26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3843 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að andmæla því að landbrh. hafi verið að semja þarna langt undir því verði sem annars staðar semst um. Ég skýrði frá því áðan að á s. l. ári var gerður samningur við Hitaveitu Akureyrar um jarðhita í jörð norður í Eyjafirði og það verð er lægra en það verð sem nú var samið um. Það var haft til hliðsjónar.

Spurt var af hverju Grindavík hafi ekki fengið að kaupa Staðarland. Ég sagði að í viðræðum við bæjarstjórn Grindavíkur hefði verið óskað eftir að bæjarfélagið gerði tilboð um hvað það vildi greiða fyrir landið. Það hefur ekki komið enn þá. Það er langt frá því að því hafi verið hafnað. Spurningin er hvort Alþingi þurfi að grípa í taumana. Þetta er atvinnurekstur sem við væntum að verði mikils virði á næstu árum og áratugum ef ríkisvaldið reynir að stuðla að því að hann komist af stað með því að hafa orkuverð til hans sambærilegt en ekki lægra en það sem ríkisvaldið semur um á öðrum stöðum.

En ég ítreka það sem ég sagði áður um ákvæði í samningnum. Að 5–7 árum liðnum, þegar sést hvaða framkvæmdir verður um að ræða og hver umsvif verða, verða öll verðákvæði endurskoðuð. Þá verður reynt að semja um sambærilegt verð við það sem gerist annars staðar. Ef ekki nást samningar verður úrskurðað um að þarna verði um engin forréttindi að ræða. Ég bað ríkislögmann sérstaklega að athuga, áður en samningurinn var gerður, að það atriði væri vandlega tryggt. Ég vísa algerlega-á bug þeim fáránlegu fullyrðingum að hér sé um forréttindi að ræða.