27.03.1985
Efri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3901 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

382. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér er búið að flytja ítarlegar og langar ræður með miklu sögulegu ívafi og farið langt aftur í tímann. Það er eiginlega ekki kinnroðalaust að ég játa að ég er ekki undir slíka umr. búinn. Ég er mest hissa á því að hæstv. iðnrh. og fyrrv. stjórnarformaður verksmiðjunnar, 4. þm. Vesturl., skyldu ekki hafa byrjað hérna við Kalkofnsveginn þar sem brennt var kalk úr Esjunni sem er kannske undanfari sementsverksmiðju með nokkrum hætti. En ég skal ekki fjölyrða um það.

Hins vegar verð ég að segja eins og er að ræða hæstv. iðnrh. kom mér svolítið á óvart vegna þess að ég átti von á því að hann mundi flytja mál sitt af miklum þunga og sannfæringarkrafti eins og hann væri að tala fyrir máli sem hann hefði skoðun á og sú væri sannfæring hans að hann væri að tala fyrir réttu máli. Svo var ekki, að mínu mati. Mér þótti sem hann væri að inna af höndum skylduverk, honum kannske ekkert allt of ljúft eða létt, en hann lét sig hafa það að gera það samt, enda maðurinn enginn veifiskati. Þetta kom mér á óvart.

Raunar kom mér líka á óvart að þetta frv. skyldi sjá dagsins ljós á hinu háa Alþingi í þeirri mynd sem raun ber vitni eftir að hafa fengið í hendur undir þinglokin í fyrra frv. það sem hv. 4. þm. Vesturl. gerði nokkur skil hér, sem var 369. mál síðasta þings, þskj. 1028, lagt fram í þessari hv. deild, frv. til l. um Sementsverksmiðju ríkisins. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Verksmiðjan er í eigu ríkissjóðs, en starfar sem sjálfstæð stofnun innan ríkisheildarinnar. Hún lýtur sérstakri stjórn eftir lögum þessum undir yfirstjórn iðnrn.“

Þetta var skoðun og sannfæring hæstv. iðnrh. fyrir einum ellefu mánuðum, en nú hefur þar orðið breyting á og við sjáum frv. til l. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.

Raunar, svo að ég sé ekki alger eftirbátur þeirra sem á undan mér hafa talað, þykir mér skylt að geta þess og láta það koma hér fram að á 91. löggjafarþingi var og lagt fram frv. til l. um sementsverksmiðju ríkisins, þ. e. á þinginu 1970–1971. Þar var og gert ráð fyrir því að Sementsverksmiðja ríkisins væri sjálfstæð stofnun, væri eign ríkisins o. s. frv. Það var, eins og 4. þm. Vesturl. sagði réttilega áðan, líka bjargföst skoðun þeirra manna sem mjög beittu sér fyrir byggingu þessarar verksmiðju og að hún yrði byggð á Akranesi, þeirra Ólafs Thors og Péturs Ottesens, og menn geta sjálfsagt fundið þessum fullyrðingum mínum stað í þingtíðindum með því að fletta upp í ræðum þeirra, að þessi verksmiðja ætti að vera í eigu ríkisins.

Frv., sem ég hef hér um getið og flutt var á þinginu 1970–1971, var samið af nefnd fjögurra manna sem þáv. iðnrh. skipaði. Í þeirri nefnd áttu sæti Ásgeir Pétursson sýslumaður, Benedikt Gröndal alþm., Sveinn Guðmundsson alþm. og Hjörtur Torfason hrl. sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Ég sé ekki ástæðu til að fara sérstökum orðum um þetta gamla frv., en í öllum meginatriðum er frv. sem hæstv. iðnrh. lagði fram í fyrra mjög í sömu átt. Nú hefur hins vegar orðið breyting á. Það vefst fyrir mér og væntanlega fyrir fleirum hver er skýringin á þessari breytingu. Hvaða rök liggja til þess að hæstv. iðnrh. hefur þarna skipt um skoðun? Við skulum hugleiða nokkur.

Er þetta fyrirtæki illa rekið eins og nú háttar til? Ég tel mig þekkja nokkuð til þar. Að vísu skortir mig jafnræði þar á við hv. 4. þm. Vesturl. sem hefur lengi verið í stjórn þessa fyrirtækis og stjórnarformaður, en ég fullyrði að Sementsverksmiðja ríkisins er vel rekið fyrirtæki.

