir heitt og kalt vatn, í nágrenni lóðarinnar vegna reksturs fiskeldisstöðvarinnar, allt með fyrirvara um að samkomulag náist milli aðila um leiguskilmála, stærð og mörk lóðar ásamt afmörkun vatnsréttinda og heimildir til rannsókna og jarðborana. Þá er áréttað í bréfi rn. að fyrirheitin séu gefin með fyrirvara um að bæjarstjórn Grindavíkur samþykki byggingu fiskeldisstöðvarinnar á umræddum stað og ráðstöfun lands undir hana skv. ákvæðum jarðalaga.

Þann 5. júní er bæjarstjórn Grindavíkur gerð grein fyrir erindi Sambands íslenskra samvinnufélaga og áformum rn. um leigu lands á stað í Grindavík ásamt nauðsynlegum vatnsréttindum bæði fyrir heitt og kalt vatn. Bæjarstjórn Grindavíkur er beðin að taka afstöðu til þess hvort hún muni heimila byggingu fiskeldisstöðvar á umræddu landi. Í bréfi bæjarstjórnar Grindavíkur til rn. 29. júní 1984 kemur fram að bæjarstjórnin samþykki fyrir sitt leyti að heimila byggingu fiskeldisstöðvar með þeim skilyrðum að fiskeldisstöðin og tilheyrandi mannvirki falli að skipulagi. Aðgangur að sjó verði takmarkaður þannig að hann útiloki ekki starfrækslu annarra fyrirtækja í nálægð hins leigða lands. Þess verði gætt að mengun lands og sjávar verði í lágmarki og sneitt verði hjá ræktuðu landi til mannvirkjagerðar eftir því sem unnt er. Ekki er í bréfi bæjarstjórnar Grindavíkur minnst á vatnsréttindi eða ósk um samráð við bæjarfélagið eða önnur sveitarfélög á Suðurnesjum um vatnstöku í landi Staðar, en frá upphafi mun fyrirtækið Íslandslax hf. hafa haft náið samband og samstarf við bæjarstjórn Grindavíkur m. a. um samninga um afslátt á opinberum gjöldum til sveitarfélagsins fyrstu árin, eftir því sem bæjarstjórn Grindavíkur hefur tjáð mér í samtali.

Ég vil vekja athygli á því að ólíkt styttri tími líður frá því að skrifað er bæjarstjórn Grindavíkur og þangað til hún gefur svar sitt en landbrn. gefur sér og er það vissulega til fyrirmyndar hjá bæjarstjórn Grindavíkur við afgreiðslu mála.

3. spurning: „Var haft samráð við iðnrh. um þessa samningsgerð?“

Svarið er: Það var haft ítarlegt samband við Orkustofnun sem fjallaði rækilega um þetta mál og fylgdist með samningagerðinni eins og bréfaskipti við hana bera með sér. Hins vegar hygg ég að ekki hafi verið haft beint samband við iðnrh. sjálfan að öðru leyti en því að ég kynnti þetta mál á ríkisstjórnarfundi áður en skrifað var undir samninginn. Í 17. gr. orkulaga segir að um hagnýtingu og hvers konar ráðstöfun jarðhita, sem er í eigu ríkisins, skuli leita umsagnar Orkustofnunar áður en til ráðstöfunar kemur. Samkvæmt orkulögum er það Orkustofnun sem er umsagnaraðili.

4. spurning: „Hafa verið gerðar rannsóknir á því hvað vatnsbólin á Suðurnesjum þola mikla vatnstöku án þess að það hafi áhrif á neysluvatn íbúanna?“

Svarið er að allmiklar rannsóknir munu hafa farið fram á vatnsmálum Suðurnesja. En að sjálfsögðu mun hv. fyrirspyrjandi vera fróðari um þau mál en ég. Enginn mun þó vera kunnugri þessum málum en Jón Jónsson jarðfræðingur, fyrrverandi starfsmaður Orkustofnunar, og hann var frá upphafi með í ráðum fyrir hönd Íslandslax í sambandi við framkvæmdir á Stað. Það má geta þess að það var dælt upp úr þeirri gjá sem vatnið skal tekið úr áður en framkvæmdir voru hafnar og dælt upp eins miklu magni og áformað er að taka. Vatnsborðið í gjánni lækkaði um 1 cm fyrst og síðan ekki meir þótt dælingu væri haldið áfram. Þetta er eitt af því sem mér er kunnugt um að hafi verið athugað í sambandi við þessi mál.

Þá er 5. spurning: „Hefur rn. í hyggju að gera hliðstæða samninga við aðrar laxeldisstöðvar sem fyrirhugað er að reisa við strendur Grindavíkur?“

Því get ég svarað að engir aðrir hafa rætt við mig um að fá land á leigu á jörðinni Stað. Yrðu slíkir samningar gerðir hlytu þeir að verða sambærilegir við þennan. Hins vegar, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, hefur rn. borist bréf frá bæjarstjórn Grindavíkur þar sem hún óskar eftir að fá að kaupa jörðina Stað. Það mál er til frekari athugunar og m. a. hefur bæjarstjórn Grindavíkur verið beðin að leggja fram verðtilboð um það. Meðan ekkert slíkt liggur fyrir er ákaflega erfitt að ræða það efnislega.