12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það mætti segja mér að áður en langt um líður eigi ég erindi við hv. 3. þm. Reykv. ef hæstv. forseti vildi athuga um hann.

Hér erum við að ræða skýrslu ríkisstj. um kjaradeilurnar og eru þessar umr. vægast sagt um margt undarlegar, þar sem sumir hv. ræðumenn gera mál eins og útvarpsmálin að aðalumræðuefni sínu, þannig að ekkert annað kemst að í því sambandi. Auðvitað ætla ég ekki að gera lítið úr því, en þó sýnist mér nú ýmislegt annað brýnna sem menn þurfi að ræða og koma sér ásamt um.

Þessar umr. eru undarlegar að því leyti að stjórnarandstaðan hefur uppi tölur hér eins og þjóðin væri komin á vonarvöl, eins og ekkert biði hennar annað en örbirgð og öngþveiti, þessarar þjóðar sem á örskömmum tíma hefur unnið sig upp frá örbirgð til bjargálna einhverra þeirra bestu sem gerast og við þekkjum til, þegar jafnvel menn á miðjum aldri muna þá tíma þegar menn bjuggu við örbirgð, atvinnuleysi og örvæntingu. Og þeir sem harðast hafa uppi þennan bölmóðssöng eru þeir sem eru nýkomnir frá því að stjórna með þeim hætti sem sannanlega var að stefna okkur fram af brúninni — að áliti gömlu flokkanna flestra og nýju flokksbrotanna líka. Og það má mikið vera ef hv. þm. Stefán Benediktsson á ekki eftir að sanna og þreifa á að enn þöktir lífsandi í nösum núverandi stjórnar og mun gera lengi enn. — Já, ég heyri að hv. þm. hlakkar til.

Hver voru höfuðstefnumiðin og markmið allra þjóðmálaflokka fyrir síðustu alþingiskosningar? Á hvað lögðu þeir allir og flokksbrotin einnegin megináherslu? Að kveða niður verðbólguna. Að kveða niður verðbólguna var sameiginlegt áhugamál þeirra og höfuðmarkmið. Og ég held m.a.s. að Kvennalistinn hafi veitt því athygli að eitthvað var að í þeim málum. Þegar menn hafa uppi stórárásir sínar á núverandi ríkisstj. þá eiga þeir það til, eins og hv. 3. þm. Reykv., að gleyma þessu með öllu og minnast ekki einu orði á það. Var hann þó með í því og hans flokkur að birta neyðaráætlun í nóv. 1982 um hvernig mæta skyldi þeim háska sem verðbólgan hafði í för með sér. Rétt væri að rifja það upp í tómi hvernig sú neyðaráætlun hljóðaði. Skyldi hún hafa hljóðað upp á það að stórbæta kjör hinna lægst launuðu? Skyldi sú neyðaráætlun hafa þá borið nafn með rentu eftir að þessi flokkur hafði staðið að því að skerða laun almennings þrettán sinnum á valdaferli sínum. Þrettán sinnum, hv. 3. þm. Reykv. (SvG: Þrettán sinnum hvað?) Þrettán sinnum skerti hv. 3. þm. Reykv. og hafði forustu um að skerða kjör almennings á stjórnartíma fyrrverandi ríkisstj. Þrisvar sinnum 1979, fjórum sinnum 1980, tvisvar 1981, fjórum sinnum 1982, samtals um 50%. (SvG: Mogginn sagði alltaf fjórtán sinnum.) Óhagganlegar staðreyndir. Þetta stendur líka í grein, sem Haukur Helgason hugmyndafræðingur Alþb. skrifaði og birti opinberlega og hægt er að fletta upp á, svo að þetta er ekki allt tóm Moggalygi.

Hvers vegna var það æðsta mark og mið allra þjóðmálaflokka að reyna að vinna bug á verðbólgunni?

Af því sem það lá ljóst fyrir að ef kostnaðarverðbólgan hefði haldið áfram að æða áfram þá hefðum við beðið skipbrot, atvinnuvegir okkar. Þá hefðu atvinnuvegirnir stöðvast og allsherjaratvinnuleysi tekið við. Þetta voru allir menn sammála um þá. En nú er eins og menn taki ekki eftir því hvað áunnist hefur. Það var þó markmið sem bókað stendur. Ég man ekki hvort bókin var blá eða græn, sennilega hefur hún verið blá, þar sem markmiðin voru skrifuð niður 1980 í febrúarbyrjun, að verðbólgu skyldi náð niður á 8–10% á ári. Og hvernig endaði það? Hvernig skyldi það hafa endað? Ég þarf ekkert að rifja það upp fyrir hv. þm. Það voru fleiri markmið sem menn settu sér og enduðu öll í skötulíki og kem ég kannske að þeim síðar.

