27.03.1985
Efri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3894 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

382. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hér er til umr. frv. til l. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Frv. þetta er annað í röðinni sem lagt er fram af hæstv. núverandi iðnrh. varðandi Sementsverksmiðjuna. Áður en ég ræði frv. sjálft mun ég í nokkrum orðum fjalla um sögu þessa fyrirtækis sem nú er lagt til að breytt verði úr ríkisfyrirtæki í hlutafélag. Ég styðst þar við ársskýrslu verksmiðjunnar og önnur gögn frá fyrirtækinu. Verið getur að eitthvað af því sem ég mun flytja hér á eftir komi heim og saman við ræðu hæstv. iðnrh. þar sem greinilegt var að hann mun hafa notað sömu gögn og ég við undirbúning ræðunnar.

Árið 1945 var ársnotkun sements á Íslandi orðin um 43 þús. tonn. sementsnotkun hafði tvöfaldast á 15 árum og í augsýn var á þeim tíma ört vaxandi notkun sements. Árið 1947 var flutt frv. til l. á Alþingi um sementsverksmiðju. Varð frv. að lögum árið 1948. Lög þessi, sem að meginstofni eru enn í gildi, voru heimildarlög til þess að láta byggja sementsverksmiðju.

Árið 1949 var skipuð nefnd þriggja verkfræðinga til að undirbúa byggingu verksmiðjunnar. Nefndin lauk störfum það ár og skipaði þáverandi atvinnumrh. sama ár fyrstu stjórn Sementsverksmiðju ríkisins. Næstu ár fóru í undirbúning og rannsóknir vegna verksmiðjunnar. Henni var valinn staður á Akranesi.

Bygging verksmiðjunnar hófst árið 1955 og 14. júní 1958 var ofn verksmiðjunnar gangsettur og sementsvinnsla var þar með hafin. Mestur hluti byggingarframkvæmdanna fór fram á árunum 1956 og 1957 og var það mikið átak að ljúka við þetta mikla mannvirki á svo skömmum tíma. Öll byggingarmannvirki voru hönnuð innanlands, hjá Almenna byggingarfélaginu, en vélbúnaður og tæknileg hönnun voru fengin frá fyrirtækinu F. L. Smidth í Kaupmannahöfn. Verksmiðjan var hönnuð fyrir 250 tonna framleiðslu af gjalli á dag eða 75 þús. tonna framleiðslu af sementi á ári. Kostnaður við verksmiðjuna á verðgildi ársins 1958 var um 120 millj. kr. og var hún að mestu fjármögnuð með erlendum lánum.

Sementsverksmiðja ríkisins er hreint ríkisfyrirtæki og lýtur þingkjörinni stjórn. Stjórnin er kjörin til fjögurra ára í senn.

Í lögunum frá 1948 var gert ráð fyrir þriggja manna stjórn og heyrði verksmiðjan undir atvmrn. Þessu var breytt á Alþingi 1961. Nú eru fimm menn í stjórn og iðnrh. fer með mál verksmiðjunnar. Fyrsti stjórnarformaður var dr. Jón E. Vestdal árin 1949–1959. Árið 1959–1973 var Ásgeir Pétursson formaður og 1973–1977 dr. Sigmundur Guðbjarnason. Jón Árnason varð formaður 1977, en lést á því ári. Ásgeir Pétursson var þá formaður til 1981. Skúli Alexandersson var formaður 1981–1985. Núverandi formaður er Ásgeir Pétursson bæjarfógeti.

Dr. Jón E. Vestdal var fyrsti framkvæmdastjóri verksmiðjunnar. Sem stjórnarformaður bar hann hita og þunga af undirbúningi og byggingu verksmiðjunnar. Hann var framkvæmdastjóri 1958–1968. Ásgeir Pétursson stjórnarformaður var framkvæmdastjóri í tvo mánuði haustið 1969, en þá var Svavar Pálsson ráðinn framkvæmdastjóri. Árið 1972 var framkvæmdastjórastöðunni skipt í stöður framkvæmdastjóra tæknimála og fjármála. Var Svavar Pálsson ráðinn framkvæmdastjóri fjármála og dr. Guðmundur Guðmundsson framkvæmdastjóri tæknimála. Svavar Pálsson lést 1978.

