28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3943 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

199. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál., um sparnað í fjármálakerfinu, er dálítið sérstæð, a. m. k. að einu leyti, því að svo til samhljóða till. var flutt fyrir meira en sjö árum hér á hinu háa Alþingi. Henni fylgdi þá stutt grg. Þó að mér finnist það ekki góð latína að lesa mikið upp úr þskj. eða yfirleitt að teygja þskj. óþarflega vona ég að mér leyfist að lesa grg. till. eins og hún er nú, með leyfi forseta, en hún er svohljóðandi:

Þáltill. þessi var flutt á 99. löggjafarþinginu 1977 og nú endurflutt óbreytt, nema í stað hækkunar um tíunda hluta komi fimmta hluta. Till. fylgdi þá svohljóðandi grg.:

„Alþjóð er ljóst að nú er þörf aðhaldsaðgerða í fjármálum. Sú kaldhæðnislega staðreynd blasir þó við að fjármálastofnanir hafa þanist einna mest út allra ríkisfyrirtækja á sama tíma sem sparifjármyndun minnkar. Leiðir hér sem oftar óstjórn af ofstjórn. Við þetta verður ekki unað.

Tillögumönnum er ljóst að meðal stjórnenda bankamála eru ýmsir hæfileikamestu menn þessarar þjóðar. Flutningur þessa máls er ekki aðför að þeim heldur liðveisla við þá, enda engum ljósara en þeim hvar skórinn kreppir. Þó bendir flest til þess að aðgerðir á borð við þær, sem hér er lagt til að ríkisstj. hafi forustu um, séu nauðsynlegar ef úr úlfakreppunni á að brjótast.

Eftirspurn lánsfjár er ótakmörkuð við ríkjandi lánskjör. Bankar hafa einn og sama verðmæli, óraunhæfan verðmæli. Samkeppni þeirra verður því um það eitt að ná til sín stærri hlutdeild sparifjárins. Herkostnaðurinn í stríðinu við að afla auranna vex, verðmætaaukning er engin, en kostnaðaraukning mikil. Hagur viðskiptamanna versnar við þá andhverfu heilbrigðrar samkeppni sem hér er á ferðinni og aðstaða skömmtunarstjóra nútímans er ekki aðlaðandi.

Sjóðakerfið og hagstjórnarbáknið í heild þarf líka að taka til gagngerðrar endurskoðunar, enda enginn efi á því að þann frumskóg má grisja, engum til meins en öllum til góðs. Þessi aðgerð þyrfti að spanna allt sviðið, frá Þjóðhagsstofnun til minnsta sjóðsins.

Játa skal að hægara er hér um að tala en í að komast. Tilraunina ber þó að gera. Kannske ber hún takmarkaðan árangur — þá er að taka því. En enginn héraðsbrestur yrði þótt markmiðunum, sem till. miðar að, yrði að fullu náð.“

Greinargerð þessi stenst í nær öllu enn í dag. Þó má segja að í stað óraunhæfs verðmælis hafi komið síharðnandi skömmtunarstjórn í peningamálum sem bitnar á atvinnuvegunum og heimilum.“

Þegar þessi till. var flutt fyrir meira en sjö árum fékk hún mjög litlar undirtektir, dagaði uppi. Mönnum þótti þetta kannske óþarfa afskiptasemi Alþingis af bankastofnunum og fjármálastofnunum yfirleitt og jafnvel að það væri ósiðlegt að Alþingi væri að skipta sér af slíkum hlutum. Þá var lagt til að reynt yrði að fækka útibúum og afgreiðslustöðvum bankanna eða að stemma stigu við að þeim fjölgaði mjög. Lagt var til að tilraun yrði gerð til að fækka einnig starfsfólki um allt að 1/10 hluta.

Nú leggjum við flm. hins vegar til að markið verði sett hærra, enda full ástæða til, eins og ég kem að svolítið síðar, og að fækkað verði um allt að 1/5 í fjármálastofnunum.

Ég ætla, með leyfi forseta, að víkja hér að viðtali í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar segir í fyrirsögn: „Jónas Haralz formaður Sambands ísl. viðskiptabanka segir: Íslenskir bankar nokkuð á eftir í tækniþróun. Segir engan vafa á að bankarnir gefi komist af með færra starfsfólk.“ Og fréttin er svohljóðandi:

„„Íslenskir bankar eru nokkuð á eftir í tækniþróun, en á því sviði er ýmislegt í undirbúningi hjá bönkunum sem mun hafa áhrif á næstunni,“ sagði Jónas Haralz í samtali við Morgunblaðið er hann var spurður hvað hann vildi segja um þá staðreynd að starfsmönnum banka og sparisjóða hefur fjölgað um 217.9% frá árinu 1963 til ársins 1983 eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Fjöldi mannára í bönkum árið 1963 var 1400, en 20 árum síðar, 1983, var fjöldi mannára í bönkum 4450.

