25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Á öðrum degi þessa þings boðaði hæstv. iðnrh. að hann mundi von bráðar flytja hér á Alþingi skýrslu um stöðu samningaviðræðna við Alusuisse. Nefndi hann í því sambandi yfir 2000 millj. kr. upphæð, sem hann hefði í handraðanum, og ég hefði svikist um að standa skil á því smáræði á liðnum árum.

Í fyrradag svaraði hæstv. ráðh. hér í Sþ. fsp. minni um endurskoðun á ársreikningum ÍSALs fyrir árið 1983 og upplýsti að fyrir nær tveimur mánuðum hefðu nafntogaðir endurskoðendur, Coopers & Lybrand, skilað honum niðurstöðu sem fæli í sér að leiðrétta bæri ársreikning fyrirtækisins ÍSALs um 9.6 millj. Bandaríkjadala eða um 326 millj. íslenskra kr. fyrir þetta eina ár. Þannig er vantalinn hagnaður Alusuisse vegna álbræðslunnar í Straumsvík á átta ára tímabili, þ.e. 1975–1983, að mati viðurkenndra endurskoðenda orðinn um 60 millj. Bandaríkjadala eða sem svarar 2.040 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Þessi kerfisbundnu skattsvik eigenda álversins í Straumsvík varpa nokkrum skugga á gott samband milli aðila, svo notað sé orðalag úr skýrslu hæstv. iðnrh. um bráðabirgðasamkomulagið við Alusuisse í fyrra, og víst er um það að stundum hafa smærri tölur orðið að ásteytingsefni. Ég kem aðeins nánar að þessum þætti síðar.

Ástæðan fyrir því að ég fór þess á leit við hæstv. forseta að fá hér orðið utan dagskrár um samningamálin við Alusuisse er ekki þessi mál, sem bar hér á góma í fyrradag, heldur ummæli hæstv. iðnrh. í sama fyrirspurnatíma í hv. Sþ. Hann sagði, með leyfi forseta:

„En ég hef haft í hyggju að leggja fyrir hið háa Alþingi skýrslu um framkvæmd bráðabirgðasamkomulagsins frá 23. sept. á liðnu ári og um gang samningaviðræðna frá þeim tíma og þær niðurstöður sem menn eru komnir að. Af ýmsum ástæðum, einnig vegna þess að ekki eru fullfrágengin öll atriði og niðurstöður fengnar í orðalagi til að mynda, einnegin vegna þess að samningunum eru ákvæði um það að þeir skuli ekki birtir opinberlega nema báðir aðilar samþykki, þá dregst þetta eitthvað úr hömlum“, sagði hæstv. ráðh., „þannig að ekki verða tök á því enn um sinn að þessi skýrsla verði lögð fyrir hið háa Alþingi. Ég tek það fram að mér er það mjög umhendis“, sagði hæstv. ráðh. enn fremur, „að leggja slíka skýrslu fram nema hægt sé að upplýsa öll atriði sem að málinu lúta í öllum smáatriðum, en um það atriði er gagnaðili ekki sammála enn sem komið er. Ég vildi nota þetta tækifæri til að koma á framfæri skýringum á því að ég hef ekki enn og er ekki enn tilbúinn til þess að gefa Alþingi þá skýrslu sem ég hafði í huga að gera fljótlega eftir samkomudag þess“.

Þetta voru ummæli hæstv. ráðh. s.l. þriðjudag. Ég átaldi við umr. þá þessi vinnubrögð af hálfu hæstv. ráðh. og áskildi mér rétt til að taka þessi mál upp í þinginu hið fyrsta utan dagskrár, og ég þakka hæstv. forseta, sem af sinni alkunnu lipurð hefur orðið við þeirri beiðni, og hæstv. iðnrh. sem á það hefur fallist að svara hér fsp., sem ég raunar afhenti honum skriflega í gær, um málavöxtu er tengjast samningaviðræðum ríkisstj. við Alusuisse.

Til að auðvelda hv. þm. að fylgjast með þessari umr. og fsp. mínum hef ég beðið um að þeim verði dreift til hv. þm. á meðan á umr. stendur.

Núv. ríkisstj. hefur haldið með mjög sérkennilegum hætti á samningaviðræðum við Alusuisse. Stjórnarandstaðan hefur ekki verið kvödd til samráðs um nein atriði þessa máls og verið haldið frá upplýsingum um gang samningaviðræðna með afgerandi hætti. Fjölmiðlar hafa ekki heldur fengið neitt yfirlit frá stjórnvöldum um stöðu mála fyrr en að fullgerðu bráðabirgðasamkomulagi í sept. í fyrra, en einstakir samninganefndarmenn ríkisstj. hafa miðlað brotakenndum upplýsingum eftir sínu mati og hentugleikum, stundum harla mótsagnakenndum, allt eftir því sem þeir hafa talið sér henta hverju sinni.

