27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

373. mál, tónslistarskólar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég fyrir mitt leyti, vil lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, að það er nokkuð til marks um stefnuleysi í íslenskum menntamálum, að þau einu lög sem um tónlistarskóla fjalla eru lög nr. 22/1975 og heita lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Um tónmenntakennslu í landinu eru engin lög til, og þau lög sem nú eru í gildi, sem ég nefndi hér áðan, eru auðvitað til þess eins — svo sem nafn þeirra bendir til — að tryggja greiðslu starfsmanna skólanna. Mér er ljóst að það er töluvert mál að samþykkja 50% þátttöku ríkisins í byggingarkostnaði og kannske lítil von til þess að það verði gert á þessu þingi. En hitt er annað mál að þetta frv. vekur a. m. k. athygli á því að það er alveg nauðsynlegt að marka tónlistarkennslu í landinu farveg með löggjöf um hvernig hún skuli fara fram. Það er hárrétt, sem fram kom hjá hv. fim., að tónlistarskólar landsins hafa orðið til fyrir áhuga einstaklinga hér og þar. Sem betur fer er svo komið að tónlistarkennsla í landinu er nú umtalsverð. En menntmrn. hefur afskaplega lítið gert til að marka stefnu í þessum málum. Ég vona að þetta frv. verði a. m. k. til þess að hreyfa við hæstv. ráðherrum að sinna þessum mátum. En því miður verður það að segjast eins og er að það er eins og um aðra mótun menntastefnu í landinu, hana vantar sárlega. En ég tel feng að þessu frv. og vil lýsa stuðningi mínum við það.