Stjórnarformaður Ásgeir Pétursson gegndi þá starfi framkvæmdastjóra fjármála í fjóra mánuði þar til Gylfi Þórðarson var ráðinn í það starf sumarið 1978.

Í upphafi voru framleiddar tvær sementstegundir í verksmiðjunni, venjulegt Portlandssement og hraðsement. Árið 1959 hófst einnig framleiðsla sérsements sem fékk nafnið Faxasement og var ætlað í efnismikla steypuhluti.

Fyrstu árin var framleiðslan í Sementsverksmiðjunni meiri en notkun innanlands. Breyting varð á um miðjan sjöunda áratuginn, en þá fór salan upp fyrir 100 þús. tonn.

Allt frá byrjun hefur framleiðslan gengið mjög vel. Tuttugu ára tímabilið 1963–1982 var rekstursdagafjöldi ofnsins 338 dagar að meðaltali. Afkastagetan var meiri en áætlað var í byrjun.

Sementsverksmiðjan notaði svartolíu til brennslu á gjallinu. Þegar miklar olíuhækkanir urðu 1973 og aftur 1979 var farið að huga að notkun kola í stað olíu þar sem kolaverð var miklu lægra en olíuverð. Undirbúningur að kolabrennslu hófst árið 1980. Til þess að mega byggja mölunarstöð og brennslukerfi fyrir kol þurfti sérstakt starfsleyfi frá heilbrrn. Það fékkst síðla árs 1981 og kolabrennsla var komin á um mitt ár 1983.

Sementsverksmiðjan fékk sitt fyrsta starfsleyfi í samræmi við ný lög um verksmiðjurekstur frá árinu 1971 árið 1973. Þetta heildarstarfsleyfi var svo endurnýjað 1981 þegar verksmiðjan fékk starfsleyfi fyrir kolabrennslu.

Árið 1954 var sementsnotkun innanlands mjög mikil eða um 94 þús. tonn. Salan minnkaði mjög á fyrstu starfsárum verksmiðjunnar og voru þá flutt út um 51 þús. tonn af sementi árin 1961–1963. Þá óx sementsnotkunin innanlands mjög ört aftur og komst upp í 120 þús. tonn árin 1967 og 1968. Vegna minnkandi sölu á almennum markaði voru flutt 10 þús. tonn af íslensku gjalli til Danmerkur árið 1969. Árin 1969 og 1970 voru slæm söluár á Íslandi, salan fór þá niður fyrir 90 þús. tonn á ársgrundvelli. Þegar leið á áttunda áratuginn jókst salan aftur mjög hratt og fór hæst upp í 160 þús. tonn árin 1974 og 1975, en hefur síðan verið minni og var í rúmum 118 þús. tonnum árið 1984.

Mikinn þátt í sölu áranna 1974 og 1976 átti Sigölduvirkjun, en í hana var selt íslenskt sérsement með líparítíblöndun. Heildarnotkun sements í Sigölduvirkjun var um 4.5 þús. tonn. Sams konar sement var notað í Hrauneyjafossvirkjun á árunum 1979–1981, þá um 30 þús. tonn.

Á fyrstu árum Sementsverksmiðjunnar var sementið selt eingöngu sekkjað og flutt til Reykjavíkur og annarra staða á landinu með ýmsum skipum. Mikil breyting í framfaraátt varð þegar verksmiðjan eignaðist eigið skip, Freyfaxa, árið 1966. Árið 1966 var farið að selja ópakkað sement, fyrst til Búrfellsvirkjunar og var það flutt þangað á tankbifreiðum í eigu verksmiðjunnar á Akranesi. Á því ári var hafist handa við að koma upp móttökustöð fyrir laust sement í Reykjavík. Sementsverksmiðjan hafði birgðastöð við Reykjavíkurhöfn og í Hafnarhúsinu og var þar einnig aðalskrifstofa verksmiðjunnar.