Í samninganefnd ríkisstj. við Alusuisse voru sem kunnugt er skipaðir í júní 1983 þrír menn: dr. Jóhannes Nordal formaður, Guðmundur G. Þórarinsson fyrrv. alþm. og Gunnar G. Schram hv. alþm. Engir minnstu tilburðir voru hafðir uppi til að gefa stjórnarandstöðunni aðgang að málinu og virtist nú gleymd sú fræga till., sem meiri hl. hv. atvmn. lagði fram hér í þinginu í febr. 1983, um viðræðunefnd við Alusuisse þar sem sagði m.a.: „Til að annast viðræðurnar skal ríkisstj. þegar skipa sex manna viðræðunefnd og skal hver þingflokkur tilnefna einn fulltrúa, forsrh. einn og Landsvirkjun einn. Nefndin kýs sér formann“. Þetta er úr till. meiri hl. atvmn. sem leit dagsins ljós snemma árs 1983. Þessi till. var gleymd um leið og helmingaskiptaliði Sjálfstfl. og framsóknar hafði náð formlega saman um myndun ríkisstjórnar eftir kosningarnar í apríl 1983, aðeins þremur mánuðum síðar.

Ég minni á að í minni tíð sem iðnrh. var leitast við að skapa breiða samstöðu um þetta stóra hagsmunamál, endurskoðun álsamninganna, m.a. með álviðræðunefnd sem í áttu sæti fulltrúar allra þáverandi þingflokka stjórnar og stjórnarandstöðu. Starfaði sú nefnd frá júlí 1981 fram í des. 1982, að Guðmundur G. Þórarinsson stökk út úr nefndinni fyrir framan sjónvarpsvélar og eyðilagði þar með þennan samráðsvettvang sem komið hafði saman 54 sinnum til formlegra bókaðra funda. Ástæðan sem hv. þm., fulltrúi Framsfl., gaf fyrir þessu heljarstökki var sú, að hann fékk ekki einn öllu ráðið á tilteknum fundi nefndarinnar.

Ég minni líka í þessu sambandi á bréf sem mér var afhent 5. maí 1982 og samrit sent ríkisstjórn Íslands, undirritað af Geir Hallgrímssyni, þáv. formanni Sjálfstfl. og nú hæstv. utanrrh., og hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, formanni þingflokks sjálfstæðismanna. Það er fróðleg lesning, m.a. í ljósi málsmeðferðar hæstv. iðnrh. Sverris Hermannssonar um eins og hálfs árs skeið, að líta yfir þetta bréf. Ég læt nægja hér tvær tilvitnanir.

Í bréfinu er fundið að því „að þrátt fyrir starf álviðræðunefndar“, eins og þar segir, „fer því fjarri að eðlileg og nauðsynleg samráð hafi verið höfð við Sjálfstfl. í máli þessu.“

Í niðurlagi bréfsins segir, það er dálítill kafli, með leyfi forseta: „Af þessu tilefni vill Sjálfstfl. láta í ljós mikla óánægju yfir að ekki hefur af heilindum verið efnt til samstarfs við stjórnarandstöðuna, sem nauðsynlegt verður að teljast í svo mikilvægu máli. Forsenda þess að hægt sé að ná þjóðarsamstöðu í slíku máli er full samráð“ — ég sé að hæstv. iðnrh. hlýðir á grannt —„ er full samráð og samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu um alla stefnumótun og um undirbúning og þátttöku í öllum viðræðufundum. Sjálfstfl. minnir á að hann tilnefndi fulltrúa sinn í viðræðunefnd fyrst og fremst til að eiga viðræður við Alusuisse vegna skoðanaágreinings um túlkun samninga og til að fá úr því skorið hvort Alusuisse hafi brotið samninga eins og iðnrh. hefur borið fyrirtækinu á brýn“. — Ég kem því að að menn taki eftir orðalaginu „sem iðnrh. hefur borið fyrirtækinu á brýn“. — „Að þessu verkefni“, segir áfram í bréfinu, „hefur síður en svo verið unnið sem skyldi. Um önnur atriði, eins og t.d. endurskoðun raforkuverðs, breytta eignaraðild og stækkun álvers, er nauðsynlegt og eðlilegt að stefnan sé mörkuð í samstarfi við alla þingflokka og sérstök nefnd sé skipuð til að annast þær viðræður. Sjálfstfl. er að sjálfsögðu reiðubúinn fyrir sitt leyti að taka þátt í slíku samstarfi. Núverandi starfshættir eru hins vegar óþolandi“. — Hæstv. iðnrh., þetta er bréf frá þingflokksformanni og þáverandi formanni Sjálfstfl. — „Núverandi starfshættir eru hins vegar óþolandi þar sem iðnrh. hefur ekki staðið við fyrirheit um samstarf við stjórnarandstöðuna eða sinnt boði Sjálfstfl. um samvinnu í þessu efni, eins og að framan hefur verið rakið.

