28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það gerist við og við hér á Alþingi að hv. þm. Sjálfstfl. flytja tillögur um að efla markaðsstarfsemi fyrir útflutningsgreinar. Fyrir nokkrum árum fluttu þm. Sjálfstfl. till. um stofnun sérstaks úfflutningsráðs sem átti að stuðla að miklu átaki á þessu sviði. Enn á ný er á ferðinni till. sem flutt er af þm. Sjálfstfl. til að sýna mikinn áhuga þeirra á þessu sviði. Það merkilega er að Sjálfstfl. hefur lítið sem ekkert gert til að stuðla að því að eitthvað sé framkvæmt af slíkum hugmyndum.

Það eru u. þ. b. tíu ár síðan ég vann skýrslu fyrir þáv. utanrrh. Einar Ágústsson þar sem gerð var mjög ítarleg úttekt á markaðsstarfsemi sendiráða Íslands og utanríkisþjónustunnar og borið saman við hliðstæða starfsemi í nágrannalöndum okkar. Í þessari skýrslu var að finna ýmsar tillögur um hvernig mætti efla starfsemi á sviði útflutnings. Þegar skýrslunni var skilað var við völd ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Skýrslan mun hafa verið lögð fram í þáv. utanrmn. þar sem sat hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, fulltrúi Sjálfstfl. (GHG: Mjög góð skýrsla.) Hv. þm. segir nú að þetta hafi verið mjög góð skýrsla. Ég get alveg fallist á það. Þetta var mjög góð skýrsla. En það var ekkert gert með hana. Það var farið með hana nánast eins og leyniplagg í stjórnkerfinu. Hún var ekki til, að ég held, nema í þremur eða fjórum eintökum. — Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson upplýsir nú að hann hafi tekið að sér að fela eitt þeirra því að það liggi enn þá hjá honum. Þá eru aðeins þrjú eftir.

Engin umræða varð um þessa skýrslu, mér vitanlega, neins staðar þar sem mark var á takandi. Það var ekkert gert til að kynna þessar hugmyndir eða knýja á um það að sú mikla vinna, sem lögð var í að gera þessa úttekt, yrði til þess að menn reyndu að vega og meta hvort fara ætti einhverja nýja leið. Kannske hefur það stafað af því að höfundur skýrslunnar var ekki sérlega vinsæll á framsóknarbænum um þær mundir. Það má vel vera. Er þá leitt að brölt mitt í Framsfl. á sínum tíma skuli hafa orðið til þess að menn misstu áhuga á að efla íslenskan útflutningsiðnað. Engu að síður er það staðreynd að þetta var einhver ítarlegasta úttekt sem ráðh. hafði falið manni að gera varðandi breytingar á útflutningskerfi okkar. Ég lagði í þetta mjög mikla vinnu. Það voru margir mánuðir sem ég eyddi í þessa vinnu. Mér fannst það mjög merkileg reynsla að sjá síðan og reyna hvað menn höfðu lítinn áhuga á þessu máli.

Það eina sem hefur sést er að þm. Sjálfstfl., að mig minnir á árunum 1978–1979, þó má vera að það hafi verið aðeins síðar, fluttu hér þáltill., sem Lárus Jónsson, að mig minnir, var 1. flm. að, um að gerð yrði ítarleg athugun á að stofna slíkt útflutningsráð og útflutningsstofnun sem ég hafði lýst í skýrslunni með hvaða hætti mætti starfa. Það var hins vegar merkilegt að með þessa tillögu var heldur ekkert gert. Henni var ekki fylgt eftir. Hún hefur líka legið í salti. Nú hefur Sjálfstfl. farið með viðskrn. og utanrrn. í u. þ. b. tvö ár og utanrrh. hefur verið duglegur við að brydda upp á ýmsum nýjungum á sviði vígbúnaðar, en það hefur ekki heyrst um neinar nýjungar á sviði markaðsöflunar og markaðsstarfsemi þangað til þessi till. kemur hér um átak í menntun.

Ég skal ekkert draga úr því að nauðsynlegt sé að menntakerfið á Íslandi sinni sérþekkingu á sviði útflutningsgreina meira en það hefur gert. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess. Ég held einfaldlega að það sé hins vegar verið að byrja á röngum stað ef menn halda að vandinn liggi núna fyrst og fremst í menntakerfinu. Það er nú þegar til í landinu stór hópur af fólki sem hefur hlotið menntun á sviði viðskiptafræða, alþjóðlegra samskipta, hefur starfað í viðskiptalífi og hjá sölusamtökum og hefur nú þegar alla þá menntun og reynslu sem hægt er að öðlast hér á landi til að sinna þessu verkefni. Það sem hefur hins vegar algerlega skort á er að hvorki stjórnvöld né stóru fyrirtækin í útflutningsstarfsemi í landinu, t. d. Samband ísl. samvinnufélaga, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Flugleiðir og Eimskipafélag Íslands, svo að ég nefni nokkra stóra aðila, hafa haft mikinn áhuga á að skapa möguleika fyrir ungt fólk úr viðskiptalífi eða úr menntakerfinu, sem lokið hefur námi í þessum greinum, til þess að öðlast þá þekkingu af markaðsstarfsemi erlendis sem kæmi því að notum. Það er nú einu sinni þannig að hvað sem menn sitja lengi á skólabekk hér á Íslandi, hvað sem menn dunda mikið í viðskiptalífinu hér heima, þá er það ekki fyrr en menn eru sendir út á markaðina erlendis og eru knúnir til að heyja baráttuna við fyrirtæki sem þar starfa og þann flókna og harða samkeppnisheim sem þar er sem menn öðlast þá skólun og reynslu og þekkingu sem dugir til þess að brjóta sér á nýjum mörkuðum braut.

