25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Í fyrirspurnatíma í Sþ. í fyrradag leyfði hæstv. iðnrh. sér að halda því fram að stjórnarandstöðunni hefði verið gert kleift að fylgjast grannt með, eins og hann orðaði það, gangi samningamála við Alusuisse vegna álbræðslunnar í Straumsvík. Þessari fullyrðingu hæstv. ráðh. mótmælti ég þá þegar héðan úr ræðustól, en vil nú engu að síður taka þetta mál upp aftur og það jafnvel þótt ráðh. hafi ekki endurtekið fullyrðingu sína nú því um stórmál er að ræða.

Samningar við Alusuisse vegna ÍSALs eru ekkert einkamál hæstv. iðnrh. og samninganefndar um stóriðju. Hér er á ferðinni mál sem varðar landsmenn alla, stórir hagsmunir í veði og erfiður samningsaðili annars vegar þar sem Alusuisse er. Það dylst engum viti bornum manni. Þess vegna skiptir öllu að hæstv. ráðh. geri þeim aðilum sem sæti eiga á Alþingi Íslendinga grein fyrir gangi samningaviðræðna hverju sinni og fari hvergi í launkofa með gang þessara mála gagnvart löggjafaraðilum hér á landi.

Því fer hins vegar víðs fjarri að hæstv. iðnrh. hafi gert það og eftir framkomu hæstv. ráðh. í þessu máli að dæma virðist það engum vafa undirorpið hvorn beri að virða meira, Alþingi Íslendinga eða Alusuisse. Hefur Alusuisse þá haft vinninginn hingað til hjá hæstv. ráðh.

Ég vil ekki leggja hér að jöfnu að opinbera málið og gera þingflokkunum grein fyrir því, eins og hæstv. ráðh. virðist gera. Það sem hæstv. ráðh. kallar að leyfa stjórnarandstöðunni að fylgjast með gangi mála er væntanlega fundur sem hann boðaði fulltrúa þingflokka stjórnarandstöðunnar á í iðnrn. þann 20. sept. s.l. Um önnur fundahöld eða samráð við stjórnarandstöðuna hefur ekki verið um að ræða í þessu máli.

Þessi fundur 20. sept. s.l. var vægast sagt nokkuð kúnstugur og frá mínum bæjardyrum séð lítið annað en sýndarmennska af hálfu hæstv. ráðh. Á þessum fundi var fulltrúum stjórnarandstöðunnar fengið í hendur plagg, útbúið af Landsvirkjun og dagsett 18. sept. 1984, um endurskoðun á orkusölusamningi við Alusuisse. Í þessu plaggi var ákaflega fátt sem ekki hafði þegar komið fram opinberlega, annaðhvort fyrir tilstilli hæstv. ráðh. sjálfs eða fyrir tilstilli nm. í samninganefnd um stóriðju. Þrátt fyrir það bað hæstv. ráðh. fulltrúa stjórnarandstöðunnar um að gæta fyllsta trúnaðar um innihald þessa plaggs sem mér finnst í meira lagi kúnstugt miðað við innihaldið. Ástæðuna fyrir því að beðið var um trúnað sagði hæstv. ráðh. vera þá, að Alusuisse vildi halda efnisþáttum samningsins leyndum þar til eftir fund samningsaðila í London 8. og 9. október. Og ekki sá hæstv. ráðh. sér annað fært en að verða við því gagnvart þingflokkunum. Má þessi trúnaðarbinding stórundarleg teljast þar sem, eins og ég hef sagt, í plagginu voru fá leyndarmál. Verður ekki önnur ályktun af þessu máli öllu saman dregin en sú að Alusuisse hafi verið mikið í mun að þagga niður í þeim gagnrýnisröddum sem heyrast kynnu á Íslandi um þetta samkomulag og hafi fengið hæstv. ráðh. til liðs við sig í því efni.

Á fundunum báðu fulltrúar þingflokka stjórnarandstöðunnar ítrekað um að fá að sjá sjálft samkomulagið við Alusuisse og vera trúað fyrir því. Því neitaði hæstv. ráðh. Slíkt væri ekki þorandi vegna Alusuisse, sagði hann. Við vorum m.ö.o. beðin um trúnað án þess að vera trúað. Slíkur dónaskapur og lítilsvirðing við þá sem í hlut áttu er fyrir neðan allar hellur og er hér komið enn eitt dæmið um ólíðanlegan hroka núverandi valdhafa í garð þings og þjóðar. Þessari málsmeðferð mótmæltu vitaskuld þeir fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem fundinn sátu fyrir hönd sinna þingflokka, en ekki virtist það hrífa á hæstv. iðnrh. né hafa orðið honum nokkur sinnaskipti í þessum efnum síðan þar sem 8. og 9. október eru löngu liðnir og enn hefur hæstv. ráðh. ekki séð ástæðu til að kynna fulltrúum þingflokkanna - ég endurtek aftur: þingflokkunum — það samkomulag við Alusuisse sem nú er í burðarliðnum. Þetta kallaði hæstv. ráðh. að láta stjórnarandstöðuna fylgjast grannt með gangi mála.