Geir Hallgrímsson.

Ólafur G. Einarsson.“

Þetta var niðurlag í þessu bréfi. „Nauðsynlegt og eðlilegt er að stefnan sé mörkuð í samstarfi við alla þingflokka“, stendur þar. „Forsenda þess að hægt sé að ná þjóðarsamstöðu í slíku máli er full samráð og samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu um alla stefnumótun og um undirbúning og þátttöku í öllum viðræðufundum“, stendur þar einnig. Svo virðist sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson, áframhaldandi formaður þingflokks Sjálfstfl., hafi gleymt að afhenda nýjum iðnrh. Sverri Hermannssyni þessa skýru afstöðu Sjálfstfl. frá vordögum 1982, en sjálfur var hann þá aðili að þessari stefnumörkun, þ.e. hv. þm. Sverrir Hermannsson, og raunar tillögumaður í atvmn. Sþ. sem gerði till. um að í viðræðunefnd við Alusuisse skyldu vera fulltrúar allra þingflokka.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. iðnrh. með tilvísun í það sem hér hefur fram komið: Hvers vegna hefur iðnrh. ekkert samráð haft við stjórnarandstöðuna um samningaumleitanir við Alusuisse í tíð núv. ríkisstj.? Samninganefnd ríkisstj. starfaði með algerri leynd sumarið 1983 og hélt m.a. fjóra viðræðufundi með Alusuisse, þar af þrjá á erlendri grund, og leiddu þeir fundir til bráðabirgðasamkomulags aðila í september 1983. Stjórnarandstaðan fékk ekkert veður af því samkomulagi fyrr en það var búið og gert og sama máli gegndi um Alþingi. Skýrsla hæstv. iðnrh. um þetta samkomulag varð tilefni mikilla umr. hér í Sþ. í nóv. s.l. Þar hét hæstv. iðnrh. því að bæta um vinnubrögð með því alltént að gefa Alþingi kost á að fylgjast með framvindu mála, en þá var stefnt að því af hálfu ríkisstj., með stoð í bráðabirgðasamkomulaginu við Alusuisse, að ljúka endurskoðun álsamninganna í heild fyrir 1. apríl s.l. Hæstv. iðnrh. sagði m.a. í umr. um skýrslu sína hér í Sþ. 22. nóv. s.l.:

„Og það veit ég að allir skilja, að aldrei kæmi mér til lifandi hugar að fara að semja á bak við auðhringinn Swiss Aluminium. Og það ætla ég að vona að hendi aldrei nokkurn mann sem á mínum snærum verður. Úr þessum stól mun það verða svo um alla framtíð, meðan ég gegni þessu embætti, að ég mun geta sagt frá hverju einasta smáatriði sem fer fram í þeim samskiptum fyrr og síðar“.

Þetta eru skýr orð og ótvíræð, en eitthvað hefur lamast tungan í hæstv. ráðh. frá því þau voru mælt eða vafist honum um höfuð, svo notað sé honum kunnuglegt orðfæri. Veturinn leið og áfram þæfðu samningamenn hæstv. ráðh. við Alusuisse, mest á erlendri grund til að forðast sviðsljós fjölmiðla á heimavelli. Röskum mánuði eftir að eindaginn 1. apríl var liðinn tók ég mál þetta upp utan dagskrár á Alþingi, þann 10. maí s.l., og innti hæstv. iðnrh. eftir upplýsingum um stöðu samningaviðræðnanna. Hann brást góðfúslega við, en var býsna tregt tungu að hræra.

„Ég er og hef ávallt verið reiðubúinn“, sagði ráðh., „til þess að sitja fyrir svörum um þessi mál, en ég þarf ekkert að ítreka það að einstöku atriði í samningagerðinni geta ekki útlagst hér á hinu háa Alþingi meðan þann veg stendur í stönginni sem nú gerir í sambandi við samningaviðræðurnar við Alusuisse.“

Nú var ekki lengur hægt að segja frá hverju einasta smáatriði sem fram fer í þeim samskiptum fyrr og síðar, eins og ráðh. orðaði það fyrr á sama þingi, og þessi mál öll þyngri í vöfum en menn skyldu ætla við fyrstu kynni, sagði ráðh. enn fremur.