Umræðan hefur verið undarleg að því leyti sem menn hafa lagt hér í ræðum sínum megináherslu á málefni, sem auðvitað ern mikilvæg en ekki hin brennandi spursmál til úrlausnar í dag, eins og útvarpsmálin. Hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason setti á langa tölu bæði í nótt og í dag um þetta mál og er kannske ekki að undra þar sem málið snýr mjög að honum. Auðvitað er undir því mest að menn haldi lögin. Því ef menn sundur slíta lögunum þá slíta menn sundur friðinum og megum við þá ekki við það búa meira. En jafn mikilvægt er hitt, að allir séu jafnir fyrir lögunum, því að ef ekki þá er sundur slitið lögunum.

En hér eigum við ekki að setja á langar tölur um þetta, vegna þess að það er í annarra höndum að sjá um framkvæmd laganna, annarra höndum en framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Það er í höndum dómsvaldsins og ég kvíði öngvu um úrlausn þess valds. En eru menn jafnir fyrir þessum lögum? Er það til að mynda rétt og satt að þegar hv. 5. landsk. þm. fer að kynnum vestur á Hellissandi þá haldi Sandarar honum paról með sjónvarpi frá Ólsurum og hafi gert um langa hríð? Ég hafði ekkert áttað mig á því að þetta væri ólögleg starfsemi, til að mynda eins og viðgengst í Ólafsvík þar sem menn reka sjónvarp í lokuðu kerfi og með auglýsingum og hvað eina er mér sagt, í kjördæmi hv. þm. Tók hann kannske ekki eftir því að þessi ólöglega starfsemi var með höndum höfð, af því sem þetta er í Ólafsvík? Hvað veldur því að menn eru ekki jafnir fyrir lögunum? Hví hafði útvarpsráðsmaðurinn, hv. 5. landsk. þm., ekki tekið þetta mál fyrir á réttum stöðum? Og hefur þetta ekki viðgengist annars staðar og í stórum stíl og menn hafa rifjað þetta upp? Ég er ekki að mæla þessu bót. Ég er aðeins að vekja athygli á lífsspursmálinu að menn séu jafnir fyrir lögunum.

Og hvað um það ef tvær stöðvar hafa verið stöðvaðar með valdi í gær, þá segir bilstjórinn minn mér að það sé ein sem hafi hafið útsendingar. (EG: Hæstv. ráðh. hefur ekki heyrt ræðu mína alla hér áðan. ) Nei, sem betur fer. En ég heyrði nóg. Ég heyrði nóg, hv. þm., af hneykslan þm. sem mér virðist hitta hann sjálfan fyrir ef þetta er rétt. (EG: Þetta er rangt.) Eru Ólsarar ekki með sjónvarp? (EG: Ég hef vikið að því hér á Alþingi og það er auðvitað jafnólöglegt eins og önnur starfsemi sem brýtur í bága við útvarpslög.) Akkúrat. En það hafa ekki verið settar á stórtölur um þetta. Og ég tala nú ekki um að menn hafa ekki notað tímann þegar betur hefur staðið á til að ræða þessi mál. Það kann að finnast einhver fótur fyrir þessu, ég er ekki að þræta á móti því. En þegar mönnum liggur hið mesta á að lægja öldurnar og leysa stór vandamál og háskamál þjóðfélagsins, þá er helsti tíminn til að ræða þetta. En eins og ég segi, þessu mæli ég ekki bót, en það er þetta mikilvæga að menn séu jafnir fyrir lögunum.

