27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3931 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorð. Mér finnst að það verði að líta á málavöxtu nánar áður en svo afgerandi afstaða er tekin eins og gert hefur verið af hæstv. menntmrh. Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess, eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms Sigfússonar, að menntun fer ekki fram í skólunum eingöngu. Hún fer ekki síður fram með þátttöku í ýmiss konar starfi og verkefnum utan skóla. Og það verkefni sem hér er til umræðu er samnorrænt framtak, ætlað til þess að vekja ungt fólk og aðra til meðvitundar um skyldur sínar og möguleika til að hafa áhrif á hlutskipti þriðja heimsins. Eðli þessarar framkvæmdar er því margþætt. Hún miðar að því að tengja saman æskufólk á Norðurlöndum, hún miðar enn fremur að því að auka skilning þess á högum annarra, eyða kynþáttafordómum og taka á sig einhverja ábyrgð til að bæta hag annarra sem minna mega sín, í þessu tilviki úr bráðum menntunarskorti. Og hann er mun meiri en íslenskra barna. Slíkt verður varla gert betur en með persónulegri þátttöku nemenda.

Undanfarna mánuði höfum við Íslendingar safnað milljónum króna til neyðarhjálpar vegna hungursneyðar í Eþíópíu. Í sambandi við þá söfnun kom fram í umræðum að það væri ekki síður mikilvægt að verja fé og starfskröftum til að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Þetta þykir mun affarasælli þróunarhjálp þegar til lengdar lætur, þó að aldrei verði komist hjá því reyndar að bregðast við ófyrirséðum hörmungum eða neyð. Í þessu verkefni er verið að safna fé til að vekja athygli á málefnum meiri hluta barna í Suður-Afríku, sem reyndar deyja nú, helmingur þeirra, áður en þau ná fimm ára aldri. En þau sem eftir lifa verða síðan fórnarlömb þess óréttlætis og ójöfnunar sem er sorg Suður-Afríku. Allar þessar ástæður og málavexti finnst mér að þurfi að taka til athugunar þegar verið er að dæma um nauðsyn.

Þeir peningar sem safnast munu á þessum verkefnisdegi sem áætlaður er munu því renna til þróunar menntamála meðal svartra barna í Suður-Afríku, og þetta hlýtur hæstv. menntmrh. að meta að verðleikum. Íslensk börn hafa sannarlega misst nokkurn tíma eins og hún segir af námsvetri sínum vegna nýafstaðinna verkfalla. En þó tel ég þau ekki það illa stödd að hæstv. menntmrh. geti ekki veitt þeim nemendum leyfi sem vilja taka þátt í því verkefni sem norræn æska hefur tekið að sér. E. t. v. eru unglingarnir sjálfir dómbærastir á það hvort þeir geta misst einn dag eða ekki. Og mér er ómögulegt að skilja hvers vegna mátti ekki gefa leyfi frá skólanum þegar flestir skólar voru í fríi, ég skil ekki þau rök menntmrn.

Og að lokum: Hvernig eiga menn að læra umburðarlyndi og skilning á högum annarra ef þeir mega ekki beita sér í slíkum efnum?