Eftir þessa málsmeðferð hæstv. ráðh. brá mér heldur betur í brún þegar ég opnaði Dagblaðið Vísir í gær og rakst þar á all greinargóða úttekt á helstu efnisatriðum samkomulagsins við Alusuisse. Þar er að finna haldbetri upplýsingar um þetta samkomulag en nokkur stjórnarandstöðuþingmaður hefur fengið í sínar hendur. Og nú spyr ég: Hversu langt er hægt að ganga í virðingarleysi við Alþingi Íslendinga? Hvernig má það vera að hæstv. ráðh. iðnaðarmála sé stætt á því að sniðganga á þann máta sem ég hef hér lýst þá aðila sem kjörnir eru af þjóðinni til að fjalla um málefni hennar? Ég vænti þess að hæstv. ráðh. geri tilrann til þess að svara þessum spurningum hér á eftir sem ég nú beini til hans.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur í þessari umr. beint til hæstv. ráðh. tólf spurningum sem allar snerta efnisþætti samkomulagsins við Alusuisse að meira eða minna leyti. Þær eru allra góðra gjalda verðar, en eins og hv. þm. hlýtur að vera ljóst er trauðla hægt að ræða af miklu viti um jafn umfangsmikið mál og þetta samkomulag er við þær aðstæður sem utandagskrárumr. býður upp á. Ég vil því aðeins gera fáein atriði hér að umtalsefni.

Hæstv. iðnrh, talar iðulega um að auknar tekjur vegna hærra raforkuverðs til ÍSALs séu hreinar tekjur eða jafnvel gróði. Ég vil taka mönnum vara við þessum talsmáta og benda mönnum á að um engan gróða er að ræða í þessum efnum á meðan við seljum fyrirtækinu orkuna undir kostnaðarverði. Það kostar sitt að framleiða orkuna og um gróða er alls ekki að ræða fyrr en okkur tekst að selja yfir framleiðsluverði, en um slíkt er ekki verið að semja þessa stundina eins og fram hefur komið í svörum hæstv. ráðh.

Í annan stað vil ég benda á þá hættu sem felst í því, og aðrir hafa gert hér á undan mér, að tengja raforkuverð til fyrirtækisins við heimsmarkaðsverð á áli.

Í fyrsta lagi eru horfur í áliðnaði nú slæmar og höfum við sannanir og afleiðingar þess í hlaðvarpanum hjá okkur þar sem álbræðslan í Straumsvík er nú að draga úr framleiðslu sinni af þessum sökum. Á einu ári hefur markaðsverð á áli lækkað úr 1450 Bandaríkjadölum niður í 925 Bandaríkjadali — og hvað er þá verið að semja um við Alusuisse þegar verðið hrapar eins og nú er? Jú, það er verið að semja um að tengja orkuverðið álverðinu sem þýðir það að á meðan álverð fer lækkandi fer orkuverðið líka lækkandi þó að lækkanirnar staðnæmist við 12.5 mill, ef ég skildi orð hæstv. iðnrh. rétt hér áðan.

Í öðru lagi hefur þessi tenging á orkuverði við álverðið í för með sér al3 allar sveiflur í áliðnaði skila sér beint inn í íslenska hagkerfið. Nú spyr ég hv. þm.: Telja menn íslenskt efnahagslíf vera í stakk búið til að taka við slíkum sveiflum ofan á allan þann óstöðugleika sem samkvæmt venju hrjáir okkar viðkvæma hagkerfi? Ég tel það engum vafa undirorpið að svo er ekki.

Þriðja atriðið sem mig langar aðeins til að minnast á er stækkun álversins og bygging Blönduvirkjunar. Í svari hæstv. ráðh. hér áðan kom ekkert það fram sem bendir ótvírætt til þess að það sé þjóðhagslega hagkvæmt fyrir Íslendinga að ráðast í þessa stórvirkjun með samninginn við Alusuisse á bakinu, samning um að selja þeim 80% af orku virkjunarinnar á verði sem er undir kostnaðarverði og hlýtur að vera það á meðan ákvæði þess samkomulags sem hér er verið að fjalla um gilda. Og hvernig á það þá að vera hagkvæmt? Hvernig geta menn borið slíkt og þvílíkt á borð fyrir þing og þjóð? Hvers vegna eigum við að halda áfram að bera taprekstur í orkumálum, eins og þetta gefur allt útlit fyrir, fyrir útlend fyrirtæki og þar að auki fyrirtæki sem jafnt og þétt verða uppvís að svikum í okkar garð, eins og hæstv. ráðh. upplýsti okkur um í fyrradag?

Herra forseti. Hér eru því stór og alvarleg mál á ferðinni og ég geri þá kröfu sem kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga að fá haldbærar upplýsingar um þessi mál. Og ég tek það fram að í því efni duga mér ekki þær upplýsingar sem hingað til hefur verið að hafa héðan úr ræðustól. Ég tek ekki undir það með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að hæstv. ráðh. sé í sjálfsvald sett hvaða upplýsingum hann kemur áleiðis til þingflokkanna. Ég tel þvert á móti að þingflokkarnir eigi heimtingu á fullnægjandi upplýsingum hér um svo sem um önnur mál, ef þeir eiga að gegna þeim skyldum sínum sem kjósendur hafa falið þeim.