27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3915 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það fór svo nú eins og endranær þegar einhverjar breytingar eru á ferðinni, þó lítilfjörlegar séu, að þá þurfa þeir hinir verstu kerfiskarlar á hinu háa Alþingi ævinlega að reyna að koma í veg fyrir breytingarnar, í raun og veru hvort sem þessar breytingar eru til góðs eða ills. Það er eitur í beinum þessara kerfiskarla að hreyfa við nokkrum sköpuðum hlut. Og röksemdirnar eru nákvæmlega í takt við þetta.

Það er svo með þetta litla mál um breytingu á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins að skipuð var sérstök nefnd sem í áttu sæti upphaflega af Alþingis hálfu núverandi hæstv. samgrh., Marteinn Friðriksson, sá sem hér stendur í stóli og Sighvatur Björgvinsson. (KP: Þá fara menn nú að skilja.) Nú, skilningurinn kom þegar Alþfl.-maðurinn var nefndur, heyri ég. (Gripið fram í.) Þarna voru auðvitað fleiri. Þarna var fulltrúi sjómanna, Óskar Vigfússon, fulltrúi fiskverkenda, Sigurður Einarsson o. s. frv.

Tilgangur nefndarskipunarinnar var sá að reyna að hrugga svolítið við þessu gamla kerfi, helst í þá áttina að það ynni betur og væri liprara og einhver nýmæli væri hægt að koma með í sambandi við þessa hluti. Útkoman var nú sú að breytingar urðu ákaflega lítilvægar. Það er víðar tregða en hjá hv. þm. Vestf. Hér er ekki um það að tefla að um stórkostlegar breytingar eða neina byltingu sé að ræða í þessum efnum, heldur tiltölulega litlar breytingar, þó í rétta átt. Margir þeirra sem sátu í þessari nefnd óskuðu eftir því að geta breytt meiru en það tókst ekkí. Hér er því í raun og veru ekki um annað að ræða en að minnka svolítið þetta ráð, sem var of stórt og þungt í vöfum, og að mínum dómi er síst of langt gengið í þeirri fækkun eins og menn geta séð ef þeir skoða hvað stendur hér á blöðum. Það þarf auðvitað ekki að lesa það upp fyrir hv. þm. Karvel Pálmasyni af hvaða ástæðum lagt er til að taka út fulltrúa sérstakra fisktegunda. Kannske er einfaldasta röksemdin fyrir því sú að fulltrúar þeirra hagsmunaaðila sem veiða þessi sjávardýr telja sig geta farið fullkomlega með umboð þess fólks sem veiðir þessi dýr, skel, humar og rækju o. s. frv.

Það sem kemur fram í nál. minni hluta, hv. þm. Guðmundar Einarssonar er annars eðlis. Það er um það að ekki skuli vera nein yfirnefnd. Það væri svo sem ákaflega gott ef við gætum alveg losnað við yfirnefnd.

Það er nú svo að þegar tveir della þá verður einhver að skera úr. Það hefur dregist nægilega lengi með því kerfi sem við höfum haft að ná saman fiskverði þó ekki sé á þá menn bætt að hafa engan úrskurðaraðila. Ekki nema menn vilji vera að rífast um þetta endalaust. Það þarf einhver að skera úr, það er auðvitað alveg ljóst. Ef ekki næst samkomulag í Verðlagsráðinu þá fer málið til yfirnefndar. Það væri kannske hugsanlegt að hafa enga yfirnefnd en leysa þetta þá með því að þarna standi á oddatölu og menn verði neyddir til að skera úr þessu. En þeir sem voru í þessari nefnd sáu ekki fram á að nokkur friður yrði um þá breytingu og hún yrði heldur ekki til góðs.

Í nál. minni hlutans má finna jákvæða hluti þó sjaldgæft sé. Þarna er ofurlítill vísir að frjálsum fiskmarkaði. Það er þannig með fiskverðsákvörðun hér á landi að það er ákveðið sama lágmarksverð um allt land. Um þessa aðferð geta menn að sjálfsögðu deilt. En það er bara þannig hjá okkur að við höfum ekki sömu möguleika á frjálsum fiskmarkaði eins og gerist annars staðar nálægt neytendamarkaðinum. Það væri auðvitað ekki slæmt fyrir okkur að hafa annan eins markað og er í Bretlandi og Þýskalandi og víðar, frjálst fiskframboð. En hvernig halda menn t. d. að yrði boðið í fiskinn á einhverjum stað úti á landi þar sem aðeins einn aðili er til að kaupa? Við skulum segja á Höfn í Hornafirði þar sem bara Sambandið eitt er eða Bolungarvík þar sem bara er einn einstaklingur, eða í Vestmannaeyjum þar sem ein klíka á þetta allt saman. Þarna er ekki um frjálsan fiskmarkað að ræða, því miður. En þarna er um að ræða nýmæli, þó í litlu sé, í jákvæða átt. Ég sé að hv. þm. Guðmundur frá SH brosir, þykir málið skemmtilegt.

Herra forseti. Um þetta mætti auðvitað meira segja, þó lítilfjörlegt sé, en ég held ég láti það eiga sig. Hitt er svo annað mál að ég held að alþm. ættu að skilja það kannske betur en aðrir að þeim mun fleiri sem eru í svona apparati þeim mun stirðara verður auðvitað að vinna með því. Að mínum dómi hefði verið æskilegt að hafa fækkunina enn meiri. En um það náðist ekki samkomulag og þegar ekki næst samkomulag í slíkum efnum þá þýðir ekkert að reyna að neyða það fram, það er vonlaust verk, þannig að við sitjum uppi með þetta ekki skárra en það er. Ég legg til að þetta verði samþykkt.