27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

373. mál, tónslistarskólar

Flm. (Magnús Reynir Guðmundsson):

Herra forseti.

Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 22/1975, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla á þskj. 594. Frv. er í tveimur gr., svohljóðandi:

„1. gr. Á eftir 5. gr. laganna komi ný grein er orðist svo:

Styrkur skal veittur tónlistarskólum til að byggja eða kaupa skólahús eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Styrkurinn getur numið allt að 50% af byggingarkostnaði eða kaupverði húsnæðis enda leggi viðkomandi sveitarfélag jafnhátt framlag á móti. Styrkur ríkissjóðs skal aldrei vera hærri en framlag sveitarfélaga.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Svohljóðandi grg. fylgir frv.:

„Frv. þetta hefur þá breytingu í för með sér að ríkissjóður styrki tónlistarskóla til að byggja eða kaupa skólahúsnæði en í gildandi lögum eru ekki ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaði. Í frv. þessu er gert ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs sé þó bundið því skilyrði að viðkomandi sveitarfélag leggi fram fé úr sjóði sínum til þessara mála.

Með lögunum nr. 22/1975 er viðurkennt hversu mikilvæg tónlistarkennsla er og ríkissjóður og sveitarfélög taka að sér að greiða laun vegna kennslunnar sem er stærsti kostnaðarliðurinn.

Það verður að teljast eðlilegt að þessir aðilar standi einnig sameiginlega að byggingu skólahúsnæðis eða kaupum á hentugu húsnæði þar sem þess gerist þörf. Því er lagt til að lögunum verði breytt þannig að í þeim sé gert ráð fyrir þátttöku ríkissjóðs að undangenginni ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar um að leggja fé til þessara mála.“

Um mikilvægi tónlistarfræðslu þarf varla að fjölyrða og gildandi lög frá 1975 og reyndar eldri lög frá 1963 árétta skilning Alþingis á mikilvægi þessarar fræðslu. Og þótt í þessum lögum sé ekki að finna ákvæði um stuðning ríkissjóðs við húsnæðismál tónlistarskólanna í landinu þá er það vitað að tónlistarskólar hafa haft afnot af grunnskólahúsnæði og öðru skólahúsnæði þar sem því hefur verið komið við. Þróunin hefur þó orðið sú að þörf tónlistarskólanna fyrir eigið húsnæði hefur með vexti þeirra og sífelldri fjölgun nemenda orðið augljósari. Svo nefnd séu dæmi um aðstöðuleysi einstakra skóla þá má geta þess að einstakir skólar hafa þurft að vera með kennslu á fjölmörgum stöðum í viðkomandi sveitarfélögum, nemendum og kennurum til mikils óhagræðis.

Tónlistarskólar hafa flestir verið stofnsettir vegna áhuga einstaklinga á tónlistarfræðslu og hin fjölmörgu tónlistarfélög vítt og breitt um landið hafa verið frumkvöðlar að skólahaldinu. Sveitarfélög hafa þó mörg hver með ýmsum hætti reynt að hlúa að þessari starfsemi og eins og áður sagði hafa skólarnir í mörgum tilvikum fengið inni með starfsemina í grunnskólahúsnæði eða í öðrum skólum þar sem því hefur verið við komið. Þegar stjórnendur tónlistarskólanna hafa svo staðið frammi fyrir því að þróun skólanna yrði ekki með eðlilegum hætti nema því aðeins að skólarnir eignuðust sitt eigið húsnæði þá finnast engin ákvæði í lögum um stuðning ríkissjóðs eða sveitarfélaganna við byggingu skólahúsnæðis.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að ríkissjóði sé skylt að leggja fram fé til byggingar tónlistarskólahúsnæðis, enda leggi viðkomandi sveitarfélag jafnhátt framlag á móti. Það virðist afar ósanngjarnt að sveitarfélögunum einum sé ættað það hlutverk að byggja húsnæði fyrir skóla sem rekinn er af ríki og sveitarfélagi í sameiningu. Það virðist sanngjarnt miðað við þátttöku ríkissjóðs í byggingu annarra skólamannvirkja að gera ráð fyrir að þessir aðilar mætist á miðri leið að því er varðar þennan mikilvæga þátt í menntunar- og menningarlífi landsmanna.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að leggja til að frv. þessu verði vísað til hv. menntmn. þessarar deildar.