Það hefur verið frá því greint að hætt hafi verið olíubrennslu í ofni verksmiðjunnar og tekin upp kolabrennsla. Það gætti mikillar svartsýni og gagnrýni fyrir fram á þessa ráðstöfun. Ég hygg að það sé samdóma álit allra sem til þekkja að þetta hafi verið mjög skynsamleg ákvörðun sem leitt hafi til sparnaðar í rekstri fyrirtækisins og hafi ekki haft í för með sér mengun af neinu tagi, sem ýmsir úrtölumenn höfðu mjög á orði í byrjun, heldur þvert á móti, ef eitthvað er, hafi mengun heldur minnkað frá hinum stóra skorsteini verksmiðjunnar þar sem um fer útblásturinn frá ofninum.

Ýmislegt annað hefur verið vel gert í rekstri þessa fyrirtækis. Þá nefni ég sérstaklega tilraunir sem fram hafa farið í samvinnu sementsverksmiðju og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga um notkun kísilryks, þ. e. mengunar frá Grundartanga sem nú er sumpart seld til útlanda í formi kísilryks eða henni er blandað í sement Sementsverksmiðju ríkisins til að gera það að betri vöru og komast burt frá þeim margumtöluðu alkalískemmdum og alkalíveikleika sem íslenska sementið var búið.

Það hefur verið gert átak á öðrum sviðum til að draga úr mengun frá verksmiðjunni, m. a. með því að setja upp ýmiss konar nýjan hreinsibúnað. Þau mál höfðu verið í ólestri, en úr því hefur verið bætt og sjálfsagt má þar gera enn betur.

Eiginfjárstaða og skuldastaða fyrirtækisins hefur verið rakin hér og sé ég ekki að nein rök hnígi til þess að breyta þessu rekstrarformi frá því sem nú er. Það hefur ekkert komið fram í þessum umr., sem að vísu eru ekki mjög langar enn sem komið er, sem bendir til þess að þetta fyrirtæki sé illa rekið eða að breyting í þá átt sem frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir mundi bæta rekstur fyrirtækisins með neinum hætti.

Þegar þetta ríkisfyrirtæki var sett á laggirnar á sínum tíma voru menn einhuga um að fyrirtækið ætti að vera í eigu ríkisins. Nú þekki ég ekki þá sögu alveg til hlítar, hef raunar ekki haft ráðrúm til að kynna mér hana, en þegar þetta fyrirtæki er sett á laggirnar og því valinn staður á Akranesi gefur Akranesbær lóð undir verksmiðjuna. Síðan eru gerðir ýmiss konar aðrir samningar við Akranesbæ sem auðvitað eru gerðir milli ríkisins og Akranesbæjar. Forsendur þeirra samninga eru að ríkið á þarna í hlut en ekki eitthvert hlutafélag. Ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. hefur tekið það með í reikninginn, sem mér sýnist, að verði þetta frv. að lögum hljóta ýmis af þeim málum óhjákvæmilega að koma til endurskoðunar af hálfu Akranesbæjar. Nú get ég ekkert um þetta fullyrt, en þetta sýnist mér að heilbrigð skynsemi bjóði manni að segja.

Það vefst sem sagt fyrir mér og ég fæ ekki séð hver tilgangurinn með þessu frv. er. Ég mundi skilja það langtum betur ef hæstv. iðnrh. hefði farið alfarið að ráðleggingum stuttbuxnadeildarinnar í Sjálfstfl. og frjálshyggjupostulanna og lagt til að gera Sementsverksmiðjuna að fyrirtæki í eigu einkaaðila.

Hér er um það að ræða að gefa einkaaðilum kost á að kaupa 20% af hlutafé verksmiðjunnar og enginn veit hvert matsverðið verður á sínum tíma. Það er ekkert vitað um það á þessari stundu. En hvaða hag hafa einstaklingar af því að eignast 20% í fyrirtæki eins og sementsverksmiðjunni? Ég fæ ekki séð hvaða einstaklingar ættu að hafa áhuga á því. Hins vegar leyni ég því ekki að að mér læðist sú hugsun að hér sé verið að gera allt annað, sem ekki er haft á orði enn sem komið er, en kann þó að verða hér á borði áður en langt um líður, en það er að steypustöðvarnar vilji með þessum hætti eignast aðild að þessu fyrirtæki. Ég skal viðurkenna að þetta er lítið rökstudd fullyrðing og ekkert slíkt hefur heyrst frá steypustöðvunum, en mér býður í grun að svona sé þessu farið, að það séu m. a. þeir aðilar sem hafa þrýst á um að frv. til l. um Sementsverksmiðju ríkisins tæki breytingum frá í fyrra. Ég fæ ekki séð neitt annað sem skýrir þessa breytingu. Steypustöðvarnar hér á höfuðborgarsvæðinu eru vissulega voldugar. Þær velta miklu fjármagni og virðast hafa úr töluverðu fjármagni að spila. Ég held því að þar kunni að felast hin raunverulega skýring á hugarfarsbreytingu hæstv. iðnrh. og að hann hafi orðið að láta undan þrýstingi til að flytja hér mál sem ég er ekki viss um að honum sé mjög að skapi.