Ég innti hæstv. ráðh. við þessa umr. m.a. eftir stöðu í skattadeilunni gagnvart Alusuisse, þ.e. um skattkröfu fjmrn. um endurákvarðað framleiðslugjald á tímabilinu 1976 til 1980 upp á 10 millj. íslenskra kr. Um það sagði ráðh. m.a., með leyfi forseta:

„Og til þess að taka af allan vafa strax liggur það fyrir, og það veit hv. þm., að kröfur okkar nú, mínar eða ríkisstj. skulum við segja, eru óbreyttar um að endurákvörðun framleiðslugjaldsins verði staðfest.“

Og síðar í sömu ræðu sagði Sverrir Hermannsson, hæstv. iðnrh.:

„Það lá alveg ljóst fyrir að ég gat aldrei sætt mig við neitt, neina niðurstöðu í þessum málum nema þá sem gæti talist dómur eða dómsígildi. Það vil ég leggja áherslu á. Það kom aldrei til greina, þótt eftir væri leitað, að ég væri til viðræðna um samninga um þessi deiluatriði“. Nú fréttum við þm. af því á haustdögum, í þeim óljósa véfréttastíl sem fylgir öllu sem lýtur að þessu álmáli frá núv. hæstv. ríkisstj., að samningamenn hæstv. iðnrh. séu búnir að ganga frá svonefndri réttarsátt í skattsvikamálum Alusuisse þvert ofan í hátíðlegar yfirlýsingar hæstv. ráðh. á Alþingi á vordögum um að aldrei hafi komið til greina að hann væri til viðræðna um samninga um þessi deiluatriði. Ég spyr því hæstv. ráðh.: Hvað veldur þeim sinnaskiptum sem orðið hafa varðandi skattsvikamál Alusuisse frá því að hann gaf yfirlýsingu sína, tilvitnaða hér, á hv. Alþingi 10. maí s.l.? Og í framhaldi af því spyr ég hæstv. ráðh.: Hver er sú upphæð sem Alusuisse býðst til að greiða gegn því að málarekstur vegna skattsvika fyrirtækisins verði felldur niður? Er hin umtalaða réttarsátt gagnvart Alusuisse skilyrt á einhvern hátt og fylgja henni yfirlýsingar um sök eða sýknu?

Í umr. í Sþ. 10. maí s.l. innti ég eftir endurskoðun á skattareglum aðalsamnings. Í svari sínu sagði hæstv. ráðh. m.a. að örðugleikum yrði bundið að ná endanlegu samkomulagi við Alusuisse fyrr en niðurstöður lægju fyrir í skattadeilunni. Og orðrétt sagði hann: „Og það varðar alveg sérstaklega ákvæði sem við þurfum að ná fram í skattgreiðslunum.“

Í því sambandi vísaði ráðh. sérstaklega til fyrstu dómnefndar sem sett var á fót skv. samkomulaginu í sept. 1983. Um það sagði hæstv. ráðh.:

„Ég held að niðurstöður fyrir fyrstu dómnefnd í skattamálunum hlytu mjög að styrkja aðstöðu okkar í þeim málum.“ Það er varðandi skattareglur í framtíðinni. Og áfram tilvitnað: „Ég vænti þess að niðurstöður fyrir fyrstu dómnefnd í skattamálunum muni styrkja okkur.“ — Þetta sagði hæstv. ráðh.

Eitt af viðfangsefnum fyrstu dómnefndar af þremur, sem settar voru á laggirnar þegar málið var tekið út úr samningsbundnum farvegi gerðardóms, skyldi vera skv. orðréttu ákvæði í bráðabirgðasamkomulaginu frá 23. sept. 1983:„Dómnefnd þessi mun skila álitsgerð um framkvæmd á ákvæðum mgr. 27.03 í aðalsamningnum“ — þ.e. um verðlagningu á aðföngum með tilliti til viðmiðunar við viðskipti milli óháðra aðila — „og um það atriði hvort túlka eigi og beita mgr. 2.03 (a) í aðalsamningnum — rekstri með tilliti til mgr. 27.03 í aðalsamningnum og að hvaða leyti. Skal álitsgerðin gefa til kynna“, segir þar, „þá aðferð sem viðhafa beri á árunum 1976 til og með 1980 til að ákveða verð á hráefnum með tilliti til skattskyldu, og þá nógu greinilega til að unnt sé að framkvæma útreikning á framleiðslugjaldinu sem um er að ræða.“

Eins og ráðh. benti réttilega á er hér um að ræða atriði í gildandi samningi sem miklu varðar um stöðu okkar til skattlagningar á ÍSAL og þar með um samningsstöðu varðandi hugsanlegar breytingar á skattaákvæðum gildandi samninga. Því spyr ég hæstv. ráðh.: Hefur í núgildandi samningsdrögum við Alusuisse, sem samninganefndarmenn hennar gengu frá í London 9. okt. s.l., verið gefinn einhver ádráttur um breytta túlkun á ákvæðum núgildandi samninga að því er skattareglur snertir, t.d. á ákvæðum aðstoðarsamnings um að Alusuisse sjái ÍSAL fyrir aðföngum á bestu fáanlegu kjörum? Samningamenn iðnrh. hafa greint frá því að alveg sé eftir að semja um endurskoðun á skattaákvæðum við Alusuisse. Þá skiptir að sjálfsögðu öllu máli að við höldum öllum okkar rétti til haga. Til að taka af allan vafa um það efni er ofangreind spurning borin fram.