Verksmiðjan byggði á Ártúnshöfða afgreiðslu- og móttökustöð. Þar voru reistir sementsgeymar til móttöku á lausu sementi sem flutt var frá Akranesi í gamalli ferju sem sementsgeymar höfðu verið settir í. Stöðin tók til starfa árið 1968 og var þá aðalskrifstofan flutt til Akraness, en lítil söluskrifstofa starfrækt á Ártúnshöfða.

Brátt fékk verksmiðjan fleiri tankbifreiðir og hóf að afhenda laust sement til steypustöðva á Reykjavíkursvæðinu. Gamla ferjan varð því brátt of lítil og árið 1976 var hafin smíði á nýju tankskipi hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi. Hlaut skipið nafnið Skeiðfaxi og ber það um 500 tonn af lausu sementi. Hóf það flutninga vorið 1977.

Á þessum tíma var einnig farið að huga að uppsetningu móttökustöðvar fyrir laust sement úti á landi. Árið 1978 setti Steiniðjan á Ísafirði upp litla móttökustöð með aðstoð Sementsverksmiðjunnar og vorið 1980 var lokið við byggingu stórrar móttökustöðvar fyrir laust sement á Krossanesi við Akureyri. Allar þessar miklu framkvæmdir, sem gerðar voru á þessum árum, áttu að koma til móts við þarfir byggingariðnaðarins í landinu og auka þjónustu við hann og dreifingaraðila verksmiðjunnar sem voru fjölmargir á öllum héruðum og þéttbýlisstöðum í landinu.

Verð á sementi fyrsta ár verksmiðjunnar var sett aðeins lægra en verð var á innfluttu sementi. Hafði verksmiðjan einkasölu á sementi fyrstu 15 árin. Það voru einmitt árin undir viðreisn. Sementsverðið var þá miðað við að það væri ætíð nokkru lægra en innflutt sement.

Rekstursafkoma verksmiðjunnar var allgóð fyrstu árin, jafnvel þó að sementsverðið hækkaði ekki mikið. Sama verð hélst frá árinu 1964 til 1968. Árið 1968 snýst þetta til verri vegar. Erlend lán hvíldu á verksmiðjunni, bæði frá byggingu hennar og síðar vegna uppbyggingar við Ártúnshöfða, kaupa á Freyfaxa og vegna alls þess vandaða flutninga- og dreifikerfis fyrir sement sem verksmiðjan kom upp á þessum tíma. Miklar gengisbreytingar og lítill varasjóður vegna lágs verðlags urðu þess valdandi að taka þurfti óhagkvæm rekstrarlán sem íþyngdu fyrirtækinu mjög síðar. Við þetta bættist svo mikil minnkun í sölu sements árin 1969 og 1970.

Á árunum eftir 1970 var afkoma Sementsverksmiðjunnar nokkuð erfið, sérstaklega árin 1972 og 1975 þegar verulegt rekstrartap varð hjá verksmiðjunni. Af þessum orsökum hlóðust upp vanskilaskuldir við aðallánardrottin verksmiðjunnar, Framkvæmdasjóð Íslands. Vegna þessarar skuldasöfnunar skipaði forsrh. nefnd síðla árs 1975 til að kanna hvernig koma mætti rekstri Sementsverksmiðjunnar á réttan kjöl. Nefndin skilaði áliti sumarið 1976 og taldi hún að rangri verðlagsstefnu stjórnvalda. Skömmu síðar ákvað rangri verðlagsstefnu stjórnvalda. Skömmu síðar ákvað þáverandi ríkisstjórn að framvegis skyldi stjórn verksmiðjunnar ákveða verð á sementi að fengnu samþykki iðnrn.