Og kem ég þá enn að þessu, sem mjög hefur verið haft á orði, um valdsvið kjaradeilunefndar. Ég get rifjað það upp að ég var einn af þeim sem beittu sér fyrir því að opinberir starfsmenn fengju þennan takmarkaða verkfallsrétt sem þeir hafa. Og ég verð að segja það að mér rann það mjög til rifja að í fyrsta skipti sem þau lög komu til framkvæmda skyldu þau fara úr hendi eins og raun var vitni um þá, þar sem þau voru þverbrotin þegar í stað. Ég var fylgismaður þess að opinberir starfsmenn fengju þessi mannréttindi, þótt þau væru mjög skert frá því sem hin almennu verkalýðsfélög hafa, og skert vitandi vits og það var forsenda laganna, enda hefði ég eigi að heldur fylgt þeim nema fyrir það að þau voru skert, réttindi þeirra, verkfallsréttindi þeirra voru skert með þeim hætti sem lögin bera með sér.

Ég held að við þurfum ekki að deila um valdsvið kjaradeilunefndar. Og ef menn gera svo þá skjóta þeir máli sínu til réttra dómstóla, því úrskurðarvaldið er til. En ég fyrir mitt leyti var í engum vafa um það að þegar í fyrstu atrennu voru þau þverbrotin lögin um kjaradeilunefndina og valdsvið hennar. Ég var kannske að vona að þetta væru vaxtarverkir, byrjunarörðugleikar sem menn mundu yfirstíga. En reynslan núna virðist færa okkur heim sanninn um að svo er ekki. Kann þó enn að vera að Eyjólfur hressist.

Á hitt ber að líta að þetta eru dálítið sérkennileg átök, verkfalls- og vinnudeiluátök. Og ég held að menn þyrftu að íhuga þau alveg sérstaklega. Ég get skotið því hér inn í að mér rann líka til rifja hversu óvirðulega þeim til tókst, opinberum starfsmönnum um framkvæmd síns verkfalls. Mér dettur í hug hvort þeir hefðu ekki getað farið í smiðju til Dagsbrúnar til að mynda og fengið hana til þess að ráðleggja sér hvernig á að koma með festu og virðuleik fram í verkföllum. Og ég er að tala þetta í alvöru. Ef menn halda að ég sé að sveigja þarna með öðrum hætti að Dagsbrún, þá er það misskilningur. En þessi átök eru sérstaks eðlis. Og ég held að aðilinn öðrum megin þyrfti að setja sig í upphafi í þær stellingar að hann tapar öllum einstökum vopnaviðskiptum, ef menn skilja hvað ég á við. Hann hlýtur að tapa öllum einstökum áflogum sem verða í deilunni. Ef hann áttar sig ekki á þessu, þá er hætt við að ekki dragi til samninga. Þessu stríði lýkur ekki með neinum sigri annars hvors aðila. Því lýkur með vopnahléi sem menn gera við samningaborðið. Þannig er um þessi átök. Og að menn hafi skilning á þessari stöðu en verji ekki tímanum í að magna fyrir sér hver í einstaka atriði beri efra skjöld. Vinnuveitandinn, í þessu falli ríkisvaldið, þyrfti að æfa sig á því að hinn aðilinn hlýtur að bera hinn efra skjöld í einstökum átökum og vopnaviðskiptum. Og ef honum er það ljóst, þá veldur þetta ekki því hugarangri og æsingi sem það ella gerir. En verkfallsmenn bera hinn efra skjöld — með réttu eða röngu. Það getum við svo haldið áfram að ræða undan og eftir að þetta vald er tekið augljóslega að minni hyggju á stundum, nú af verkfallsnefnd BSRB, sem brot á lögum. Um þetta getum við þrætt og við skulum taka okkur tíma síðar til þess að athuga það. Nú liggur okkur á að menn setji sig í samningastellingar, því ef menn, eins og ég segi, eru alltaf í bardagahug, þá komast þeir ekkert áfram.

Hér settu þeir báðir á tölur um það, hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson og hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson, að það væri verið að brjóta íslenska verkalýðshreyfingu á bak aftur, það hefði verið gerð tilraun til þess, og létu víst að því liggja að það mundi takast. Þetta sýnir auðvitað vanþekkingu þeirra á þessu mesta valdi sem til er í þjóðfélagi okkar, vanþekkingu, af því þessir menn hafa auðvitað helst aldrei migið í saltan sjó og verkalýðshreyfingin vill ekkert af þeim vita og þeir þekkja ekkert til þar um bekki. Svo koma þeir hér bara og standa á tánum og lýsa því yfir að nú sé að því komið að verkalýðshreyfingin verði lögð að veili. Verkalýðshreyfingin er og verður sterkasta valdið í þessu þjóðfélagi og ég vil ekkert það vald sem tekur við af því. Ef hún sýnir sig að kunna vel með það að fara og réttilega þá er það áreiðanlega best komið þar.