Ég kem þá að þeim þætti samningaumleitana er varðar raforkuverðið, en meira hefur verið haft eftir samningamönnum ríkisins um þann þátt málsins en um aðra þætti. Margt er þar þó enn harla óljóst annað en hámarks- og lágmarksákvæði, 12,5–18,5 millidalir, en það er það bil sem gert er ráð fyrir að raforkuverðið hreyfist innan á gildistíma væntanlegs samnings, að okkur hefur verið tjáð. Með tengingu við álverð skv. fjórum tilteknum viðmiðunum er breytt um stefnu frá því sem verið hefur í gildandi samningi og raforkuverðið tengt sveiflum á heimsmarkaðsverði á áli með ótvíræðum en þó óvissum hætti um niðurstöður. Íslendingar taka með þessu á sig verulega áhættu umfram það sem áður var með því að binda raforkuverðið svo mjög sveiflum í álverði á heimsmarkaði. Mat manna á raforkusölusamningnum einum út af fyrir sig, sem ríkisstj. virðist ráðin í að standa að, fer m.a. eftir því hvernig menn meta þetta atriði, hvernig menn meta líkurnar á því að álverð þróist á heimsmarkaði á næstu árum og hvernig háttað verður verðtryggingar- og endurskoðunarákvæðum samningsins að því er raforkuverðið snertir.

Ég vil taka það strax fram að ég tel allar breytingar, sem nást fram á núverandi samningi um álverið í Straumsvík og skila Íslendingum raunverulegum ábata, vera til bóta og spor í rétta átt. Það gildir um leiðréttingu á orkusölusamningnum sem felur í sér nær tvöföldun að lágmarki frá því sem um var samið 1975. Verður þá að ganga út frá að ekki takist jafnhörmulega til um heildarendurskoðun samninga við Alusuisse og þá varð reyndin, við endurskoðunina 1975, en eins og fram hefur komið með skýrum hætti, stutt af gögnum frá ríkisendurskoðun, var þá samið um breytingar á skattaákvæðum og fleira Alusuisse í hag sem hafa gert meira en vega upp þann ábata sem Landsvirkjun fékk með hækkuðu raforkuverði reiknað fram á þennan dag.

Við skulum því minnast þess hér og nú að skattaþátturinn er ófrágenginn eins og greint hefur verið frá í endurskoðun sem stendur yfir. Ég minni einnig á að fyrir fjórum árum, þegar ríkisstj. sem ég átti sæti í gerði kröfu um endurskoðun álsamninganna síðla árs 1980 í framhaldi af því að svikamylla Alusuisse með hækkun í hafi hafði verið afhjúpuð, hafði enginn orðað það hér á Alþingi Íslendinga um árabil, að mér er kunnugt, aðrir en þm. Alþb., að raforkuverðið til álversins væri úr hófi lágt og krefjast bæri endurskoðunar á því til hækkunar. Þvert á móti voru hér aðstandendur álsamningsins frá viðreisnarárunum og arftakar þeirra, m.a. þm. Sjálfstfl., sem héldu hverja ræðuna á fætur annarri hér á Alþingi, svo að ekki sé minnst á leiðara Morgunblaðsins, til að lofa og prísa álsamninginn og sáu ekki á honum neina meinbugi. Það var komið fram í mars 1982 þegar þáverandi formaður Sjálfstfl., hæstv. núv. utanrrh., vogaði sér að segja að raforkuverðið sem Alusuisse greiddi væri lægra en skyldi, — lægra en skyldi. Ég hef á sama hátt margsinnis beðið hv. 4. þm. Reykv., sem hér er í salnum, Birgi Ísl. Gunnarsson, formann stóriðjunefndar, að tilfæra úr þessum ræðustóli kröfur sínar á árinu 1980 og fyrir þann tíma til 1981 um hækkun raforkuverðs til álversins, en hann hefur ekki enn orðið við þeim tilmælum og virðist nokkuð djúpt á yfirlýsingum hans sem gengju í þá átt sem lýst var eftir.