Árið 1976 varð hagnaður af rekstri verksmiðjunnar, en árið 1978 fór aftur að síga á ógæfuhliðina. Ákvörðuninni um að stjórn fyrirtækisins skyldi ákvarða verð á sementi var hnekkt og sérstakri nefnd, gjaldskrárnefnd, aftur falið það hlutverk. Síðla árs 1979 fékk verðlagsráð í hendur verðlagningu á sementi í framhaldi af samþykkt nýrra laga um verðlag o. fl. sem tóku gildi 1. nóv. 1979.

Árin 1978 og 1981 var taprekstur á verksmiðjunni. Frá og með árinu 1982 hefur afkoma verksmiðjunnar verið góð. Allt bendir til þess nú, eftir að verksmiðjan hóf að nota kol í stað olíu við brennslu, að afkoman verði góð í framtíðinni.

Meðan Sementsverksmiðjan hafði einkasölu á sementi var þess gætt við ákvörðun sementsverðs að það væri ekki hærra en á innfluttu sambærilegu sementi. Í samræmi við EFTA-samkomulagið var svo innflutningur á sementi gefinn frjáls árið 1975. Ekki hafa aðrir nýtt sér þetta frjálsræði til innflutnings en Sementsverksmiðjan sjálf í sambandi við gjallinnflutning. Ástæðan til þess er sú, að verð á íslensku sementi hefur verið lægra en á innfluttu sementi og eiginleikar þess henta betur hérlendum aðstæðum. Þetta er góður árangur þegar tekið er tillit til óheppilegrar verðlagsstefnu undanfarinna ára og gífurlegra verðhækkana á olíu meðan sá orkugjafi var notaður.

Sementsverksmiðja ríkisins var reist af stórhug fyrir um 27 árum. Frá þeim tíma hefur ekki verið ráðist í svo stórt fyrirtæki þar sem íslenska ríkið er eini eigandinn. Fyrirtækið var nær eingöngu byggt fyrir lánsfé. Stór hluti þess var erlend lán.

Sementsverksmiðjan fór vel af stað þrátt fyrir slæm söluár í upphafi. (Gripið fram í.) Það er nú eins og mig minni að gjafaféð frá Marshall hafi farið til annarrar verksmiðju, hv. þm. Ætli það hafi ekki verið í landbúnaðargeiranum, í Áburðarverksmiðju ríkisins á Gufunesi? — En eins oft vill verða komu erfiðleikatímabil hjá Sementsverksmiðjunni og voru þau stundum tilkomin vegna gengis- og verðlagsstefnu stjórnvalda. Til allrar hamingju var ekki hlustað á raddir sem mæltu með samdrætti í fyrirtækinu og innflutningi.

Sementsverksmiðja ríkisins virðist nú hafa komist yfir verstu erfiðleikana og stjórnendur hennar og starfsfólk líta með bjartsýni fram á við. Vænst er aukinnar framleiðslugetu gjallofnsins. sala sements jókst nokkuð árið 1984 miðað við fyrra ár. Leitað er nýrra markaða fyrir sement og að fjölbreyttari notkun með nýjum íblöndunarefnum. Brennsla kola í stað olíu lækkar framleiðslukostnað stórlega. Gert hefur verið átak til umhverfislagfæringar bæði utan húss og innan. Þar hefur mikið áunnist síðustu ár þótt betur þurfi að gera.

Ég hef í stuttu máli nefnt ýmsa þætti úr sögu sementsverksmiðju ríkisins. Fyrirtækið stendur nú betur en oftast áður. Það hefur úrvals starfsliði á að skipa, hefur nýlokið við breytingar sem gera framleiðsluna ódýrari en áður var, gæði framleiðslunnar eru mikil og viðurkennd, hreinsibúnaður er nýr, viðhald verksmiðjunnar og tækja hennar er gott, útlit og umhverfi verksmiðjunnar hefur verið stórlega bætt, leitað er nýrra leiða til að auka sölu fyrirtækisins.

