27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3917 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir þá vitneskju sem hann lét hér í té. Mér kemur út af fyrir sig ekkert á óvart, enda væri nú annað skrýtið, ef hv. þm. Garðar Sigurðsson mundi ekki verja hér krógann sem hann sjálfur stendur að að semja. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt að heyra hann tala í þeim dúr sem hann talaði hér áðan. Í raun og veru mætti ætla að í gegnum starf núv. hæstv. sjútvrh. hefði hv. þm. Garðar Sigurðsson verið eins og nokkurs konar aðstoðarsjútvrh. því að ég man vart eftir einu eða neinu, sem komið hefur frá núv. hæstv. ríkisstj. eða hæstv. sjútvrh. í tengslum við sjávarútveg, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson hefur ekki stutt í einu og öllu. Þar á meðal hin verstu verk sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert í sambandi við fiskveiðar og fiskvinnslu sem er kvótakerfið, þannig að mér kemur ekkert á óvart þó að ég upplifi það einu sinni enn að hér tali hv. þm. Garðar Sigurðsson sem sérstakur fulltrúi sjútvrh. og ríkisstj. í þessum efnum. Það er ekkert nýtt fyrir mér og það mun ekki vera nýtt fyrir þm. hér almennt. Þetta höfum við upplifað hér trekk í trekk á umliðnum tíma.

Hv. þm. talar um kerfiskarla. Það breytir út af fyrir sig engu, hvað mig varðar, hvað hann nefnir þessa hluti. Ég tel að fulltrúar þessara veiðigreina í sjávarútvegi eigi fullkominn rétt á því að eiga aðild að verðákvörðun eins og hverjir aðrir sem veiðar stunda eða umboð fara með í þeim efnum. Ég vil ekki setja fulltrúa þessara aðila á neitt lægri bekk en fulltrúa frá LÍÚ eða fulltrúa frá Sjómannasambandinu án þess að ég sé á nokkurn hátt að kasta rýrð á þá einstaklinga sem þar eiga hlut að máli. Ég tel að það sé eðlilegt að fulltrúar þessara greina eigi aðild að þessu eins og hverjir aðrir.

Það má vel vera og ég rengi það ekkert sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði hér áðan að umsagnir hafi verið á þann veg sem hann hér lýsti. En það breytir ekkert minni skoðun og mínum viðhorfum til málsins. (StG: Það datt mér ekki í hug.) Nei, ég hygg að hv. þm. sé nú búinn að læra að það er erfitt að breyta minni skoðun frá því að vera réttlát til þess að vera ranglát, það er mjög svo erfitt og hefur fleirum og ýtnari mönnum en honum ekki tekist.

Ég tek það fram aftur, án þess að ég sé að kasta neinni rýrð á þá fulltrúa sem tilnefndir eru af Landssambandi ísl. útvegsmanna, að ég efa að þeir séu jafn dómbærir á verðákvörðun á rækjuafurðum, hörpudiski og öðru slíku eins og þeir sem þá grein stunda. Og ég flokka með þeim einn fulltrúa sem tilnefndur er af Sjómannasambandi Íslands án þess — og ég ítreka — að það sé verið að kasta neinni rýrð á þessa einstaklinga. En þeir aðilar sem um þessi mál fjalla frá degi til dags, atvinnuveginn stunda, þeir þekkja betur til en hinir sem utanaðkomandi eru.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð, en það var út af fyrir sig ánægjulegt að fá það enn einu sinni fram hversu dyggilega hv. þm. Garðar Sigurðsson styður hæstv. ríkisstj. og þá sér í lagi hæstv. sjútvrh. jafnvel til hinna verstu verka.