28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3959 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. ágætar umr. um þetta mál og innlegg, sérstaklega þeim sem hafa lagt áherslu á hversu hér er brýnt mál á ferðinni. Þrátt fyrir ágætt innskot hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar í málið hefur það valdið mér vonbrigðum að mér finnst það vera höfuðmarkmið hans í þessari umr. að tortryggja málið, segja það óþarft og jafnvel ónýtt fyrir fram. Það þykir mér slæmt að heyra hjá manni sem er hagvanur á alþjóðavettvangi. Ég hefði ætlast til meira þreks í þeim efnum.

Hv. þm. vék að till. sjálfstæðismanna í þessum málum í gegnum tíðina. Ekki ætla ég að ræða þau ítarlega hér þótt þeim megi finna stað við hvert fótmál íslensku þjóðarinnar í þessum málum. Nærtækast er að benda á dæmi sem ég nefndi í ræðu minni, þ. e. ákveðna þætti sem viðskrh. hefur hrundið af stað og verið er að vinna að fast og ákveðið með ákveðna tímasetningu í huga. En líklega hefur hv. þm. ekki heyrt þau dæmi í minni ræðu.

Hér er ekki að mínu mati um neitt frjálshyggjumál að ræða, enda kann ég ekki útskýringar á því orði eins og búið er að fletja það út. Hér er einfaldlega um mjög brýnt mál að ræða sem skiptir miklu máli og þá er eðlilegast að hafa einfalt og mælt mál um það. Þetta mál er tvíþætt. Það er annars vegar að stokka upp ákveðna þætti í menntunarkerfi þjóðarinnar. Þar er um mjög róttækar breytingar að ræða sem þarf að gera til að koma inn þáttum sem skila sér í verkmenningu, í árangri varðandi okkar afurðir í stað þess að ala allt okkar menntafólk upp til þjónustu hjá hinu opinbera, beina því öllu inn í háskóla í stað þess að reyna að gera verkmenntunina aðlaðandi fyrir allan þorra námsmanna. Síðan á röðin að koma að Háskóla Íslands. En þennan þátt vantar í skólakerfið. Þetta er annar þátturinn sem liggur að baki þessarar till.

Hinn eru aðgerðir strax. Það er einnig getið um það í till. t. d. að senda tugi manna nú þegar til útlanda til að kanna markaði og möguleika. Auðvitað þyrfti að nýta einhverja þekkingu hjá viðskiptafræðingum og öðrum í þessum efnum. En það er ekki allt fengið með því. Það eru margir góðir sölumenn þó að þeir hafi ekki langskólamenntun. Það hefur sannast í gegnum tíðina. Það þarf að grípa til þessara aðgerða strax og það stendur eftir óhögguð sú staðreynd að þessi menntun er ekki til í íslensku skólakerfi. Það er allt annað að fjalla um bókhaldsmenntun, almenna viðskiptafræði og slíka þætti. Okkur vantar hreinlega menntun á sviði sölumennsku og markaðsmála í skólakerfið. Það er kannske veigamesti þátturinn í þessari till.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vék að því að viðskiptafræðingar og samskiptafræðingar hefðu ekki fengið tækifæri til að spreyta sig. Það er erfitt að skipuleggja á þennan hátt. Líklega á hv. þm. við félagsfræðinga þegar hann talar um þá sem hafa menntað sig í samskiptum. Það er gott og vel að stuðla að þeirri menntun. En það leysir ekki heldur þetta mál. Það þarf að taka þessi mál föstum tökum við skipulagningu. Hér er um mál að ræða sem er langtímamál. Þetta verður ekki leyst á einhverjum vikum, mánuðum eða árum. Hér er um mál að ræða sem þarf að byggja upp og horfa til margra ára áður en vænta má einhvers árangurs að ráði.

Það kom fram í máli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að hann hefði unnið að skýrslu fyrir liðlega tíu árum um útflutningsmál og hvernig auka mætti þann þátt hjá okkar þjóð. Nú þekki ég ekki skýrsluna og kann ekki að dæma um hana. Hún er ugglaust góðra gjalda verð. En ef hv. þm. hefði barist af festu, sem honum er lagið, fyrir þessari skýrslu hefði kannske verið óþarfi að flytja þessa till. hér nú.

Hv. þm. vék að útfluttum doktorum sem hefðu ekki fengið starfsskilyrði hér á landi. Ég hef að sjálfsögðu alla samúð með doktorum sem ekki ná fótfestu hérlendis við sitt hæfi. En við verðum að vona að menn hafi baráttu, þrek og þor til þess ýtrasta að vinna góðum málum framgang.

Hv. þm. hefur að mínu mati gefist upp í þessum efnum að ófyrirsynju. Í stað þess að leggja ofurkapp á að berjast fyrir bættum háttum í útflutningsmálum þjóðarinnar hefur hann lagt ofurkapp á það að undanförnu að flytja út frið. Það er mönnum í sjálfsvald sett að fá klapp á kollinn h á aðskiljanlegum leiðtogum úti í hinum stóra heimi. Ég hef miklu meiri áhyggjur af okkar útflutningsafurðum og því að ná áþreifanlegum verðmætum fyrir okkar afurðir, í þjóðarbúið. Á því þurfum við að halda og það er um það sem þetta mál snýst fyrst og fremst.