28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3972 í B-deild Alþingistíðinda. (3303)

330. mál, útboð á neyslu- og fjárfestingarvörum

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 527 till. til þál. um útboð á nokkrum algengum neyslu- og fjárfestingarvörum. Í till. þessari er ríkisstj. falið að láta Innkaupastofnun ríkisins bjóða út nokkrar valdar tegundir af almennum neyslu- og fjárfestingarvörum í samvinnu við Verðlagsstofnun í þeim tilgangi að stuðla að stærri og hagkvæmari vörukaupum innflutningsfyrirtækja, hagstæðari innkaupum ríkisfyrirtækja á innlendum og innfluttum vörum og lægra vöruverði til neytenda, eins og segir í fyrstu mgr. tillgr. Þar segir einnig:

„Öllum sé heimil þátttaka í útboðunum, en þeir sem tilboð gera skulu hafa tryggt sér að vara þeirra verði seld í smásölu sem víðast um land ef tilboði þeirra yrði tekið.“

Gert er ráð fyrir því að viðskrn. skipi dómnefnd er velji þau tilboð sem að öðru jöfnu teljist hagstæðust og þær vörur sem dómnefndin velur verði síðan auglýstar sérstaklega í fjölmiðlum og þær njóti forgangs í innkaupum allra ríkisstofnana.

Um útboð þau sem hér er gerð till. um verður það auðvitað að segjast eins og er að þau væru á margan hátt ólík venjulegum útboðum. Sá sem lægst byði fengi fyrst og fremst ótvíræða opinbera viðurkenningu á því að boð hans væri hagstæðast, vara hans fengi mikla óbeina auglýsingu, auk þess sem ríkið legði fram fé til að auglýsa vöru hans rækilega í fjölmiðlunum. Jafnframt yrði gerður samningur um verulegt vörumagn í þágu ríkisstofnana.

Það er rétt að taka það skýrt fram að hér er alls ekki gerð till. um innflutningseinokun sem þó gæti vissulega átt rétt á sér í ýmsum tilvikum og á rétt á sér, t. d. hvað varðar innflutning á olíu og bensíni, svo eitt dæmi sé nefnt um vörur sem ekki eru fluttar inn með þeim hætti og svo aftur hvað varðar tóbak og áfengi sem einokunarverslun er á. Það er sem sagt rétt að undirstrika að öllum væri eftir sem áður heimilt að flytja inn eða framleiða þessar vörur eða hafa til sölu vörutegundir frá öðrum aðilum en þeim sem hefðu hlotið útboðið. En það er hins vegar von mín að með þessari þáltill., ef hún kæmi til framkvæmda, mundi innflutningsaðilum verða veitt heilbrigt og nauðsynlegt aðhald.

Það verður varla um það deilt, eftir endurteknar verðkannanir Verðlagsstofnunar og samanburð á verði hér á landi og í nálægum löndum, að verðlag hérlendis á ýmsum helstu nauðsynjavörum almennings er óeðlilega og einkennilega hátt. En þegar nánar er að gáð kemur varla á óvart að almennar neysluvörur séu dýrar hér á landi þegar haft er í huga að þær eru fluttar inn fyrir tiltölulega smáan markað og innkaup á hverri vörutegund skiptast á milli mjög margra heildsala svo að sjaldnast er um að ræða verulegan magnafslátt eða annað það hagræði sem fylgir stórum einingum og miklu magni. Samkvæmt könnun Verðlagsstofnunar sem var gerð árið 1979 var það niðurstaðan að lækka mætti verðlag hér á landi á almennum nauðsynjavörum um 10% ef unnt væri að tryggja að sambærilegt innkaupsverð á innfluttum neysluvörum væri hliðstætt því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Það fer því ekkert á milli mála að hér er til mikils að vinna.

Eðlilegt er að spurt sé hvaða vörur gætu hér helst komið til greina. Ég held að vörur sem hér kæmu helst til greina væru neysluvörur sem væru svo almenns eðlis að unnt væri að kaupa þær til landsins í verulega miklu magni. Sem dæmi mætti nefna sykurvöru, hveiti, hafragrjón, grænmeti ýmiss konar, ávexti, þvottaefni, smjörlíki og kexvörur. Fjárfestingarvörur sem hér gætu vissulega komið til álita eru t. d. steypujárn, uppsláttartimbur, húsgögn, jafnvel bílar, sbr. það útboð sem fór fram á vegum Innkaupastofnunar ríkisins ekki alls fyrir löngu og má vissulega segja að hafi verið nokkuð í þeim anda sem hér er verið að gera till. um.

Í þessu sambandi er rétt að vekja á því athygli að Samband ísl. samvinnufélaga hefur reynt að stuðla að stórum innkaupum á vegum samvinnuverslana og hafa þessi innkaup verið kennd við sölu á grunnvöru. Og í kynningarbæklingi sem gefinn var út fyrir nokkrum árum var einmitt fjallað um það spursmál hvað grunnvara væri, í hvaða tilvikum væri hægt að kaupa vörur inn í verulega stóru magni til að ná sem hagkvæmustum innkaupum og ég hygg að þau sjónarmið sem þar komu fram séu náskyld þeim sjónarmiðum sem í þessari till. felast.

Ég vil í þessu sambandi láta þess hér gefið að ég átti ítarleg samtöl við framkvæmdastjóra Innkaupastofnunar ríkisins og hann veitti ábendingar og góð ráð í þessu sambandi og taldi að hugmynd af þessu tagi væri vissulega mjög vel framkvæmanleg og það á vegum Innkaupastofnunar ríkisins. Er mér ljúft að þakka fyrir ábendingar í þessu sambandi, enda má segja að nokkur hluti þeirra hugmynda sem fram koma í þessari till. sé beinlínis frá honum kominn.

En aðalatriði málsins er að með þessu nýmæli er gerð till. um að reyna að efla frjálsa samkeppni í innflutningi og framleiðslu á almennum, algengum neyslu- og fjárfestingarvörum undir forustu ríkisvaldsins og til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Það væri sem sagt verið að reyna að stuðla að því að verslunin í landinu leitaði leiða til stærri átaka í vöruinnkaupum en nú tíðkast og stórir smásalar sameinuðust um innflutning útboðsvöru með sem allra hagkvæmustum hætti. Því vil ég leyfa mér að endingu að fullyrða að þessi nýjung í innflutningi á almennum nauðsynjavörum gæti hugsanlega dregið nokkuð úr verðbólgu hér á landi.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði till. þessari vísað til allshn.