Tilefni þess að Jónas var spurður er að hann er formaður Sambands íslenskra viðskiptabanka. Jónas sagði að þau tæknilegu umsvif bankanna, sem í undirbúningi væru, mundu koma í veg fyrir að starfsmönnum bankanna héldi áfram að fjölga eins mikið og verið hefur. Hann taldi ekki að ný tækni bankanna mundi beinlínis fækka starfsmönnum, en sagðist þó ekki telja nokkurn vafa á því að hægt væri að komast af með færra starfsfólk í bönkum. En á það bæri einnig að líta að þannig háttaði til í öllum greinum íslensks atvinnulífs.“

Ég er ekki með á takteinum hve mikil fjölgunin í bönkunum hefur orðið á þeim rúmu sjö árum sem liðin eru síðan till. var upphaflega flutt, en drjúgur hluti þessarar fjölgunar, sem um er rætt í viðtalinu við Jónas Haralz, er einmitt tilkomin á þeim tíma sem liðinn er síðan Alþingi — ja, mér liggur við að segja vanrækti að samþykkja þessa till., sem við hv. þm. Pétur Sigurðsson þá fluttum og flytjum enn, eða þá að gera einhverjar aðrar ráðstafanir til að hafa hemil á vexti þessara öflugu ríkisstofnana skulum við segja.

Á þessum tíma hefur peningamagnsstefnan svokallaða eða monetarisminn grasserað, svo ekki sé notað virðulegt orð, enda á það varla við um þá kenningu að nota virðulegt orð, þar sem peningar hafa verið frystir og lokaðir inni á meðan vextir hafa hækkað. Það er auðvitað skiljanlegt hverjum manni að þegar um frjálsa vexti er að ræða getur það alls ekki samrýmst því að loka peningana líka inni. Það verður að vera eitthvert framboð á fjármagni ef vextir eiga að geta verið eðlilegir við frjálsræði því þeir hljóta að sjálfsögðu að æða upp úr öllu valdi ef allir peningar eru lokaðir inni. Þessari kenningu og þessari stefnu hefur verið reynt að koma á víða í hinum vestrænu löndum og auðvitað mistekist þar meira og minna því að bankar þar eru yfirleitt einkabankar og öflugir fjármagnsmarkaðir og þeir hafa þess vegna ekki hlítt þessari vitleysiskenningu neins staðar nema hér þar sem Ólafslög hafa verið sett t. d. sem hvergi hefur þekkst annars staðar í lýðfrjálsu ríki. Mér er ekki kunnugt um að nokkur hagfræðingur utan þessa lands styðji þessa kenningu lengur, enda hét hún kreppukenning og var meginorsök þess að vestrænar þjóðir lifðu við kreppu sem að vísu var kölluð olíukreppa en auðvitað heimatilbúin kreppa.

Peningar eru ekkert annað en ávísanir á verðmæti. Þess vegna verður að vera framboð á peningum. Það verður einhver að geta gefið út þessar ávísanir á verðmæti. Sparifé hefur á síðustu tíu árum minnkað úr 40% þjóðartekna — var komið niður í 23% ef ég man rétt, það er sagt að vísu að það hafi aukist eitthvað aftur, en þá kemur nú raunar á daginn að um helmingur þessa svokallaða íslenska sparifjár er erlent fé sem lánað er út af viðskiptabönkunum og alls ekki íslenskur sparnaður. Á þeim tíma þegar þjóðarhagur hefði átt að vera bestur, þegar framleiðslan var mest og auðæfasköpunin, var einmitt dengt yfir þjóðina nýjum og nýjum lánum og skuldum og sú skynsamlega kenning eða hitt þó heldur var sett fram að erlendar skuldir mættu ekki vera nema ákveðin prósenta af þjóðartekjum viðkomandi árs. Ef illa áraði og þjóðartekjur drægjust saman áttu menn að borga, og það hefur átt að gera það núna seinustu árin, en þegar þjóðartekjur æddu upp úr öllu valdi ætti líka að bæta erlendum lánum ofan á. Það er álíka gáfulegt og monetarisminn er raunar í heild.

En samhliða því sem þessi sparnaður færi fram í kerfinu þarf auðvitað að vera frjálsræði í peningaviðskiptum, andstæða þess sem verið hefur. Við skulum bara láta reynsluna sjálfa tala. Það vita allir hvernig komið er í peningamálum. Og enn þá eru bankar að þenja út sína starfsemi.

Ég trúi varla öðru en að þetta þing, núna þegar komið er talsvert á áttunda ár síðan till. var upphaflega flutt, muni afgreiða þessa till. Ég skora a. m. k. á þá hv. n. sem málið fær til umfjöllunar, sem væntanlega er hv. allshn., ég legg það til, að afgreiða málið fljótt og vel. Það þarf engrar athugunar við. Staðreyndirnar eru á borðinu. Bankastarfsemin þenst út á meðan sparifé minnkar, og bæði einstaklingar og atvinnufyrirtæki eru í miklum vanda vegna þess að ekki er eðlilegt framboð sparifjár þannig að menn eru jafnvel að missa eigur sínar, þó að þær séu miklu meira virði en þær skuldir sem þeir kunna að þurfa að bera, og geta hvergi fengið minni háttar lán, og síst þeir sem minnst eiga undir sér geta fengið minni háttar lán til þess að bjarga sér úr erfiðleikum. Ég endurtek áskorun mína til hv. alþm. að afgreiða þetta mál.