Samningamenn ríkisstj. hafa verið ósparir á að lýsa hrifningu sinni yfir þeim á.rangri sem þeir hafi fært heim frá London varðandi endurskoðun raforkuverðsins og látið eftir sér hafa að líkur bentu til að á næstu fimm árum fáist um 17 mill að meðaltali fyrir hverja kwst., en það er það sem ég hef heyrt eftir þeim haft. Ég hef marglýst þeirri skoðun að ég teldi 20 millidali það mark sem nást þyrfti í þeirri endurskoðun samninganna, en ég teldi hins vegar orkuverð nálægt 18 millidölum, með fullri verðtryggingu vel að merkja, viðunandi niðurstöðu ef ekkert annað fylgdi til frádráttar t.d. í sköttum eða skilyrði um stækkun álversins í Straumsvík.

Til að fá ljósi varpað á þessa væntanlegu samninga, sem m.a. formannafundur Sjálfstfl. hefur nýlega blessað í bak og fyrir þótt við þm. höfum ekkert fengið að vita um raunverulegt innihald þeirra, hef ég beint eftirfarandi spurningum um raforkuverðið til hæstv. ráðh.:

Hvert væri raforkuverðið gagnvart álverinu í Straumsvík í dag skv. fyrirliggjandi samningsdrögum og ríkjandi markaðsverði á áli? Og önnur spurning sem varðar raforkuverðið og samningsdrögin: Hvert yrði raungildi raforkuverðsins að fimm árum liðnum miðað við lágmarks- og hámarksákvæðin 12.5 og 18.5 millidalir 1) ef árleg verðbólga í dollurum verður 5% og álverð þróast með sama hætti, 2) ef verðbólga í dollurum verður 5% og álverð þróast eins, þ.e. sömu forsendur og í fyrri lið, en gengi dollars lækkar um 25% á tímabilinu?

Ég vil geta þess að að margra mati er dollar talinn nær 30% hærra skráður en svarar til kaupmáttar hans með tilliti til annarra gjaldmiðla. En ég hef nefnt hér viðmiðunina 25% lægra gengi á dollara. Þá spyr ég einnig tengt raforkuverðinu: Hvert er það meðalraforkuverð að mati iðnrh. sem líklegt er að þessi samningur gefi á næstu fimm árum reiknað frá verðlagi ársins 1984? Og einnig: Hve mikil hækkun þarf að verða á álverði frá því sem nú er til að þetta meðalraforkuverð náist? Þetta eru spurningar, sem ég vænti að skýr svör fáist við hér og hljóta auðvitað að skipta miklu þegar metin eru þau samningsdrög sem greint hefur verið frá, þó í takmörkuðu mæli sé enn sem komið er.

Í tengslum við þessi atriði og til að varpa nánara ljósi á þau kjör sem Alusuisse eru boðin hérlendis varðandi orkuverð spyr ég hæstv. ráðh.: Getur hann upplýst Alþingi um hvert sé nú það meðalraforkuverð sem Alusuisse greiðir vegna álbræðslna í eigu auðhringsins? Þetta meðalraforkuverð var talið vera, að mati starfshóps sem vann á vegum iðnrn. með aðild Landsvirkjunar m.a. 1981 og 1982, 20 millidalir í júlí 1982 vegna 13 álverksmiðja Alusuisse sem starfræktar voru þá í átta löndum — álverið í Straumsvík tekið með inn í það vegna meðaltal.

Ég minni á að s.l. sumar féll gerðardómur úti í Sviss í deilu franska ríkisálhringsins Pechiney og grísku ríkisstjórnarinnar í deilu um raforkuverð vegna álbræðslu Pechiney í Grikklandi. Dómsorðið hljóðaði upp á 20.5 millidali á kwst. frá 1985 að telja og afturvirkar greiðslur upp á 18.5 millidali vegna ársins 1983. Ég minni einnig á þann samning sem ríkisstjórn Ghana náði eftir langvinn átök við Kaiser-auðhringinn um allt að 17.5 millidali og margháttaðar aðrar leiðréttingar á samningum. Þó stóð Ghana uppi með vatnslitla ef ekki vatnslausa virkjun um skeið og samdi mjög rýmilega afhendingarskilmála á raforkunni. Ég minni einnig á að BPA orkuveitan í Bandaríkjunum, sem selur hvorki meira né minna en 18 terwattstundir til álvera í eigu sex auðhringa, hækkaði raforkuverðið úr nálægt 18 millidölum í hitteðfyrra í 27.7 millidali, en þann 1. sept. s.l. féllst fyrirtækið á að slaka ögn tímabundið á gagnvart álverunum með sex mánaða tímabundinni lækkun niður í 22.3 millidali gegn því að álverin haldi uppi óskertri framleiðslu þessa sex mánuði. Í þessu samhengi er vert að nefna það, að ég hygg að það sé mat þeirra sem hafa verið að skoða þessi mál á vegum ríkisstj. að aðstöðumunur til álframleiðslu og sölu á áli hér og í Bandaríkjunum sé eitthvað nálægt 4 millidalir reiknað inn í raforkuverðið. Ég vil ekki leggja mat á það, en ég bendi á þessa tölu.

