26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3851 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

376. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Reykv., fyrir að hreyfa þessu máli hér. Það lætur e. t. v. ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en er engu að síður mjög stórt og varðar fjölmennan hóp í þessu þjóðfélagi. Ég vil einnig taka undir með þeim hv. þm. sem hér hafa talað, aðallega úr hópi virðulegra kvenna hér á Alþingi, og eggja nú mjög hæstv. ráðh. til dáða í þessum málum. Ég hef alveg fram undir síðustu viku skipað þann þjáningahóp sem hér er til umfjöllunar, kannske einn fárra þm. Mér er því — eða var a. m. k. málið skylt.

Það er þannig um hjónabandið, sem er auðvitað virðuleg og gömul stofnun, að tími þess er liðinn að menn séu hnepptir í slíka sambúð. Það er þjóðfélagslegur veruleiki að æ fleiri kjósa nú að búa í óvígðri sambúð. Og þá hlýtur löggjafarvaldið auðvitað að bregðast við því.

Það eru mér alveg ný tíðindi að við Íslendingar, sem eigum elsta löggjafarþing veraldarinnar, séum orðnir feimnir við það að brjóta ísinn og verða brautryðjendur í því að setja löggjöf í framfaramálum. Það eru ný og dapurleg tíðindi ef við þurfum að bíða eftir boðskap utan úr heimi til þess að tryggja réttindi minnihlutahópa í þessu þjóðfélagi. Ég eggja því mjög hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. svo og þingheim allan til dáða í þessum efnum. Og ekki verður sagan betri eftir ræðu hv. síðasta ræðumanns sem hér talaði og upplýsti að málið ætti þennan langa og heldur dapurlega aðdraganda hér á þingi, að þál. í þessa veru hefði verið lítilsvirt í fjögur ár.