27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3929 í B-deild Alþingistíðinda. (3265)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það var skrýtin þula sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði hér yfir. Hv. þm. lítur svo á að nemendur framhaldsskólanna muni ekki um einn daginn enn eftir þriggja vikna hlé á kennslu. Ég lít svo á — og það munu margir nemendur gera — að það muni mikið um hvern dag sem bætist við það langa hlé sem orðið hefur á kennslu. Það er rétt að það liggi fyrir strax að ég tel algjörlega óframbærilegt að rn. gefi fyrirmæli um að fella niður kennslu einn dag í viðbót í framhaldsskólum landsins. Að því er þetta mál varðar þá er hér alls ekki verið að fjalla um málefnið sjálft heldur tímann sem framhaldsskólanemar hafa til ráðstöfunar.

Ég vil víkja að nokkrum atriðum sem hv. þm. nefndi. Hv. þm. sagði sem rétt er að málið hefði verið kynnt rn. með bréfi í september. Það var upplýsingabréf og ekki minnst einu orði á hlé á kennslu eða frí í skólum í sambandi við þetta verkefni. Enginn í rn. sá nokkurn skapaðan hlut við þetta að athuga. Svo var það fyrir (Gripið fram í.) Eins og hv. þm. kannske veit mjög vel af sérstökum ástæðum er starfandi á vegum rn. nefnd vegna alþjóðaárs æskunnar. Þetta verkefni er ekki á hennar verkefnaskrá. En þar eru hins vegar mörg verkefni, sem ekki eru á þeirri verkefnaskrá, þótt áhugaverð séu, en sem rn. tekur sem slíkt ekki þátt í. Enda mætti það æra óstöðugan að ríkið væri með fingurinn í öllum þeim verkefnum sem félagasamtök taka upp á á þessu ári — sem og öðrum árum. Hins vegar er mjög gott að fylgjast með þessu og öðrum ágætum verkefnum. Það hefur aldrei verið tekin nein afstaða nema jákvæð gagnvart verkefninu sjálfu. Hitt er annað mál að það er tíminn, sem ætlaður var til þess, sem olli því að rn. gat ekki samþykkt þetta.

Það kom fyrst til vitundar rn. í febrúarmánuði að farið væri fram á að skóladegi í öllum framhaldsskólunum væri varið í þetta verkefni. Síðari hluta febrúarmánaðar og í byrjun mars var rætt við okkur og um það rætt að þetta skyldi fara fram 21. mars. Þá höfðu verið boðaðar aðgerðir sem leitt gátu til vinnustöðvunar kennara í framhaldsskólum og enginn vissi hve lengi þær stæðu. Á meðan það var óljóst var vitanlega gjörsamlega ómögulegt að ákveða þátttöku í slíku verkefni með þeim hætti sem þar var farið fram á á ákveðnum degi marsmánaðar. Það hlýtur mönnum að vera ljóst. Ég er ansi hrædd um að það hefði mörgum þótt skjóta skökku við, þegar kennslan lá að mestu leyti niðri í flestum framhaldsskólanna, að þá hefði menntmrn. tilkynnt að nú væri frí í skólanum einn dag.

Þar eð hv. fyrirspyrjandi telur að nemendur muni ekki um einn dag í viðbót — (Gripið fram í.) Hv. fyrirspyrjandi sagðist telja að nemendur mundu ekki sjá eftir þessum degi í þetta verkefni og þeim mundi jafnvel ganga betur, að mér skildist, í þeim verkefnum sem eftir væru. Það má vel vera, en fyrirmæli um slíkt gefur rn. ekki.