Það frv., sem hér er til umr., kemur flestum, sem til þekkja um sögu og rekstur Sementsverksmiðju ríkisins, mjög á óvart. Rök fyrir því að þar sé mikilla breytinga þörf hvað við kemur eignarhaldi og yfirstjórn eru vandfundin.

Eins og ég sagði í upphafi er frv. þetta annað í röðinni sem lagt er fram á hv. Alþingi af hæstv. núv. iðnrh. um starfsemi Sementsverksmiðju ríkisins. Ég minnist þess ekki að mælt hafi verið fyrir hinu fyrra frv., sem lagt var fram í hv. Ed. fyrir ári, enda var tekið fram í aths. við frv. að það væri þá lagt fram til kynningar og yrði lagt fram aftur að hausti, þ. e. s. l. haust.

Eins og fram hefur komið starfar verksmiðjan skv. lögum frá 1948 með smábreytingum frá 1961. Tímabært er að setja verksmiðjunni ný lög. Frv. því sem lagt var fram fyrir ári var ætlað að leysa af hólmi lögin frá 1948 og setja fyrirtækinu varanlegan starfsgrundvöll byggðan á því að fyrirtækið yrði áfram ríkisfyrirtæki, rekið áfram á sama stjórnunargrunni. Í frv. var að finna atriði um stjórnun, fjármál, öryggismál, ráðstafanir gegn mengun o. fl. Þetta frv. var góður grunnur fyrir Alþingi, með umsögnum frá hagsmunaaðilum og þó sérstaklega starfsfólki verksmiðjunnar og stjórn, til að setja Sementsverksmiðju ríkisins lög sem yrðu fyrirtækinu varanlegur starfsgrundvöllur.

Það var ekki staðið við það að leggja frv. aftur fram á haustdögum. Svo fóru að heyrast sögur um það að semja ætti nýtt frv., nú skyldi breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Frjálshyggjumenn Sjálfstfl. og framsóknar gætu ekki á heilum sér tekið fyrr en búið væri að breyta þessu sameignarfyrirtæki þjóðarinnar í hlutafélag. Og mikið rétt. Frv. sem lagt var hér fram fyrir ári er nú eins og blað í alfræðibók fyrir austan tjald, sem á hefur staðið eitthvað sem valdhafarnir vilja gleyma. Það er fjarlægt og nýtt blað með þóknanlegu lesmáli fyrir valdhafana er sett í staðinn. En stundum fer það svo að sömu menn lenda í því að semja nýja blaðið í alfræðibókina og samið höfðu það sem fjarlægt var. Sérfræðingar telja sig þó oft geta lesið út úr hinu nýja efni andmæli skrifarans gegn valdhöfum og vinnubrögðum.

Sömu menn hafa samið bæði þessi frv. um sementsverksmiðju ríkisins. Hér eru að verki valinkunnir menn. Þetta eru þeir Ásgeir Pétursson bæjarfógeti og hæstaréttarlögmennirnir Björgvin Sigurðsson og Eiríkur Tómasson. Ásgeir Pétursson hefur setið í stjórn Sementsverksmiðjunnar lengst allra sem þar hafa setið þau 27 ár sem verksmiðjan hefur starfað og er núverandi stjórnarformaður verksmiðjunnar.

Frv. sem lagt var hér fram í fyrra ber þess merki að aðalhöfundur þess þekkir til reksturs fyrirtækisins og af kunnáttu sinni benti hann á leiðir til að styrkja grundvöll þess. Frv. er jafnframt staðfesting á því að eignarformið, sem í upphafi var valið þessu fyrirtæki, hefur reynst vel. Það er því ekkert undrunarefni að nýja frv. líkist endurbættu skiptiblaði í rússneskri alfræðibók. Frjálshyggjuliðar Sjálfstfl., stuttbuxnadeildin, keppast nú við að hverfa frá stefnu manna eins og Péturs Ottesens og Ólafs Thors. En báðir þessir foringjar Sjálfstfl. beittu sér af alefli fyrir uppbyggingu Sementsverksmiðjunnar sem ríkisfyrirtækis. Ég hef enn trú á því að hæstv. iðnrh. fylli ekki flokk þeirra manna sem vilja hverfa frá stefnu Ólafs Thors og Péturs Ottesens. Frv. þetta sé frekar flutt til að þóknast fyrrnefndu frjálshyggjuliði en það sé meiningin að það skuli að lögum verða.