Í framhjáhlaupi, talandi um steypustöðvar og iðnaðaruppbyggingu, rekur mig minni til þess að nokkrir mánuðir eru síðan opnuð var ný steypustöð á höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að hún hafi kostað í kringum 60 millj. kr. Ef ég man rétt kom fram í fréttum um sama leyti að 40 millj., ef mig ekki misminnir, 35–40 millj. ef ek$i þaðan af meira, voru fengnar að láni úr opinberum sjóðum, Iðnlánasjóði og fleiri sjóðum. Þetta hygg ég að ég muni rétt. Þetta gerist á sama tíma, og það er talandi tákn um stefnu hæstv. ríkisstj. í málefnum iðnaðar, og fyrir eru steypustöðvar sem ekki er vitað annað en fullnægi að öllu leyti þeim markaði sem fyrir hendi er og vel það. Þá er ausið milljónatugum í slíkt fyrirtæki. Hér er ekki um nýiðnað að ræða. Hér er ekki um neinn upplýsingaiðnað að ræða jafnvel þó að steypumaskínurnar í þessari stöð séu sagðar tölvustýrðar. Ef menn vilja byggja nýja steypustöð eiga þeir að gera það fyrir peninga úr eigin vasa, ekki úr vösum skattborgaranna. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. stutt og léð atbeina sinn þessu. Á sama tíma flytja hæstv. ráðherrar ræður um ágæti upplýsingaiðnaðar, sem ég tek vissulega undir, nýiðnaðar af ýmsu tagi, en þangað fást engir peningar. Þeim er veitt í gömlu farvegina vegna þess að það ríkir gamall staðnaður hugsunarháttur hjá þessari ríkisstj. Á sama tíma og sjávarútvegurinn er á vonarvöl, togararnir sigla hver af öðrum undir uppboðshamar stjórnvalda, stýrir ríkisstj. fjármagninu í nýjar steypustöðvar.

Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að sett sé löggjöf um Sementsverksmiðju ríkisins. En ég endurtek að ég hef engin rök heyrt sem mæla með því að fyrirtækinu verði breytt í hlutafélag og að farið verði að selja 20% af hlutafjáreigninni. Það má minna á að þegar hið gamla frv., sem ég hef minnst á hér, var til umr. var prentað minnihlutaálit Sveins Guðmundssonar alþm., flokksbróður hæstv. iðnrh. Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Ég feldi eðlilegt, að stofnað væri nú þegar til hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins, þar sem ríkissjóður ætti einn öll hlutabréfin, og fyrirtækið rekið í því formi, eins og heppilegt hefur þótt um ríkisfyrirtæki víða um lönd, t. d. í Svíþjóð.“

Þetta er allt annar handleggur. Þetta gæti svo sem vel komið til athugunar, enda þótt ekki hafi verið farið inn á þær brautir, eins og annars staðar á Norðurlöndunum, að reka opinber fyrirtæki í formi hlutafélaga þar sem öll hlutabréfin eru í eigu ríkisins.

Mér þykir þetta mál, virðulegi forseti, eins og aðdragandi þess er — þ. e. að fyrir ellefu mánuðum eða svo kemur fram frv. til l. um Sementsverksmiðju ríkisins þar sem gert er ráð fyrir óskoraðri ríkiseign á fyrirtækinu og núna frv. til l. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins — vera allt í skötulíki, svo að notað sé eftirlætisorðtak hæstv. iðnrh.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, en ég veit að þar verður séð um að það fái ítarlega umfjöllun og haft verði samráð við þá aðila sem málið varðar, bæði starfsmenn fyrirtækisins og sömuleiðis og ekki síður bæjarstjórnina á Akranesi. Ég vona líka hæstv. ráðh. vegna að það komi fram, annaðhvort í þessari umr. eða þegar þetta mál kemur til umfjöllunar í nefnd, einhver haldbær rök fyrir þessu frv.

