28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (3304)

330. mál, útboð á neyslu- og fjárfestingarvörum

Maríanna Friðjónsdóttir:

Herra forseti. Það er náttúrlega allra góðra gjalda vert að reyna að lækka á einhvern hátt vöruverð á þessu blessaða landi okkar og hjálpa heimilunum að lifa af. En það er eitthvað sem mér finnst orka tvímælis í þessu plaggi sem hv. þm. Ragnar Arnalds var að enda við að tala fyrir og vil ég gjarnan leita álits hans á því. Það eru nefndar nokkrar vörur, sem eru framleiddar í landinu, og þar á meðal þvottalögur, þvottaefni, smjörlíki, klósettpappír, rauðkál og ýmislegt, auk þess sem hann var að tala um steypuvörur. Mér finnst einhvern veginn eins og verið sé að stefna gegn þeirri iðnframleiðslu sem á sér stað hér í landinu með því að fara fram á að ríkisvaldið stuðli að auglýsingu og innkaupum á miklu magni, eins og hér stendur, á vörutegund sem boðin er lægsta verði, vegna þess að nú er það oft svo, eins og allir vita, að íslenskur iðnvarningur er kannske ekki sá alódýrasti vegna þess að við erum að framleiða fyrir lítinn markað og það er ýmislegt annað sem kemur þar inn í. Ég á dálitið erfitt með að sjá hvernig þeirri samkeppni verður varið í þessu sambandi.