27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í heilbr.- og trn. og er meðflytjandi þessa máls sem flutt er að beiðni ráðh. Ég vil hins vegar, ég skal þó reyna að lengja ekki mjög umr. um þetta mál, vekja athygli á einu atriði sem frsm. minntist á, en það varðar þær stéttir sem sótt hafa um löggildingu, sem eru Félag ísl. læknaritara, Sjúkranuddarafélag Íslands, Félag matvæla- og næringarfræðinga, Félag heyrnarfræðinga og talmeinafræðinga og líffræðingar starfandi í heilbrigðiskerfinu, en hafa ekki fengið löggildingu. Staða læknaritara er að því leyti sérkennileg að þegar t. d. kemur til vinnudeilna eru þeir álitnir heilbrigðisstétt og er bannað að fara frá vinnu. Þeir eru samt ekki taldir til heilbrigðisstétta í þessu frv.

Félag ísl. læknaritara hefur hvað eftir annað sótt um löggildingu. Hæstv. þáv. heilbrrh. ritaði þeim bréf 15. okt. 1982 þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Rn. er þeirrar skoðunar að erfitt sé að finna störfum læknaritara stað undir lögum nr. 67/1971, en þau gera m. a. ráð fyrir tækniheiti viðkomandi starfshóps. Rn. getur því ekki orðið við beiðni yðar um reglugerð byggða á heimildum í þeim lögum.“

Síðan segir: „Rn. hefur hins vegar í framhaldi af erindi yðar og öðrum slíkum hafið endurskoðun á lögunum með það fyrir augum að leggja fram á komandi Alþingi frv. til laga um heilbrigðisstéttir sem mundi taka yfir allar heilbrigðisstéttir, jafnt tæknimenntaðar sem aðrar. Verði slíkt frv. að lögum ætti málefnum læknaritara að vera borgið.“

Þetta segir þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh. Svavar Gestsson 15. okt. 1982. 18. júlí 1983 fær Félag ísl. læknaritara aftur bréf varðandi það sama og þar sem því sama er lofað, að þegar lagt verði fram frv. til l. um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta verði þessar stéttir teknar með og þeirra málum verði þar með borgið.

Nú er ljóst að læknaritarar og stéttir sem ég hef áður talið upp eru trúlega utan þessara laga, að mér sýnist. Í grg. frv. á bls. 4 er talað um að eftir því sem næst verði komist séu þeir hópar sem tilheyra svonefndum heilbrigðisstéttum um 20 talsins. Síðan segir:

„Ekki hafa allir þessir 20 hópar lögvarin réttindi þótt þar hafi mikið áunnist á undanförnum árum.“ — Ef ég má vitna, með leyfi forseta, í örfáar línur: „Vitanlega gilda um þessa hópa lög um opinbera starfsmenn, réttindi þeirra og skyldur, sé slíku til að dreifa, jafnframt því sem þeir falla undir almenn hegningarlög vegna starfa sinna. Þannig eru þeir á engan hátt leystir undan skyldum þótt engin sérlög gildi um þá.“ — Svo segir: „Það eru því framar öllu réttindi og lögverndun starfsheitis sem suma hópana skortir.“

Félag ísl. læknaritara er aðili að samtökum heilbrigðisstétta, en félagar í þeim hafa nær allir löggildingu nema trúlega þessir umræddu fjórir hópar. Ég vildi því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. hverjar séu hugmyndir rn. um löggildingu. Nú er komin læknaritarabraut í fjölbrautaskóla landsins. Sumir læknaritarar hafa gengið í háskóla og eru með réttindi þaðan. Sjálfir hafa þeir reyndar sent rn. starfslýsingu, sem ég ætla tímans vegna ekki að lesa, en hef hana hér ef einhver óskar eftir að sjá hana. En ég vildi nota þetta tækifæri, um leið og ég er aðili að flutningi þessa frv., og biðja hæstv. ráðh. að svara því hvað hann hugsar sér með þær stéttir, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni.