27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3925 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svarið og vil minna á að enn eitt bréf frá Félagi ísl. læknaritara liggur í rn. og er því, að ég held, ósvarað enn þá. Það er frá 17. jan. 1984. Ég vil því leita svara við því, ég þarf ekki svar ef það er rétt skilið að ráðh. sé með það erindi í athugun, hvort félagið eigi von á einhverjum svörum við beiðni sinni um löggildingu.

Það er ljóst að með aukinni menntun heilbrigðisstétta hafa kröfur til læknaritara mjög vaxið. Vitaskuld verður það svo í framtíðinni að aðrir verða ekki ráðnir en þeir sem tekið hafa próf í þessari grein frá fjölbrautaskóla, að ég tali nú ekki um þá sem hafa gengið í háskóla til að læra þessa grein. Mér er t. d. kunnugt um að það er fjögurra ára nám í fjölmörgum háskólum, t. d. eru hér starfsmenn sem hafa slíkt próf frá háskólanum í Edinborg. Það líður að því að læknar ráða helst ekki nema þá sem lært hafa til þessara starfa. Ég held að það sé því kominn tími til að veita þessari stétt manna löggildingu. Hafi ég skilið það rétt að ráðh. sé með erindi félagsins frá 17. jan. 1984 í athugun, og það er orðið rúmlega árs gamalt bréf, sætti ég mig við það svar í bili, en óska eftir frekari skýringu ef ráðh. telur að ekki sé ástæða til að sinna því.