Annað mál er það að ef menn kunna sér ekki hóf, ef menn sækja um skör fram, eins og manni virðist á þessum dögum að menn gildri til, þá kann illa að fara. Það þolir ekki þetta blessaða litla þjóðfélag okkar, sterka þjóðfélag í veikleika sínum á þessum sviðum.

Eins og ég segi hafa menn enn sem komið er ekki sett sig í samningastellingar. Oft vill það verða svo að þetta þarf vissan meðgöngutíma. Ég ætla að vona að hann verði samt ekki 9 mánuðir. En þetta þarf vissan meðgöngutíma meðan menn ná vissum stellingum og átta sig á því að pólitískir spraðibassar og glamrarar hafa þar ekkert erindi sérstakt, og stilla svo strengina. Auðvitað þurfa áþreifingar verkmestu valdamanna að fara fram. Og það er mestur skaði ef það hefur ekki getað orðið enn þá. Þannig er það hjá þeim sem til þekkja í þessu, þeir vita að óformlegar viðræður manna sem þekkjast vel af hvorum aðila þurfa að eiga sér stað. Þeir þurfa að setjast niður og ræða vandlega saman, því að hagsmunir liggja saman þegar á allt er litið.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði að launþegasamtökin eru að stilla sig saman. Það er af því góða. Ég hef nefnilega ekki mjög mikla trú á að okkur takist að leysa þessi vandræði nema alþýðusamtökin komi öll til skjalanna. Og það er slysið í þessu sambandi að opinberir starfsmenn skyldu hraða sér svo í sókn sinni sem raun bar vitni um. Það er slysið að mönnum skyldi ekki takast að hindra það að út í ófæruna væri farið svo hratt, áður en launþegasamtökin voru búin að stilla sig saman. Það var meginmálið. Þau voru ekki búin að því. En nú heyrir maður fréttir um að það sé á góðum vegi. Og við það bind ég vonir, því að þar eru nýir menn vissulega komnir til skjalanna. Menn hafa lagt bareflin til hliðar og þeir ræða um hlutina og vita að hagsmunirnir fara saman, eins og ég segi. Eins og þessi mál eru nú erfið viðfangs þá leysast þau ekki nema að aðalafl verkalýðshreyfingarinnar komi þar til skjalanna, Verkamannasambandið og svo bakhjarl þess, Alþýðusambandið.

Hér var rifjað upp fyrir okkur ýmislegt það sem hv. 3. þm. Reykv. kallaði staðreyndir. M.a. tók ég það niður eftir honum að viðskiptahallinn nú væri tvöfalt meiri en þegar núverandi ríkisstj. tók við. Þó eru til óyggjandi tölur um það að þá var viðskiptahallinn 10% af þjóðarframleiðslu, en hann er áætlaður nú 4–5%. En þetta er eftir öðru í málflutningi hv. þm. Ég gæti rifjað upp margt í þessu sambandi eins og um viðskiptahallann og skuldasöfnunina erlendis. Hver var skuldastaða okkar erlendis þegar fyrrverandi ríkisstj. tók við? Það eru til óyggjandi tölur um þetta. 30% af þjóðarframleiðslunni var hún þá. En í hverju enduðu þeir? Það eru líka til óyggjandi tölur um það. Í 60% rúmum. Það er við þessa örðugleika sem við erum að etja. Við getum ekki haldið áfram að flytja inn erlent fjármagn til þess að halda uppi atvinnuvegunum hérna eins og gert var í tíð stjórnar hv. 3. þm. Reykv.

Ég þarf ekki að rekja og lýsa því sérstaklega sem við tókum við. En í tíð þessara herra hafði skattbyrðin aukist um 11 þúsund á hvert mannsbarn, 11 þúsund krónur eins og verðgildi peninganna var í júní í fyrra, á hvert einasta mannsbarn. Og mig minnir að það hafi verið í einum tíu liðum, í tekju- og eignarskatti, söluskatti, vörugjaldi o.s.frv. og svo bensínskattar, skattar á ferðalög o.s.frv., o.s.frv. sem of langt væri upp að telja. Við þessar ógnir erum við að glíma sem við tókum við eftir vitlausustu stjórn sem nokkurn tíma hefur ríkt í lýðfrjálsu landi. (ÓÞÞ: Er nú ekki skotið dálítið hátt?) Ég er viss um að honum mundi ekki þykja það ef hann kynnti sér málin.

