28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3970 í B-deild Alþingistíðinda. (3301)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir það að mér er leyft að gera hér örstutta athugasemd. Ég er alveg reiðubúinn að ræða ítarlega við hv. þm. Jón Kristjánsson um málefni samvinnuhreyfingarinnar og Sambandsins. Ég vil þó segja strax að hann gerði í sinni ræðu leikflækju sem mjög er notuð til þess að fela kjarnann í þessari umræðu, og það er að tala um samvinnuhreyfinguna og Sambandið eins og þetta sé eitt og hið sama. Það geri ég aldrei. Ég geri mikinn mun á milli samvinnuhreyfingarinnar, sem ég skilgreini sem kaupfélögin sem starfa úti um byggðir landsins og eru þar háð aðalfundum sínum og félagsmönnum, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði og öll mál eru rædd á opnum vettvangi innan félagsins, og koma síðan saman á aðalfund Sambandsins einu sinni á ári, og síðan þeirrar fyrirtækjasamsteypu sem ég kalla Sambandið og er sett saman úr mörgum hlutafélögum, dótturfyrirtækjum og hliðarfyrirtækjum, sjóðum og eignarhlutdeild í öðrum fyrirtækjum, sem aldrei kemur til neinnar ákvörðunar hvað snertir stjórnendur eða vald yfir þeim innan samvinnuhreyfingarinnar, heldur fara forstjórar Sambandsins með allt ákvörðunarvald, ráðningu stjórnenda, stefnumótun og annað. Fólkið í samvinnuhreyfingunni hefur engan beinan aðgang að þessum fyrirtækjum. Og það var ekki fyrr en eftir að ég hafði í þrígang á aðalfundi Sambandsins knúið á um það að Erlendur Einarsson, forstjóri Sambandsins, gæfi þó lágmarksskýrslu um hvað forstjórarnir væru að gera í þessum fyrirtækjum, sem sú skýrsla var gefin fyrir þó nokkrum árum síðan. En það kostaði allnokkra umræðu á aðalfundi Sambandsins að fá það.

Ég held að það sé mjög mikilvægt í allri þessari umræðu, ef menn vilja átta sig á því um hvað hún snýst og hvar vandinn er, sérstaklega fyrir okkur samvinnumenn, sem við erum báðir, ég og hv. þm. Jón Kristjánsson, að gera greinarmun á samvinnuhreyfingunni, sem samanstendur af kaupfélögunum og þeim fyrirtækjum þar sem fólkið sjálft hefur beinan aðgang að kjósa stjórn, velja stjórnendur, og getur haft milliliðalaust lýðræðislegt eftirlit með því sem verið er að gera, og síðan þessari margþættu fyrirtækjasamsteypu sem ég kýs að kalla Sambandið, þó það sé ekki mjög nákvæmt, en er samheiti yfir þann rekstur sem er á vegum Sambandsforstjóranna sjálfra og deilda Sambandsins, dóttur- og hliðarfyrirtækja þar, hlutafélaga og annarra fyrirtækja sem þeir hafa með að sýsla, banka, ferðaskrifstofa, fjárfestingarsjóða ásamt eignarhlutdeild í ýmsum öðrum fyrirtækjum.

Vegna þess að ég hef þegar talað tvisvar hef ég ekki tíma til þess að útskýra þetta nánar. En þarna verða menn að gera mikinn greinarmun á. Og ég er þeirrar skoðunar, og er reiðubúinn í ítarlegar umræður um það, að ofvöxtur þess sem ég kalla Sambandið er hættulegur fyrir samvinnuhreyfinguna, er hættulegur fyrir stöðu hennar sem lýðræðislegrar fjöldahreyfingar í landinu, vegna þeirra breytinga sem þar eru að verða og vegna þess hverjir þar ráða ferðinni og hvaða hugmyndir þeir menn hafa, hvaða skólun þeir hafa fengið, sem m. a. felst í því að nú eru þar í æ ríkari mæli að taka við völdum menn sem aldrei hafa mætt á hinum félagslega vettvangi í samvinnuhreyfingunni til að standa frammi fyrir fólkinu, aldrei nokkurn tíma, og aldrei þurft að svara fyrir sig á lýðræðislegum eða félagslegum vettvangi innan samvinnuhreyfingarinnar en eru nú þegar kannske orðnir valdameiri innan Sambandsins heldur en obbinn af þeim kaupfélagsstjórum sem fólkið sjálft og fulltrúar þess hafa valið.

Herra forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að hafa fengið að gera þessa örstuttu athugasemd til þess að skýra veigamikil atriði í mjög flókinni umræðu sem alls ekki er hægt að tæma undir þessum dagskrárlið hér. En það væri mjög æskilegt að menn efndu til mjög ítarlegrar umræðu um þessi málefni hér á Alþingi. Ég er nefnilega sammála hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni í því efni að ofvöxtur fyrirtækjasamsteypu, þar sem þröngur hópur forstjóra fer með mest vald, er hættulegur fyrir lýðræðið í landinu. Einkum og sér í lagi er það hættulegt fyrir samvinnuhreyfinguna sem lýðræðislega fjöldahreyfingu fólksins í landinu ef það fer að verða hið drottnandi andlit sem snýr að þjóðinni.