26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3854 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

377. mál, skortur á hjúkrunarfræðingum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég virði að sönnu friðarást hæstv. ráðh. og ekki vil ég gera neitt það sem spillir hinu indæla samkomulagi í hæstv. ríkisstj. En ég held að það hljóti að gefa auga leið að ekki er hægt að ræða málefni eins hóps einangrað út af fyrir sig og að kjör þessa starfsfólks tengjast auðvitað að öðru leyti því málefni sem hér er til umr., svo að ég tel það enga goðgá að benda á það hér að hjúkrunarfræðingar, sem starfa á kvenlækningadeild, eru ekki einangrað fyrirbrigði í veröldinni og þau vandamál sem þar er við að glíma eru vissulega skyld og tengjast öðrum vandamálum sem ég nefndi hér. Það er að sönnu rétt að æskilegt væri að hér væru viðstaddir aðrir ráðherrar sem einnig tengjast þessu málefni. En ég veit þó að hversu vaskur sem hæstv. heilbrmrh. er, þá hlýtur hann að þurfa að starfa með samráðherrum sínum, sem þessu máli tengjast, þeim hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., ef hann á að ná nokkrum árangri í þessu verkefni. Ég hvet hann til þess að halda nú með þeim fund og ræða það hvernig hægt er að leysa þessi mál almennt, þar með talinn hjúkrunarfræðingaskort á kvenlækningadeild Landspítala Íslands.