Hæstv. iðnrh. hefur látið skina í háar tölur um líklegan ábata af endurskoðuðu raforkuverði til álversins í Straumsvík. Vonandi rætast þær vonir ráðh. og gott betur því að ekki veitir af eftir þá bagga sem almenningur í landinu hefur þurft að taka á sig vegna gjafverðs á raforku til álversins í Straumsvík um langt árabil. Því spyr ég hæstv. ráðh.: Hversu mikið telur hæstv. iðnrh. að unnt verði að lækka raforkuverð til innlendra notenda vegna ábata, sem væntanlega fæst af endurskoðuðum raforkusamningi við Alusuisse, m.a. til rafhitunar og innlends iðnaðar? Í þessu sambandi minni ég á tillögur nefndar sem í áttu sæti fulltrúar allra þingflokka og starfaði í tíð fyrrv. ríkisstj. og skilaði áliti 28. jan. 1983 um tekjuöflun til að lækka húshitunarkostnað. Megintillaga nefndarinnar, sem m.a. átti sæti í núverandi hæstv. forseti Sþ. Þorv. Garðar Kristjánsson, var að tekjum af hækkuðu raforkuverði til stóriðju skuli varið til lækkunar á raforkuverði til húshitunar. Hæstv. ráðh. hefur því góðan leiðarvísi frá þessari nefnd.

Þá vík ég að því sem miklu skiptir á mati á stöðunni gagnvart Alusuisse, en það er að ólokið er endurskoðun skattaákvæðis aðalsamnings. Ég minni aftur á það sem gerðist þegar samningar um álverið voru síðast endurskoðaðir 1975 og auðhringurinn náði því að skipta á sléttu á sköttum og raforkuverði og raunar gott betur sér í hag. Við skulum vona að ekkert fari á þá leið nú. En ég spyr hæstv. ráðh. (lðnrh.: Ég afskrifaði þá fyrri.) Gott. (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég tel eðlilegt að ráðh. ljúki einkasamtali sínu áður en ég held áfram. (Iðnrh.: Meiri speki?) Hæstv. ráðh., ég spyr hér til viðbótar og vísa til þess að í bráðabirgðasamningi ríkisstj. og Alusuisse frá 23. sept. 1983 var gert ráð fyrir að ljúka endurskoðun samninga við Alusuisse fyrir 1. apríl 1984. Og ég spyr: Hvaða ástæður eru fyrir því að nú er skilinn eftir einn meginþáttur þessa máls, þ.e. endurskoðun á skattareglum um greiðslu framleiðslugjalds? Og í beinu framhaldi af þessu spyr ég hæstv. ráðh.: Hefur verið gefinn einhver ádráttur um það gagnvart Alusuisse að breytt verði skattareglum um ISAL þannig að dregið verði úr hagnaðarviðmiðun skv. núverandi samningi aðila? Til áréttingar því hversu mikilvægt atriði er hér á ferð skal bent á að árið 1984 er síðasta afskriftaár upphafsáfanga álversins í Straumsvík og því líkur á að bókhaldsleg afkoma ÍSALs verði miklu betri á komandi árum en verið hefur undanfarin ár.

Ég vík þá, herra forseti, að lokum að einum stórum þætti þessa máls sem varðar ákvæði bráðabirgðasamnings um stækkun álversins í Straumsvík, en greint hefur verið frá því af hálfu samningamanna og stjórnvalda að það mál sé ekki til lykta leitt milli aðila. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að í bráðabirgðasamkomulaginu frá sept. 1983 er tekið svo til orða um þetta efni, með leyfi forseta:

„Aðilarnir staðfesta hér með gagnkvæman áhuga sinn á því að stækka bræðsluna svo fljótt sem við verður komið um 80 megawatta málraun, sem svarar um það bil 40 þús. árstonna afkastagetu, og að fylgja þessu eftir síðar meir með annarri stækkun í sama mæli um 80 megawatta málraun til viðbótar, sem svarar um það bil 40 þús. árstonna afkastagetu. Ríkisstj. er reiðubúin til að afla stuðnings Landsvirkjunar til þess að látið verði í té nægilegt rafmagn fyrir þessar stækkanir og leita allra heimilda sem þarf til að gera ÍSAL kleift að byggja og reka stækkunaráfangana.“

Síðan er fram tekið að áskilið sé að samkomulag takist m.a. um raforkuverð.