Ég vil að lokum láta þess getið að það hefur farið fram að undirlagi hæstv. iðnrh. einhvers konar úttekt á rekstri Sementsverksmiðjunnar. Nú skilst mér að hún sé hálfgert leyndarplagg og hafi a. m. k. ekki farið mjög víða. Ég veit að ýmsir starfsmenn fyrirtækisins hafa látið í ljós áhuga á að fá að kynnast því sem þarna kemur fram. Enn er huliðshjálmur yfir þessum gögnum, en mér skilst af lausafregnum að ekki sé allt jafnviturlegt eða merkilegt sem kemur fram í þeirri ályktun. (Iðnrh.: Úttekt.) Úttekt. Sú nefnd, sem þetta mál fær til meðferðar, hlýtur auðvitað að fá þessa úttekt til athugunar og umfjöllunar. Hún hlýtur að vera eitt af þeim gögnum sem menn leggja til grundvallar þegar um þetta mál verður endanleg afstaða tekin. Ég veit ekki nema hæstv. ráðh. gæti alveg eins sætt sig við að þetta mál kæmi aldrei frá hv. iðnn., en dagaði þar hreinlega uppi eins og svo mörg vond mál sem betur fer gera.

Valdimar Indriðason: Virðulegi forseti. Ég er ekki með samda ræðu um þetta frv., en vil þó segja um það nokkur orð vegna þess að ég ætti að vera staðháttum nokkuð kunnugur þar sem verksmiðjan, sem hér er um rætt, er staðsett í minni heimabyggð. Ég hef einnig starfað að sveitarstjórnarmálum mestallan þann tíma sem hún hefur starfað og ætti að geta þar fjallað um af kunnugleika. Ég skal þó ekki orðlengja mjög.

Það er rétt, sem hefur komið fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. í sambandi við forsögu þessa máls svo langt sem það náði, að það var fast sótt á það á sínum tíma að fá þessa verksmiðju staðsetta á Akranesi. Er það allt saman til í annálum. Þeim mætu mönnum sem stóðu hvað fastast á því á Alþingi, þeim Pétri heitnum Ottesen og Ólafi Thors, verður að þakka hvað þeir lögðu þar af mörkum með miklum stuðningi heimamanna.

Hér er spurt: Af hverju var þetta gert að ríkisfyrirtæki í byrjun? Þá var ástandið þannig í þjóðfélaginu, því miður, að menn áttu ekki peninga til að leggja í slíkt fyrirtæki. Á þeim tíma hafði Akranesbær t. d. enga möguleika til að leggja neitt fjármagn í slíkt fyrirtæki. Á þeim árum þótti sjálfsagt að slíkt stórfyrirtæki, fyrsta stóriðjufyrirtæki á Íslandi, sem þarna er reist fyrir nær 27 árum, Sementsverksmiðjan, yrði ríkiseign. Það hvarflaði ekki að neinum að þetta væri hægt að gera nema á vegum ríkisins. Það var ekki um annað að ræða. Þetta held ég að sé skýringin á því hvers vegna þetta er ríkisfyrirtæki.

Ég ætla engan dóm á það að leggja að svo stöddu, og veit ég að hæstv. iðnrh. misvirðir það ekki við mig, hvort það er rétt að breyta þessu nú eða ekki. Það verður fjallað um það betur og nákvæmar. Þarna þarf ýmislegt að skoða, t. d. sambandið við Akranesbæ og einkum starfsfólkið þarna. Mín reynsla af þessu fyrirtæki og samstarfi við það hefur verið góð að undanskildum nokkrum atvikum sem alltaf gerast í slíkum efnum. Það varð ákveðið stríð t. d., sem ég veit að hv. 4. þm. Vesturl. man eftir því að hann var stjórnarformaður á þeim tíma þegar mest var barist fyrir því, þegar bæjaryfirvöld reyndu að koma í lag mengunarvörnum, sem var mjög ábótavant, og urðu þá mikil og ströng átök. Viðkomandi stjórn réði svo bót á þessu. Þá var því einkum borið við að það væri svo dýrt að bæta mengunarvarnir að fyrirtækið hefði engin efni á því, væri alltaf fjárvana. Þetta voru rökin sem beitt var og sjálfsagt var alveg rétt að þau voru fyrir hendi. Þá var verið að breyta olíukyndingu í kolabrennslu, sem var stórt skref í þá átt að bæta rekstur fyrirtækisins, og hefur það tekist mjög vel. Í dag eru mengunarmálin í nokkuð góðu lagi og allgóðu lagi miðað við aldur verksmiðjunnar.

