26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Mér þótti miður að hæstv. landbrh. snýr út úr því sem við erum hér að segja. Það datt engum manni í Grindavík í hug að landbrn., skulum við segja, færi að höndla með heitt vatn í Staðarlandi og það var aldrei um það rætt við Grindavíkurbæ. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Svo geri ég þá kröfu að sveitarstjórnirnar á Suðurnesjum fái aðgang að þeirri skýrslu sem búið er að gera um vatnsmálin á Suðurnesjum. Það hlýtur að vera að sveitarstjórnirnar þurfi að sjá þá skýrslu því að menn hafa verulegar áhyggjur af vatnsmálunum.

Grindvíkingar segja mér að landbrn. hafi ekki enn svarað ósk þeirra um að kaupa Staðarlandið og þeir segja líka að það standi á landbrn. að gefa til kynna hvaða verð það vilji fá fyrir landið. En hvers vegna virðir hann bæjarstjórnina ekki svars?