26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3849 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

376. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 604 er fsp. til mín um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð og vitnað þar til þáltill. sem samþykkt var 17. febrúar 1981 um það mál. Þessari þál. var vísað til athugunar hjá sifjalaganefnd sem er búin að starfa alllengi og fjallar m. a. um þetta mál. Þetta viðfangsefni, sem varðar eignarrétt og erfðarétt, er vandmeðfarið og viðkvæmt eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. En þetta málefni hefur verið til meðferðar í laganefndum bæði á Norðurlöndum og innan Evrópuráðs. Hefur norræna sifjalaganefndin, sem Ísland á aðild að, m. a. haft viðfangsefnið til meðferðar þar sem leitað hefur verið eftir sameiginlegri afstöðu landanna. En það hefur komið fram að mjög mikilvægt er að samræmi sé í löggjöf Norðurlandanna á ýmsum sviðum vegna þeirra nánu samskipta sem þegnar þessara landa hafa og þeir njóta réttinda í því landi þar sem þeir eru búsettir. Það hafa komið fram mjög leið tilvik vegna þess að ekki er um algjörlega sambærilegt lagaákvæði að ræða á Norðurlöndunum. Þess vegna er þess vænst að það takist að fá sameiginlega niðurstöðu hjá Norðurlöndunum og fulltrúi Íslands þar, sem er einnig formaður sifjalaganefndarinnar íslensku, hefur þar haft forustuhlutverk um að reyna að ná samstöðu. Þess er að vænta að á þessu ári megi ráða hvert stefnir í þessari vinnu hinnar norrænu sifjalaganefndar. Þess er því ekki að vænta að á þessu þingi verði flutt frv. til laga um eignar- og erfðarétt fólks í óvígðri sambúð. Eins og ég sagði verður það ekki fyrr en séð verður þá síðar á árinu hverja stefnu málið tekur í þessum undirbúningi.