28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Það er ástæða til þess í umræðum um þetta mál að reyna að horfa hátt og vítt yfir og án fordóma. Þess vegna er vont að hafa Sambandið á heilanum, það er ekki gott innlegg í málið. Ég held nú samt að þegar dregið er saman það sem fram hefur komið í umræðunum séu menn allnokkuð sammála.

Það má t. d. taka undir orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að það er um að ræða átak strax og síðan til lengri tíma, þ. e. mál sem skili sér á lengri tíma. Það er einmitt þetta sem er fjallað um í till. og fylgir í grg. Og ég vil leyfa mér að árétta það, sem ég sagði fyrr í ræðu minni, að full ástæða væri til þess að sem fyrst væru sendir tugir manna til starfsnáms erlendis til að kynna sér vinnubrögð, markaði og söluleiðir fyrir íslenskar afurðir, kynna sér störf sem varða íslenska hagsmuni erlendis, og störf við fyrirtæki sem tengjast íslenskum hagsmunum, kynna sér lönd eða markaðssvæði þar sem Íslendingar selja ekkert en möguleikar á sölu kunna að leynast þegar að er gáð.

Auðvitað er þarna verið að tala um fólk sem hefur nokkra menntun til þess að fara sem fyrst út á markaðinn. Þar erum við sammála. En það mætti kannske kveða fastar að orði. Ég get fallist á það.

Í öðru lagi verður þetta fólk ekki kallað saman á nokkrum dögum og sent í allar áttir til ýmissa landa. Það þarf að skipuleggja það, það þarf að marka ákveðna aðgerð, ákveðið átak og það tekur nokkurn tíma. Þess vegna er óþarfi að gera það tortryggilegt að reiknað sé með einhverjum aðlögunartíma til þess svo að framkvæma átakið.

Varðandi menntunina í skólakerfinu er auðvitað um mikla breytingu að ræða, sem ég er alveg klár á að gengur ekkert hljóðalaust fyrir sig, ef hún gengur, og mun kosta mikla baráttu vegna þess að það er út úr þeim stíl sem ríkir í skólakerfinu í dag að takast á við vandann í þessum efnum. Það er horft fram hjá því. Hv. síðasti ræðumaður minntist á það að Sjálfstfl. hefði ekki hug til framfara í þessum efnum. Ég vil minna hv. þm. á það að fyrir nokkrum dögum mælti ég fyrir þáltill. í hv. Sþ. um menntun fiskvinnslufólks, ekki aðeins í fyrirtækjum heldur einnig í skólakerfinu. Meðal flm. var hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson svo að ekki er nú allt eins einfalt og sumir vilja vera að láta.

Það má draga þetta saman í stuttu máli. Auðvitað er ástæða til að hvetja ekki eingöngu fólk til að sinna þessum málum heldur einnig að örva fyrirtæki til að fara út í nýsköpun í markaðsleit. Það þýðir svo að sjálfsögðu að þar sem slík starfsemi er háð leyfum þarf að hnika til og breyta um stefnu. Þetta starf allt þarf vel að vanda.

Ég held að hv. 3. þm. Reykv. hefði getað afgreitt sín sjónarmið í stuttu máli. Hann sagði: Við lifum í heimi sem kallar á að búin séu til ný markaðstækifæri. Þetta er mergurinn málsins. Við þurfum nauðsynlega að auka sölutækni og hefja markaðssókn.

Ég er þakklátur ræðumönnum sem hér hafa talað í dag. Mér finnst, þegar á allt er litið, að þeir taki undir þetta mál, hversu brýnt það er. Mér fannst það kannske undirstrikað sérstaklega með málflutningi hv. þm. Garðars Sigurðssonar hve mikilvæg þessi mál eru í raun og veru.