Virðulegi forseti. Þá skal ég fara nokkrum orðum um efni frv.

1. gr. frv. gerir ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins. Gert er ráð fyrir að selja 20% af heildarhlutafjárhæð fyrirtækisins á almennum markaði. Hér er verið að fara fram á að Alþingi samþykki eignarformsbreytingu og stjórnunarbreytingu á fyrirtækinu án þess að fyrir liggi hvort nokkrir kaupendur séu fyrir hendi að þessum 20% hlutafjárins. Ekkert liggur fyrir um það að áhugi sé fyrir slíkum kaupum og líkur fyrir áhuga frekar litlar svo að ekki sé meira sagt. Hefði ekki verið betri leið að kanna fyrst áhugann, stofna jafnvel undirbúningsfélag? Hvernig fer ef enginn vill kaupa bréfin eða kannske aðeins 1–5% af bréfunum? Á eftir sem áður að breyta eignarforminu? Ég vænti þess að hæstv. ráðh. svari þessu.

Skv. síðustu mgr. 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að ákvæði hlutafélagalaga gildi um stjórnun Sementsverksmiðju ríkisins og að iðnrh. fari með hlut ríkisins í félaginu. Þar með er ákvörðunarvald Alþingis yfir þessu ríkisfyrirtæki fært að fullu í hendur framkvæmdavaldsins, hvort sem eignarhluti ríkisins verður 100% eða einhvers staðar á milli 100 og 80%. Hvort þetta tilheyrir frjálshyggjustefnu eða einhverri annarri nýrri stefnu Sjálfstfl. geri ég mér ekki grein fyrir, en það er jafnmikil öfugþróun hvorri stefnunni sem það tilheyrir.

5. gr. frv. heldur fyrirtækinu áfram innan ramma ríkisfyrirtækja gagnvart Akranesbæ í sambandi við greiðslu aðstöðugjalds til bæjarins.

Þá er rétt að líta á athugasemdir við frv. Þar kemur ýmislegt skemmtilegt fram. Þar segir fyrst, með leyfi virðulegs forseta:

„Sementsverksmiðjan hefur að mestu verið byggð fyrir lánsfé. Beint framlag eigandans, ríkisins, var nær ekkert en ábyrgðir voru látnar í té í fyrstu.“

Það er rétt að upplýsa þessa stöðu. Skv. reikningum verksmiðjunnar fyrir árið 1984 er eigið fé verksmiðjunnar 229 275 118 kr. Af því eru 122 179 kr. framlag eigandans, ríkissjóðs. Hreinn höfuðstóll fyrirtækisins, hreint eigið fjármagn skv. bókum fyrirtækisins, þessa fátæka fyrirtækis sem nú þarf að fara að breyta í hlutafélag til þess að styrkja rekstursgrundvöll þess, er 229 152 939 kr. skv. reikningum fyrirtækisins 31. des. 1984. Þá kemur næst í athugasemdum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ljóst er að sú eignamyndun, sem orðið hefur í fyrirtækinu, hefur skapast við fremur hátt verðlag á framleiðslunni, því auk framleiðslukostnaðar varð verðið á sementi að standa undir afborgunum og vöxtum af byggingarlánum. Fleira kemur hér einnig til, einkum rýrnun lánsfjár fyrir verðbólgu, a. m. k. að því er varðar innlend fjárfestingarlán. Það fer ekki milli mála að það hefur frá öndverðu íþyngt fyrirtækinu að eigandi þess lagði því ekki til fé að neinu ráði.