Það var minnst á það í ræðu hv. 3. þm. Reykv. að hér ríkti vaxtabrjálæði-vaxtabrjálæði, tók ég eftir. Má ég upplýsa að til eru óyggjandi tölur um það að verðbólgutap sparifjáreigenda, þjófnaðurinn sem viðgekkst á sparifjáreigendum nam 2340 millj. á árunum 1972–1980. Var það ekki hið eina og sanna vaxtabrjálæði þegar sparifjáreigendur voru leiknir með þeim hætti? Auðvitað eru vextir of háir núna og menn deila um með hvaða hætti eigi að ná þeim niður. Auðvitað þolir ekki húseigandinn, sem skuldar í íbúð sinni, slíka vaxtabyrði. Auðvitað verðum við að ná tökum á þessu og lagfæra það og lækka þá, stórlækka þá. Atvinnuveganna vegna líka.

Nei, ég þarf ekkert að fara yfir afrekaskrána. Í sambandi við samningana ætla ég aðeins að skjóta því hér inn í að hér sagði hv. málsvari Alþb. og formaður, hv. þm. Svavar Gestsson, að Alþingi ætti að taka málin í sínar hendur. Ég er í grundvallaratriðum andstæður því að Alþingi setji lög um lausn kjaradeilu. Að Alþingi taki málin í sínar hendur er ég andstæður í grundvallaratriðum. Það hefur frá upphafi verið fleinn í mínu holdi að nefna valdbeitingu til lausnar á slíku. Það er algjör fleinn í mínu holdi. Næstum því sama hvernig á stendur. Neyðarréttur er það og á aldrei að vera annað, neyðarréttur í ýtrustu neyð, vegna þess að það leiðir ekki til góðs, vegna þess að við getum ekki stjórnað landinu nema með samningum. Það er ekki það vald til og á ekki að vera sem gefur okkur færi á að stjórna og leysa málin með öðrum hætti. Þess vegna er það að ég verð ekki með í því að Alþingi taki samningamálin í sínar hendur, eins og það var svo faglega orðað.

Það var mjög knúið á um það við ríkisstjórnarmenn nú fyrir skemmstu að menn beittu bráðabirgðalagavopninu. Það hefði aldrei orðið með mínu samþykki. Það var gripið til þess út af slátrunum á Suðurlandi. Ég nenni ekkert að tala um það, en þeir munu slátra þar í gríð og erg og er það vel að þeir bjargi verðmætum landbúnaðarins. En um afrekaskrána ætla ég ekki að fara fleiri orðum, nema að við eigum kannske eftir í betra tómi, ég og hv. 5. þm. Austurl., að minnast ofurlítið á stóriðju. Ég vil gera grein fyrir þeim samningamálum á næstunni og ég mun þá kannske birta smá reikning á hendur Alþb. Fljótt á litið virðist mér hann þurfa að hljóða upp á 2500 millj. fyrir afrekin þeirra í stóriðjumálunum á árunum 1978–1983. Það verður eitthvað um það bil. Þeir gera ekki annað á meðan þeir greiða þann reikning. (Gripið fram í.) Þú verður fyrstur sóttur sem ábyrgðarmaður á þessum víxli.

Hv. 3. þm. Reykv. brá sér til Jórdaníu. Ég legg nú til að við sendum hann til Albaníu og hann kynni sér málin þar. Þegar hann kemur til baka getur hann sagt okkur frá því hvernig opinberir starfsmenn þar framkvæma verkfall og hvernig verkalýðshreyfingin þar í landi semur um kaup sitt og kjör. (SvG: Viltu ekki segja okkur hvernig það er í Singapore?) Ég get komið að því síðar. Það gæti orðið fróðlegt að fá fréttir úr því dýrðarríki, þar sem hugsjónin hefur gengið fram alveg eftir ritúalinu allan tímann, hugsjón hv. þm. um þjóðskipulagið, að ég tali nú ekki um hv. 5. þm. Austurl., sem er eiðsvarinn í þeim hópi, hann gæti komið aftur og frætt okkur um það hvernig staðið er að verki í Albaníu. M.a.s. mistök Stalíns fengu ekki að ná inn fyrir landamærin þar. Svo vel hefur þetta verið rekið eftir hugsjóninni. Og þá mætti segja svona eins og skáldið gæti hafa sagt: Albanía, óskalandið, Ísland bíður þín. —Eitthvað í þessa átt.