En ég spyr í þessu sambandi: Var e. t. v. hægt að verja einhverjum af þeim krónum, sem til undirbúnings voru í þessu sambandi, til þess að auglýsa þetta fyrir framhaldsskólanemendum landsins með auglýsingu frá þeim sem að verkefninu stóðu? Það hefði verið afskaplega vel hægt að láta 21. mars standa sem framkvæmdadag í þessu sambandi. Ég vissi satt að segja ekki betur en að verkefnið hefði verið unnið þá. Það kom mér og okkur í menntmrn. algjörlega í opna skjöldu þegar við heyrðum af tilviljun um annan dag í þessu sambandi. Það liggur ljóst fyrir að eftir allar þær þrengingar, sem í fjölmiðlum á sunnudaginn að nú væri búið að ákveða dag í þessari viku í þessu skyni. Ég spurðist fyrir um þetta í rn. og mér var tjáð að þetta mundi hafa verið gert vegna þess að skólahald lá niðri 21. mars en þann dag notuðu öll önnur Norðurlönd fyrir þetta verkefni. Það liggur auðvitað fyrir eftir allar þær þrengingar, sem nemendur hafa átt í og þá sálarkvöl, vil ég segja, sem þeir hafa búið við þennan tíma sem öll óvissan var um framhald kennslu í skólunum, er gjörsamlega óverjandi að fara að gefa fyrirmæli um það að kennsla skuli falla niður einn dag enn. Það eru mörg verkefni góð og gild og margir vilja fá dag úr skólunum til að verja til tiltekinna verkefna. Það er þetta sem málið snýst um í mínum huga.

Hitt er svo allt annað mál að það, hvort einstakir nemendur fá leyfi úr skólanum til þess að sinna einhverjum erindum dag og dag eða tíma og tíma, er mál sem skólastjórarnir og nemendurnir semja um sín á milli og hefur alla tíð verið svo. Það eru þeir sem fylgjast með fjarvistum nemenda og það hefur alla tíð verið svo. En fyrirmæli úr rn. verða þetta ekki, það er alveg ljóst. Í því felst ekki neinn dómur gegn þessu verkefni, síður en svo. Það er einungis það að ég stend við það sem ég hef áður sagt, að ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til að skólahald geti gengið með eðlilegum hætti það sem eftir er skólaársins og tel mig ekki standa við það ef ég fer að gefa fyrirmæli um það að nú skuli kennsludegi varið til annars en fræðslu og náms þess sem menn eiga að hafa á sínum stundaskrám til þess að þeir geti lokið sínu námi í vor.

Hv. þm. sagði að ekki hefði verið veitt viðtal um þetta efni í menntmrn. Það er alls ekki rétt. Starfsmaður Hjálparstofnunar kirkjunnar ræddi við mig um þetta verkefni, kynnti mér það og ég svaraði honum því að ómögulegt væri að samþykkja á því stigi að 21. mars yrði tekinn til þessa verkefnis vegna þess að við vissum ekki hvernig skólahaldi yrði háttað á þeim tíma. Það liggur fyrir nú að bæði þessi starfsmaður svo og einhverjir af forsvarsmönnum verkefnisins, þ. e. frá Iðnnemasambandinu fyrst og fremst svo og Landssambandi fjölbrautaskólanema sem auk Hjálparstofnunar kirkjunnar hafa verið þátttakendur í þessu af Íslands hálfu, hafa allir átt viðtöl við aðstoðarmann ráðh., Ingu Jónu Þórðardóttur. Ég veit ekki til að hafi verið nein tregða á því. Málið liggur alveg skýrt fyrir.

En um annað mætti spyrja sem menn færa fram sem rök í þessu máli. Hér hefur verið eytt 700 þús. kr. í kynningu, sem þó hefur ekki verið varið til þess að auglýsa t. d. í síðustu viku til þess að þeir framhaldsskólanemendur, sem fengu ekki kennslu í skólum sínum, hefðu getað tekið þátt í einhverju slíku verkefni. Þessum peningum var ekki varið til þess. 700 þúsundir eru u. þ. b. álíka mikið eins og nefnd alþjóðaárs æskunnar fær til síns verkefnis í ár. Sú nefnd er búin að gera mjög mikið. Hún hefur mjög gert vart við sig. Hún hefur eytt 200 þúsundum í allt það sem hún er búin að gera. Það er eðlilegt að spurningar vakni um þetta: Hvers vegna voru þessir peningar ekki notaðir til að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi og átti að safna peningum fyrir þennan dag? Auðvitað vakna slíkar spurningar.

Ég ítreka það að rök rn. eru þau að kennsla hefur legið niðri hjá miklum fjölda framhaldsskólanema í þrjár vikur. Einn dagur enn er of mikið. Þess vegna gefur rn. ekki fyrirmæli um slíkt. Um fjarvistir einstakra nemenda gilda samningar nemenda og skólastjóra hér eftir eins og hingað til, vænti ég.