Eins og ég sagði áðan var fast sótt af Akranesbæ að fá þessa verksmiðju í plássið. Eins og hér hefur komið fram lét Akranesbær af hendi lóðir undir þessa verksmiðju og gerði ýmsa aðra samninga, t. d. sérstaka samninga um hafnargjöld og sérstaka samninga um vatnssölu og annað slíkt, sem voru mjög í lægri kantinum miðað við það sem nú tíðkast. Hvað þetta yrði mikið framreiknað, ef til sölu kæmi, skal ég ekki mat á leggja, en bæjarstjórn Akraness á að sjálfsögðu eftir að fjalla um þetta mál er það kemur til hennar kasta. Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að leggja á þetta mat á þessu stigi málsins, ekki fyrr en ég er búinn að kynna mér það vel hjá heimaaðilum og félögum mínum í bæjarstjórn Akraness hvernig þeir líta á þetta mál.

Ég ítreka að það hefur verið góð samvinna við þetta fyrirtæki og ég lít þannig á að það hafi verið góð stjórn á þessu fyrirtæki. Það hefur ekkert rekist á við okkar hagsmuni þar. Stjórn á fyrirtækinu hefur verið góð að okkar mati á Akranesi. Hins vegar hef ég alls ekki á móti því að kannað sé, því að tímar hafa breyst á 27 árum, hvort þarna bjóðast hagkvæmar leiðir. Ég ætla ekki að standa á móti því, ef hægt er að auka starfsemi fyrirtækisins frekar en nú er, að tekin sé upp meiri nýbreytni. Sjálfsagt er að leita leiða í þeim efnum. T. d. er núna hafin allveruleg og góð samvinna á milli Járnblendifélagsins og Sementsverksmiðjunnar. Ég á við tilraunaframleiðslu á sérstakri steypu sem er framleidd úr sementi og rykinu margfræga frá Grundartanga. Ég held að núna sé einmitt verið að ráða mann til að gera þar öflugra átak, en þetta hefur reynst mjög vel. Nú þegar er búið að setja í tilraunaskyni flotbryggju upp á Akranesi og lítur það mjög vel út og getur komið víða að notum. Nútíminn býður því upp á ýmsa nýja möguleika. Ef hægt er að fá nýtt og aukið fjármagn til fyrirtækisins án þess að annað sé skemmt ætla ég ekki að leggjast á móti slíku. Þess vegna vil ég að þetta sé kannað og legg áherslu á það, þar sem ég er ekki í þeirri n. sem um þetta mál fjallar, að leitað verði álits starfsfólksins og bæjarstjórnar Akraness sem heimaaðila í þessum efnum áður en þetta mál kemur hér til umr. aftur. Það veit ég að hv. n. mun gera.

Eitt rak ég augun í. Ég vildi benda hæstv. iðnrh. á aths. við 5. gr. Þar stendur, með leyfi forseta: „Fyrirtækið greiðir nú landsútsvar. Með tilliti til eðlis starfseminnar þykir rétt að félagið greiði áfram landsútsvar í stað aðstöðugjalds og er lagt til að það verði 1% af aðstöðugjaldsstofni. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að Sementsverksmiðjan greiði skatta og opinber gjöld með sama hætti og annar atvinnurekstur í landinu.“

Ég þori ekki að fullyrða það, en ég held að ég muni það rétt að fyrirtækið greiði landsútsvar, en það sé 2% af aðstöðugjaldsstofni. Hér er lagt til að það sé 1%. Það er lækkun um helming á landsútsvari. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir Akranes vegna þess að samkvæmt lögunum fær heimabyggð fyrirtækis 25% af landsútsvarinu. T. d. hefur Reykjavíkurhöfn meiri tekjur af þessu nú en Akranesbær af aðstöðugjaldinu. Ef ég man rétt held ég að það séu um 1.7 milljónir sem koma út úr þessu fyrir Akraneskaupstað, en mundi lækka um helming. Við þetta er ekki hægt að una. Svo greiðir fyrirtækið fasteignagjöld, en önnur gjöld ekki nema þá samkv. hlutafjárlögunum. Aðra skatta sem á þetta kæmu fengi þá ríkið. Við því er ekkert að segja.

Ég bendi á þetta. Ég held að það sé rétt hjá mér að þessi gjaldstofn yrði lækkaður um helming frá því sem er.