Það sem okkur liggur lífið á nú er að sættast í deilunni sem nú stendur yfir. Sættir munu ekki nást nema með því að þeir sem verst eru settir fái verulegar úrbætur. Það er mín skoðun og mín trú. Og færi nú betur á því að verkalýðshreyfingin legði höfuðáherslu á það. En gerir hún það? Gerir hún það, hv. 7. þm. Reykv.? Beitir hún geiri sínum — ég veit að hann gerir það — en meginfylkingin, beitir hún geiri sínum fyrir hinn lægst launaða aðallega? Mér er nær að halda að svo sé ekki. Ég þekki aðstæðurnar og veit að hægra er um að tala en í að komast. En það þyrfti þó helst núna, þegar við eigum í þessum örðugleikum sem dæmin sanna, að reyna að ná fram einhverju sanngjörnu þeim til handa sem vissulega lepja dauðann úr skel. Ég kann engin ráð til þess. Ef sjálf verkalýðhreyfingin hefur ekki döngun í sér til þess að standa fyrir því og hafa um það forustu, þá kann ég ekki ráðin, vegna þess að ég verð ekki við beiðni um lagaþvinganir til þess að svo megi verða. Fyrir því á ég ekki ráðin.

Eins og ég hef rakið og blasir við mönnum, þá hefur það hið mikilvægasta af öllu tekist. Raunar má auðvitað segja að það mikilvægasta er að hjálpa þeim sem á bágt, en hið mikilvægasta hefur tekist í störfum ríkisstj.: að vinna þó bug á verðbólgudraugnum, en ella — ef það hefði ekki tekist — hefði allt annað verið unnið fyrir gýg og harðast bitnað á þeim sem minnst mátti sín. Hvað er orðið um kenningar Alþb. um það að verðbólga væri skipulögð af auðvaldinu til þess að berja á hinum eignaminni og eignalausu? Hvað er orðið um þá kenningu, sem er ein af örfáum sem stenst af þeim kenningum sem þeir hafa? Auðvitað veldur verðbólguástand röskun, auðvitað veldur það því að þeir sem halda um peninga geta makað krókinn en hinir verða undir. Hvað er orðið um þessa kenningu þessara manna sem ekki einu sinni hafa tekið eftir því að tekist hefur að vinna bug á höfuðvandamálinu. Ég vara menn sérstaklega við því, af því sem það getur haldið uppi vígahug einhverra manna sem til áhrifa eru sóttir, ef þeir halda að ríkisstj. sé að gefast upp við verkefni sín. Það er grundvallarmisskilningur. Okkur ber skylda til að ráða fram úr þeim vandamálum sem við blasa. Og þá skyldu munum við ekki yfirgefa. Þetta get ég alveg fullvissað ykkur um. Hvernig svo sem menn leggja út af yfirlýsingum einstakra manna, þá er enginn bilbugur á ríkisstj. að standa í ístaðinu. Ég er sannfærður um það að óðar í bili mun birta af degi í þessum mikla vanda okkar. Við erum að þeirra hyggju sem gerst þekkja dýpst í öldudalnum, þannig að við eigum von á því að rísa upp úr honum áður en líður. Til þess þarf þolinmæði auðvitað og á meðan verðum við að reyna að sjá til með þeim sem vissulega eiga örðugt. Ella kann illa að fara. En eins og mikið er í húfi að við ráðum fram úr þessum örðugleikum þá verður það auðvitað aldrei að núv. ríkisstj. hlaupist frá verkum sínum, aldrei. Kemur ekki til nokkurra mála. Og meginmarkmiðum sínum lætur hún ekki hrugga við, vegna þess að það er hægt að ráða bót á vandamálunum án þess.

Ég beið eftir því og bíð enn eftir því að stjórnarandstaðan leggi okkur lið af skynsamlegu viti, án upphrópana jafnvel um óskyldustu mál, en láti af þeirri iðju sinni að egna óbilgjarnan.