Er þess að vænta að innborgað hlutafé hefði talsverðu getað breytt um stöðu fyrirtækisins, þar á meðal gert kleift að selja framleiðsluna á lægra verði, og þannig hefði verksmiðjan orðið enn þýðingarmeiri lyftistöng fyrir nýbyggingarframkvæmdir þjóðarinnar.“

Hvað er verið að fara þarna? Það er verið að segja það að gott hefði verið að eigandinn, ríkið, hefði lagt fyrirtækinu stofnfé. En ekki til arðgreiðslu fyrir það fé, heldur til að lækka verð á sementi og til að verða enn þýðingarmeiri lyftistöng undir nýbyggingarframkvæmdir þjóðarinnar. Þessu er ég fullkomlega sammála, nema að orðið hlutafé á ekki heima þegar rætt er um liðna tíð þessa fyrirtækis og vonandi ekki framtíð heldur. Engir vita það sjálfsagt betur en þeir heiðursmenn sem samið hafa frv. og ég nefndi hér fyrr, að engar líkur eru fyrir því að einkafjármagn hefði verið lagt til verksmiðjunnar eða kæmi til fyrirtækisins með þau markmið sem hér eru tilnefnd. Hér má lesa á milli línanna góð rök fyrir því, að verksmiðjan verði áfram með því eignarformi sem vel hefur dugað hingað til. Hér er því og haldið fram að eignamyndun fyrirtækisins hafi orðið til af fremur háu verðlagi á framleiðslunni. Ekki er nú sagt meira en fremur, enda er staðreyndin sú að verðlagi var oft á tíðum haldið óeðlilega lágu af stjórnvöldum, eins og hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, og sú ráðstöfun skapaði verksmiðjunni oft erfiðleika. Rýrnun innlends lánsfjár vegna verðbólgu hefur sjálfsagt verið minni en tap fyrirtækisins vegna gengisbreytinga.

Þótt stjórnendum Sementsverksmiðjunnar hafi tekist betur en flestum öðrum að haga lántökum þannig að gengistöp hafa verið í lágmarki væri ekki úr vegi að stjórnendur peningamála kynntu sér hvernig staðið hefur verið að erlendum lántökum verksmiðjunnar. Af því gætu þeir ýmislegt lært. Niðurstaðan er sú að fyrirtækið hefur unnið sér upp eigið fjármagn á rekstrarlega heilbrigðan máta, staðið undir sínum fjárfestingarkostnaði og er ekki í dag á neinu flæðiskeri statt. En nú fer undiraldan að vaxa og róðurinn að þyngjast í athugasemdunum. Þar segir næst, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn er þetta fyrirtæki í uppbyggingu eftir að hafa starfað rúman aldarfjórðung. Skuldir þess eru miklar og er ljóst að æskilegt er að grynna á þeim og greiða niður þungbær lán.“ — Takið eftir: þungbær lán. — „Ein leið til þess er að mynda hlutafélag um verksmiðjuna og selja á almennum markaði hlutabréf í henni. Yrði þá framlag ríkisins til hins nýja félags öll eign þess í Sementsverksmiðju ríkisins og fylgifé hennar, flutningatækjum og afgreiðslustöðvum.“

En hvað skuldar nú þetta ríkisfyrirtæki sem endilega þarf á nýju fjármagni að halda? Hver eru þessi þungbæru lán, þessi miklu lán sem hvíla á þessu fyrirtæki? Langtímaskuldir eru 31. des. 1984 153 380 325 kr. Það eru öll ósköpin sem hér er verið að tala um. Skammtímaskuldir, afurðalán og ýmiss konar viðskiptaskuldir, þar með afborganir langtímalána 1985, eru 126 907 783 kr. En fyrirtækið á líka lausafjáreignir. Eignir verksmiðjunnar í veltufjármunum eru 124 053 959 kr. þannig að mismunur skammtímaskulda og eigna er tæpar 3 millj. sem skuldir eru hærri. Það er því hægt að tala um 153 millj. kr. langtímaskuldir + 3 millj. kr. skammtímaskuldir, eða alls 156 millj. kr. Ef birgðir væru reiknaðar á söluverði og afborganir fastra lána 1985 ekki teknar í dæmið fara skuldirnar niður í 120 millj. kr. Hver var að tala um miklar skuldir og þungbær lán? Þarf ekki að lesa þarna eitthvað á milli lína eða vantar kannske merki aftan við setningar?

