28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er til umr., er góðra gjalda verð, hér er hreyft hinu merkasta máli. Eitt af því, sem við þurfum allra mest á að halda núna, er að örva markaðsleit og útflutningsstarfsemi og við þurfum á að halda hæfum starfskröftum á því sviði. Ef skólakerfið getur komið þar inn í og létt undir þá er það mjög æskilegt. Það kann að vera að við eigum völ á slíku fólki. Hætt er þó við því að það sé meiri parturinn af slíku fólki sem vinnur við að kaupa vörur inn í landið en ekki flytja þær út úr landinu. Maður heyrir það hjá mönnum, sem eru mikið á ferðalögum, að þeir verða samferða fjöldanum öllum af mönnum sem eru að kaupa inn en það eru fáir sem eru að selja okkar útflutningsvörur. En við þurfum að örva þessa starfsemi með öllum hætti og ég held að það þurfi alls ekki að koma niður á menntun okkar fiskvinnslufólks sem er annað mál og mjög brýnt og einnig menntun sjómannastéttarinnar í landinu. Það þarf ekkert að stilla þessu upp hvoru á móti öðru. Þetta er hvort tveggja nauðsynlegt.

Sölumennska á erlendum mörkuðum er e. t. v. annað fag en að kaupa inn. Sölumenn, sem selja okkar útflutningsafurðir, þurfa að sjálfsögðu að reyna að selja sem mest af þeim. En það er ekki nóg, heldur þurfa þeir að fá fyrir þær sem hæst verð. Það er mergurinn málsins að þar liggur munurinn. Menn eru að kaupa vörur inn til landsins á sem lægstu verði en þarna þurfa menn að fá sem hæst verð. Það skiptir miklu máli hvaða verði menn skila inn í þjóðarbúið. Það er e. t. v. enginn vandi að selja vörur á erlendum mörkuðum ef það er alveg sama hvað verðið er. En þetta er ekki svona einfalt. Þess vegna er mikil sérhæfing í þessu fólgin.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu við þessa umr. en ég vil taka undir þetta mál. Þetta er gott mál þó að það taki kannske ekki á öllum þáttum þessa vanda. En ég get ekki farið hér úr ræðustól án þess að svara nokkrum orðum staðhæfingum hv. 3. þm. Reykv. um Samband ísl. samvinnufélaga, en hann tók hér eina rispuna enn úr ræðustól um Sambandið. Maður hefur hlustað á margar slíkar undanfarið en ég hef ekki lagt mörg orð inn í þá umr. þrátt fyrir að ég hafi unnið í samvinnuhreyfingunni alla tíð þangað til ég kom hingað inn fyrir þessa veggi. Ég held að hv. 3. þm. Reykv. hafi tekið þannig til orða að í Sambandinu væru lýðræðislegar ákvarðanir hundsaðar, teknókratar væru að taka þar völdin sem hugsuðu um „big business“ og tilgangurinn helgaði meðalið. (ÓRG: Flest af þeim.) Já, flest. Þetta eru stórar fullyrðingar og þær urðu til þess að ég sá mig knúinn til að mótmæla þessu hér úr ræðustóli því að slíkt stangast á við þá reynslu sem ég hef af störfum í samvinnuhreyfingunni. Uppbygging hennar hefur í rauninni ekkert breyst á undanförnum árum. Þar eru lýðræðislegar ákvarðanir teknar, hún er lýðræðislega upp byggð, þar er fulltrúalýðræði og við, bæði ég og hv. 3. þm. Reykv., höfum setið á — (ÓRG: Hvaða fulltrúalýðræði er í Íslandslaxi?) — aðalfundum Sambandsins — Ég er að koma að því. — og hann hefur setið þar með fullum atkvæðisrétti og tekið þar þátt í störfum mörgum sinnum. Ég veit ekki betur en á þessum aðalfundum hafi verið rætt um atvinnuuppbyggingu á vegum samvinnuhreyfingarinnar og þátttöku hennar í nýjum atvinnugreinum margsinnis. Íslandslax er ekki fyrsta verkefnið í fiskirækt sem tekið er fyrir á vegum þessarar hreyfingar. Um það hafa verið teknar ákvarðanir af stjórninni með umræður aðalfundar Sambandsins að baki. Ég tel því þessi ummæli, sem voru við höfð áðan, mjög ómakleg. Ég þekki til þeirra yngri manna sem vinna í Sambandinu og ég tel það stórar fullyrðingar úr ræðustól á Alþingi að tilgangurinn helgi meðalið í flestum — þó að það sé ekki nema flestum — störfum þeirra. Það vil ég láta koma hér fram.

Ég ætla ekki að fara að halda hér uppi umr. enn þá einu sinni um Sambandið. Mér gefst áreiðanlega tækifæri til að gera það síðar svo að ég þarf ekki að vera að teygja lopann í þessari umr. um það. Ég þekki menn illa hér ef menn minnast ekki á það einhvern tíma í umr. á næstunni. Ég vildi því aðeins mótmæla þessum ummælum sem komu fram áðan.