28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

392. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Flm. (Maríanna Friðjónsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. góð orð í minn garð og ágætar undirtektir undir þessa till. Síðasti ræðumaður kom inn á nokkur atriði sem honum fannst svona allt í lagi að skoða. Hvað varðar þolinmæðina þá vil ég segja eitt: Íslenskar konur eru búnar að vera þolinmóðar í 1100 ár og rétt rúmlega það. (SV: Og engar konur munu hafa eins mikil réttindi og íslenskar konur.) Það er nú ekki alveg á öllum sviðum. Og mér þykir það leitt með litlu skrefin, þau verður að taka, en það hefur greinilega tekið óratíma. Hv. þm. minnist á að það hafi margar till. hnigið í þessa átt þau 18 ár sem hann hefur setið hér á þingi. Auðvitað höfum við færst nokkur hænufet fram á þessum tíma. En það er bara komið að því að við hljótum að fara að taka þetta í örlítið stærri skrefum. Og vonandi erum við ekki enn orðin svo langþreytt að við bara setjumst niður og segjum: Þetta er bara ekki hægt, þetta tekur allt of langan tíma. Vonandi ekki.

Síðan minntist hv. þm. á menntunarmálin. Hann minntist á öld aukinnar tækni og að margar þessara kvenna hefðu litla menntun og talaði um að láglaunafólkið þyrfti líka að mennta. Það er nú svo að hér er oft og tíðum einmitt um sama hópinn að ræða. Konur eru láglaunafólk þessa lands meira og minna vegna þess að þær hafa litla menntun, vegna þess að þær eru að hluta til á ákveðnum tíma ævi sinnar það sem kallað er á skrifstofumáli „stopull vinnukraftur“ vegna þess að þær eru að sinna ungum börnum, þurfa að sinna þeim í veikindum, vera heima hjá þeim fyrstu vikurnar, mánuðinn eftir fæðingu og eru ekki tilbúnar til þess oft og tíðum að vinna 12–14 tíma á dag utan heimilis af þeim orsökum. Þess vegna eru þær líka láglaunafólk.

Mér þykir vænt um að heyra það að bændakonurnar skuli hafa þessi réttindi sem aðrar konur hafa ekki og vona að þar sé hægt að leita fyrirmyndarinnar í þeim úrbótum sem vonandi verða gerðar á þessu ástandi.