Meginvandi okkar Íslendinga er að mínum dómi sá að við höfum ekki skapað ungu fólki, sem er búið að vera í menntakerfinu og búið að starfa í atvinnulífinu einhvern tíma, tækifæri til að fara út á hina erlendu markaði og öðlast þar þá reynslu og þekkingu sem þörf er á. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Annaðhvort verða stjórnvöld með einhverjum skýrum og ákveðnum aðgerðum að gera það sjálf eða þá knýja stóru aðilana í íslenskri útflutningsstarfsemi til að taka upp gerbreytt vinnubrögð í þessum efnum. Með allri virðingu fyrir þessari till. þýðir ósköp lítið að flytja slíka till. á Alþingi fyrr en svo er komið. Þær eru ágætar út af fyrir sig, en þær skipta mjög litlu máli. Það er búið að mennta fullt af fólki, svo hundruðum skiptir — (Gripið fram í: Er þetta ekki fullmikil uppgjöf hjá þm.?) Nei, það er raunsæi vegna þess að ég hef þurft að horfa upp á þetta og glíma við þetta og hef skoðað þetta á undanförnum árum. Ég er eingöngu að láta í ljós niðurstöðu mína af þeirri athugun.

Vandamálið er ekki skortur á menntuðu fólki hér heima á sviði íslenskrar útflutningsstarfsemi. Vandamálið er að fólk hefur ekki fengið tækifæri til að mennta sig í heimi reynslunnar erlendis, í hita samkeppninnar á mörkuðunum við að koma vörunum á framfæri við kaupendur og neytendur þar. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Sölusamtökin hér heima og stóru fyrirtækin hafa verið allt of lokuð fyrir þessari starfsemi. Þau hafa ekki opnað dyr sínar fyrir ungu fólki og boðið því að öðlast þessa reynslu. Þetta hafa verið lokaðir hringir sem hafa meira og minna sótt í það að vernda sinn sess, koma í veg fyrir samkeppni frá öðrum aðilum og beita jafnvel ítökum sínum í stjórnkerfinu og rn. til að útiloka ungt fólk eða nýja aðila frá því að koma inn á þessa markaði. Það er þessi einokunar- og útilokunartilhneiging stóru útflutningsaðilanna á Íslandi, samfara áhugaleysi þeirra og stjórnvalda á því að skapa ungu fólki tækifæri til að spreyta sig á mörkuðunum, sem er meginvandamál okkar í þessu efni.

Hvert fer stór hópur þeirra, sem útskrifast hafa úr viðskiptafræðideild Háskóla Íslands eða sem komið hafa hingað til lands eftir að hafa menntað sig erlendis á sviði alþjóðlegra samskipta, viðskiptalífs og hagfræði, í leit að störfum? Jú, til hins opinbera. Þeir fara í Seðlabankann, þeir fara í rn., þeir fara í Þjóðhagsstofnun, þeir fara til hagsmunasamtakanna, á kontórana þar. (Gripið fram í: Og ná sér í umboð.) Já, og svo ná þeir sér sumir í umboð, það er alveg rétt og fara að flytja inn af því að það er opið. En SH og SÍS og aðrir sjá um að hafa hitt lokað. (GHG: Skelfing er að heyra þetta, Ólafur.) Já, ég gæti vel trúað því að hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni þyki skelfilegt að heyra þetta. En á sumum sviðum deilir hann geði og stefnumálum með vinum sínum þarna við Sölvhólsgötuna.

Þetta er stóra vandamálið. Það eru fjölmörg dæmi af vel menntuðum mönnum, mönnum meira að segja sem ég gæti nefnt hér úr ræðustóli, með doktorspróf í viðskiptafræðum og hagvísindum — (Gripið fram í: Það er nú ekki allt fengið með því.) Nei, ég var ekki búinn með setninguna heldur. — sem höfðu starfað í viðskiptalífi hér heima, rekið fyrirtæki og höfðu mikla möguleika á því að efla ný útflutningstækifæri og gátu sýnt það. En þeir urðu að hrökklast úr landi vegna þess að það var lokað á þá. Hverjir lokuðu á þá? Það voru stjórnvöld sem sátu hér í tíð Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl.

Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir allt þetta tal um frjálshyggjuna hefur henni ekki verið komið á þar sem mest nauðsyn er þó að koma henni á, en það er í útflutningsstarfseminni að mínum dómi. Þar er þetta allt saman kyrfilega læst. Við sem höfum verið að prédika hér á undanförnum árum að það yrði að slíta sundur þessa einokun stóru aðilanna — eða drottnun ef menn eru feimnir við að nefna einokun þessara stóru aðila á þessu sviði — höfum talað fyrir daufum eyrum. Öll frjálshyggjuáherslan hefur verið á innflutninginn eða hefur verið lögð á alls konar smámuni innanlands. T. d. er hafinn óskaplegur söngur um frjálst útvarp eins og það breyti einhverju til eða frá í þessum málum. En þegar komið er að útflutningsgreinunum og öflun nýrra markaða og möguleikum nýs fólks til þess áð sækja inn á þau svið sameinast allt þetta lið um að segja: Lok, lok og læs og allt í stáli. — Það væri vissulega æskilegt ef þeir, sem nú ráða málum í Sjálfstfl. og einstakir þm. Sjálfstfl. hér, sýndu raunverulegan áhuga sinn á því að efla markaðsstarfsemi Íslendinga erlendis með því að breyta þessu kerfi, sem við búum núna við, í stað þess að vera alltaf að söngla um þessa frjálshyggju varðandi vextina, bankakerfið, útvarpið og allt þetta. Það breytir hvort sem er engu til eða frá og er kannske oftast frekar til hins verra.

Hvernig væri ef við færum t. d. að rifta sumu af því sem Sambandið gín yfir á þessu sviði? Hvernig væri t. d. ef við færum að skoða löggjöf erlendis um bann gegn einokun og hringastarfsemi? Hvernig færi ef við settum ný lög sem opnuðu fólki möguleika til að sækja inn á markaðina? Hvernig færi ef við færum að skoða neitanir viðskrn. við leyfum til nýrra aðila til að flytja út? Hvernig væri að þingið t. d. aflaði sér upplýsinga um hvernig viðskrn. hefur beitt þessu valdi sínu á undanförnum 10–20 árum? Þá held ég að við gætum farið að ræða á raunsæjan hátt hvernig við nú þegar og á næstu misserum gætum opnað fyrir nýja möguleika í íslenskri útflutningsstarfsemi vegna þess að það þarf að gera.

Það er margt gott um SH. Það er margt gott um Sambandið. Ég skal ekkert draga úr því. En það þarf meira til og það á ekki að vera að leggja sífellt steina í götu annarra aðila. SH og Sambandið eiga ekkert að vera hrædd við að hleypa öðrum inn. Kenningin um að þau þurfi að hafa þessa stöðu til að koma í veg fyrir að samkeppni dragi úr sölumöguleikum Íslendinga er að mínum dómi úrelt. Það má vel vera að hún hafi átt við hér einhvern tíma áður fyrr en hún á ekki við í dag.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er þessi till. svo sem ágæt út af fyrir sig. En það er hins vegar sú hætta fólgin í flutningi hennar að hún gefi til kynna að menn telji að vandamálið varðandi nýsköpun í íslenskum útflutningsgreinum sé að finna í framhaldsskólunum og æðri skólunum hér innanlands og þeirri menntastarfsemi sem nú þegar fer hér fram. Vissulega má bæta hana, vissulega má gera margt nýtt á því sviði. Ég skal ekkert draga úr því. En ef menn vilja fara að taka til hendinni í þessum málum á að byrja annars staðar.

Það á að byrja á að veita fólki, sem nú þegar hefur menntunina, þekkinguna, og nú þegar hefur fengið vissa reynslu, tækifæri til að spreyta sig á hinum erlendu mörkuðum. Það á að gera á tvennan hátt: með því að ríkið og stóru útflutningsaðilarnir séu skyldaðir til að taka þetta fólk tímabundið í hálft ár eða eitt ár og opna því möguleika til að vera erlendis, fá þar reynslu af að afla markaða. Síðan, þegar það er búið að fá þá reynslu, á að gefa því tækifæri til að stofna ný fyrirtæki ef það kýs til að koma þessum málum betur áfram og spreyta sig. Ef það vill hins vegar starfa innan þeirra fyrirtækja sem nú þegar eru er það ágætt líka.

Þetta er stóri vandinn í dag. Þetta er búinn að vera stóri vandinn hérna í hátt á annan áratug. Það er merkilegt að þrátt fyrir allt talið um nauðsyn á að afla nýrra markaða hefur verið mjög takmarkaður áhugi á, ef ekki beinlínis andstaða við, að opna nýjum aðilum raunhæfar leiðir á þessu sviði.