Í umræðum um þetta efni nú að undanförnu hefur verið gefið í skyn að það sé áframhaldandi stefna ríkisstj. að vinna að þessu máli, að ná samningum við Alusuisse og eigendur sem gætu komið inn í álverið í Straumsvík með Alusuisse um stækkun álversins þar, um tvöföldun á afkastagetu álversins í Straumsvík. Það hafa verið nefnd ártöl, ég hygg eitthvað breytt frá því sem nefnt var í fyrra. Það var talað um 1987–1988, en flogið hafa fyrir ártölin 1989 og 1990 í sambandi við framhald málsins.

Ég rifja það upp að til þessarar framleiðslu, tvöföldunar á afköstum álversins í Straumsvík, þarf 1200–1300 gígawattstundir af raforku. Kostnaður við slíka stækkun og tilheyrandi orkuver hefur verið metinn lauslega á 450 millj. Bandaríkjadala og hygg ég að þá sé miðað við 2600 dollara fjárfestingu á bak við hvert tonn af áli. Þetta svarar til, í íslenskum krónum reiknað, um 15 milljörðum ísl. kr. á núverandi gengi. Ég rifja upp í þessu samhengi að heildarskuldir Íslendinga í árslok 1983 voru taldar á vegnu gengi þess árs 1285 millj. Bandaríkjadala, tæpar 1300 millj. Bandaríkjadala, en kostnaður við stækkun, tvöföldun, álversins og tilheyrandi orkuver um 450 millj. Bandaríkjadala. Menn sjá af þessu að hér er um gífurlegar fjárskuldbindingar að ræða — og hvað skyldi það nú vera margt fólk sem gert er ráð fyrir að bætist við í störfum í álverinu í Straumsvík út á þessa miklu fjárfestingu? Jú, við höfum um það upplýsingar frá forstöðumönnum álversins að þar geti verið um 220 manns samtals að ræða, sem komi til viðbótar til starfa í álverinu.

Ég bendi á að það er stefna núv. ríkisstj. og alveg sérstaklega hæstv. iðnrh., eins og ég hef skilið hann og hann hefur reyndar ótvírætt tekið fram, að hann vildi ekki að Íslendingar fengjust neitt við áliðju eða ættu hlut að slíku, hvað þá að vera þar forráðaaðilar. Það sem segir okkur að hér á að vera um erlenda eign að ræða skv. hans stefnu, en Íslendingar að reisa orkuverið og taka á sig áhættuna af þeirri fjárfestingu. Ég vek athygli á því að áhættan af fjárfestingu í orkuveri er að sjálfsögðu síst minni en iðjuveri og raunar meiri því að það er almennt mat að arður af orkusölu til stóriðju sé vandfenginn og menn teljist yfirleitt góðir að ná samningum við alþjóðahringi eða auðfélög sem fleyti kostnaðarverði. Það er langt frá því að slíkir samningar hafi tekist hér hingað til. Sá arður sem hinir erlendu aðilar fá út úr þeirri stækkun verður því hér eftir sem hingað til fluttur úr landi. Fjárfesting af þessu tagi verður auðvitað útilokandi fyrir önnur framkvæmdaáform í landinu á sviði innlends iðnaðar og alveg sérstaklega varðandi innienda orkunýtingu. Það hlýtur öllum að vera ljóst.

En það hlýtur eitthvað að liggja að baki, einhverjar gildar athuganir að liggja að baki þeim geysilegu áformum um stækkun álversins í Straumsvík og byggingu tilheyrandi orkumannvirkja og því spyr ég hér hæstv. iðnrh. að lokum: Liggja fyrir athuganir um það að þjóðhagslega sé hagkvæmt fyrir Íslendinga að reisa stórvirkjanir til þess að auka afkastagetu álversins í Straumsvík? Ef svo er, hverjir hafa unnið að þeim athugunum og hvenær verða þær kynntar hv. Alþingi?

Herra forseti. Ég ítreka þakkir mínar til forseta fyrir að heimila umr. hér utan dagskrár um þessi stóru mál. Ég taldi að það væri ekki stætt á því fyrir Alþingi að draga það að taka þessi mál til umr. Ég hefði gert það fyrr á þessu þingi ef hæstv. ráðh. hefði ekki látið að því liggja á öðrum degi þings að einhvern næstu daga væri von á ítarlegri skýrslu af hans hálfu um samningagerðina í London frá 8. og 9. okt. s.l. En eftir að hæstv. ráðh. upplýsti það s.l. þriðjudag að á því yrði dráttur, ótilgreindur hvað tíma snerti, þá óskaði ég eftir því við hann að hann svaraði vinsamlega þeim spurningum sem ég hef hér fyrir lagt og ég vænti að fáist skýr svör við hér á eftir.