Mannvirki og tæki verksmiðjunnar eru bókfærð á 377 millj. kr. Þeir sem gera sér grein fyrir hve mikið mannvirki Sementsverksmiðja ríkisins er gera sér ljóst að þetta bókfærða verð er aðeins brot af nýbyggingarverði slíkrar verksmiðju. Staðreyndin er sú að það hníga engin rök að því að selja þurfi eignarhluta í Sementsverksmiðjunni vegna þess að skuldastaða fyrirtækisins sé vond, eigin fjármagn ekki nægilegt. Þau eru ekki mörg fyrirtækin á Íslandi í dag sem geta státað af jafngóðri eiginfjárstöðu og Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi.

Sementsverksmiðjan hefur á undanförnum árum fjárfest mjög mikið. Það voru kostnaðarsamar breytingar í sambandi við að skipta um orkugjafa við gjallbrennsluna, frá olíu í kol, og ýmsar aðrar hliðarframkvæmdir í sambandi við þann þátt uppbyggingarinnar. Hér er þó um að ræða framkvæmdir sem eru, ef svo má að orði komast, það arðbærar að þær standa vel undir því sem þær kostuðu. Og ekki nóg með það, heldur er verksmiðjan eftir þessar og aðrar breytingar, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, mun betur búin til að standa við það hlutverk sitt að sjá landsmönnum fyrir góðu sementi á sanngjörnu og samkeppnisfæru verði. Á 27 ára starfstíma verksmiðjunnar hafa komið tímabil sem rekstur verksmiðjunnar hefur verið erfiður. Starfsfólki og stjórnendum hefur þó jafnan tekist að yfirvinna þá erfiðleika. Ekki veit ég annað en það sé samdóma álit starfsfólks, stjórnar og stjórnenda að nú standi fyrirtækið mjög vel eignalega og verksmiðjan sé í tiltölulega góðu ásigkomulagi og allir séu bjartsýnir með framtíðarrekstur hennar. Hugleiðingar um að því sé á annan veg háttað, m. a. þær hugleiðingar um það sem fram koma í athugasemdum við frv. þetta, eru því ekki í tengslum við raunveruleikann og ekki byggðar á niðurstöðum reikninga verksmiðjunnar.

Síðari hluti athugasemdanna er hugleiðingar um hið breytta eignarform sem frv. gerir ráð fyrir. Ég nefndi það hér fyrr í ræðu minni að með því er verið að gefa framkvæmdavaldinu eftir það vald Alþingis að kjósa stjórnarmenn Sementsverksmiðjunnar og verið að breyta hreinu ríkisfyrirtæki í hlutafélag. Ég er mótfallinn hvoru tveggja enda hef ég enn ekki heyrt nein rök sem mæla með því að þessi breyting eigi sér stað. Allar þessar upplýsingar sem ég þekki mæla gegn því og þá fyrst og fremst saga fyrirtækisins, núverandi staða og framtíðarmöguleikar.

Herra forseti. Virðulegi forseti. Frv. verður nú vísað til nefndar. Þar veit ég að það verður skoðað rækilega og leitað umsagna ýmissa aðila. Mér finnst athugandi að skoða nú það frv. sem hæstv. ráðh. lagði hér fram fyrir ári síðan. Ég tel að tíma iðnn. hv. deildar væri þá vel varið ef ofan á yrði að út frá því frv., með ýmsum breytingum að vísu, yrðu samþykkt heildarlög fyrir Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi.