26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3852 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

377. mál, skortur á hjúkrunarfræðingum

Fyrirspyrjandi (Maríanna Friðjónsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðh. ágætissvör. Það er náttúrlega ljóst að mikið hefur breyst í þessum efnum eftir að öðrum var gert kleift að taka við þessum konum. Það er hins vegar mitt mat að það þurfi að sjá til þess að þau 26 rúm sem konum standa til boða séu að jafnaði öll opin. Mér finnst þau sannarlega ekki vera of mörg þessi blessuð rúm sem íslenskum konum standa til boða þarna á deildinni. Ég veit náttúrlega að það er rétt, sem kom fram í máli hæstv. ráðh., að konum með krabbamein er veitt úrlausn sinna mála strax og eins konum sem þjást mikið. Hins vegar benda upplýsingar, sem ég hef fengið á kvennadeild, til þess að biðlistar hafi lengst og það er ekkert grín að ganga með alls kyns kvensjúkdóma lengi. Hins vegar veit ég að hv. þingheimi er erfitt um vik að kynnast því persónulega þar sem hann er að meiri hluta ekki af því kynferði sem hér um ræðir.