01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3985 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur að undanförnu fjallað um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1985. Nefndin hefur haldið marga fundi um málið og henni borist margháttuð erindi frá mörgum aðilum eins og títt er. Ég vil strax í upphafi leyfa mér að þakka hv. nm. fyrir góð störf og gott samstarf í nefndinni þegar fjallað var um þetta að sumu leyti og ýmsu leyti erfiða mál eins og menn þekkja.

En í meðförum nefndarinnar hefur frv. tekið nokkrum breytingum sem má rekja annars vegar til ákvarðana ríkisstj. og hins vegar til ýmissa óska sem nefndinni hefur þótt rétt að taka tillit til, ýmist n. í heild eða þá alla vega meiri hl.

Lánsfjáráætlun 1985 gerði ráð fyrir að heildarfjáröflun næmi 9 milljörðum 868 millj. kr. Þar af var ráðgert að 2 milljarðar 568 millj. kr. væru innlend lántaka, en 7 milljarðar og 300 millj. erlendar lántökur. Skömmu eftir að lánsfjáráætlun var lögð fram voru fjárlög afgreidd frá Alþingi og fól sú afgreiðsla í sér að erlend lánsfjárþörf A- og B-hluta ríkissjóðs hækkaði um alls 302 millj. kr. Lánsfjárþörf A-hlutans hækkaði þar af um 295 millj. kr. og stafaði hún einkum af auknum hallarekstri, en þá hækkaði lánsfjárþörf B-hluta um 7 millj. kr. Eftir afgreiðslu fjárlaga var því útlit fyrir um 10 milljarða 170 millj. kr. heildarlántökur, þar af 2 milljarða 568 millj. kr. innlendar og 7 milljarða 602 millj. erlendar lántökur.

Eftir umræður í marsmánuði í ríkisstj. var ákveðið að beita sér fyrir lækkun á erlendum lántökum, m. a. með samdrætti í framkvæmdum. Niðurstöður þeirra viðræðna voru að draga úr erlendum lántökum um alls 1 milljarð 408 millj. kr. Lækkunin skiptist þannig, að 1 milljarður 72 millj. kr. komi í hlut opinberra aðila og 336 millj. kr. í hlut atvinnufyrirtækja.

Lántökuheimild A-hluta lækkar um 750 millj. kr. Talið er fært að draga úr lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs með auknu hagræði og sparnaði á öllum útgjaldasviðum ásamt bættri framkvæmd og eftirliti með skattskilum. Auk þess er lántaka Rafmagnsveitna ríkisins lækkuð um 6 millj. kr. sem felur í sér að fyrirtækið tekur ekki erlend lán umfram endurgreiðslur af erlendum lánum. Þá eru lántökuáform Landsvirkjunar lækkuð um 316 millj. kr. Sú lækkun felur það í sér að 5. áfanga Kvíslaveitu er frestað auk nokkurs niðurskurðar í framkvæmdum við Blöndu án þess að útilokað verði þó að fyrsta vél virkjunarinnar gætið komið í gagnið 1988 eins og núverandi verkáætlun miðar við. Að lokum er ákveðið að lækka erlendar lántökur atvinnufyrirtækja um 336 millj. kr. og takmarka þær þannig við 1.5 milljarð kr. á árinu 1985. Gert er ráð fyrir að nýjar reglur og viðmiðanir um erlendar lántökur verði settar sem m. a. fela í sér þrengri heimildir banka og lánastofnana til að ábyrgjast lántökur, en það er hins vegar ekki tekið mið af aukningu lána sem einkaaðilar kunna að taka og verða heimiluð án sérstaks leyfis, enda verði þá hvorki um að ræða ríkisábyrgðir né bankaábyrgðir.

Nefndinni hafa borist óskir frá ýmsum aðilum um lántökuheimildir á árinu 1985. Auk þess er í nokkrum tilvikum nauðsynlegt að auka við lántökuheimildir í ljósi breyttra aðstæðna og nýrra upplýsinga. Viðbótarlántökur, sem meiri hl. nefndarinnar leggur til að verði heimilaðar erlendis, nema alls 716 millj. kr. Þar af eru 175 millj. kr. vegna þess að gert er ráð fyrir að innlend lánsfjáröflun verði erfiðari en áður var áætlað. Hér á eftir mun ég gera stutta grein fyrir þessum breytingum.

Í fyrsta lagi er viðbótarheimild Byggingarsjóðs ríkisins til 403 millj. kr. erlendrar lántöku á þessu ári. Sú hækkun skýrist annars vegar af því að útlit er fyrir að innlend lánsfjáröflun reynist um 215 millj. kr. minni en áætlað var, þar af eru skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna 175 millj. kr. minni en útlit var fyrir eða áætlað var og um 40 millj. kr. útstreymi er gert ráð fyrir að verði af skyldusparnaði ungmenna. Hins vegar er gert ráð fyrir að sjóðurinn standi skil á viðskiptaskuldum sínum hjá Seðlabanka og ríkissjóði, alls 188 millj., þ. e. 150 millj. hjá Seðlabanka og 38 við ríkissjóð, sem eru frá fyrra ári og ekki var gert ráð fyrir að greiða í fyrri áætlun. Með þessu móti má ætla að fjáröflun til sjóðsins verði tryggð á árinu 1985. Varðandi lánveitingar sjóðsins er rétt að taka fram að till. meiri hl. gerir ráð fyrir að lánveitingar sjóðsins verði óbreyttar að krónutölu frá lánsfjáráætlun. Hins vegar felur till. í sér nokkra breytingu á samsetningu lánveitinga sjóðsins þar sem ákveðið hefur verið að ráðstafa allt að 200 millj. kr. af þessu fé til lánveitinga fyrir húsbyggjendur í greiðsluerfiðleikum, eins og hv. alþm. er kunnugt um, og hefur raunar verið að því unnið að undanförnu. Þessi ráðstöfun kemur óhjákvæmilega fram í minni lánveitingum sjóðsins til nýbygginga og kaupa á eldri íbúðum. Af þessu er ljóst að tryggja þarf breyttar úthlutunarreglur úr sjóðnum eigi þessi áætlun að standast, en um það er einnig margrætt, bæði hér á hinu háa Alþingi og eins í blöðum, og skal ég ekki fara lengra út í þá sálma.

Bætt er við lántökum fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs, 62 millj. kr. Þar af eru 50 millj. kr. til Sjóefnavinnslunnar og 12 millj. kr. til grænfóðurverksmiðju í Skagafirði. Af lántökum Sjóefnavinnslunnar fara 36 millj. kr. til að standa undir fjármagnskostnaði og um 8 millj. kr. er áætlaður kostnaður vegna varðveislu og gæslu mannvirkja ef rekstri yrði hætt í þessari verksmiðju. Samkomulag hefur orðið um að þessi upphæð, sem þá ætti að vera 44 millj., væri í heimildarlögunum 50 millj. á meðan málefni verksmiðjunnar eru nánar skoðuð. Til grænfóðurverksmiðju í Skagafirði eru sem sagt 12 millj. kr. Það er eingöngu lántaka til endurfjármögnunar lána, sem þegar hafa verið tekin, og framkvæmda.

Lántaka steinullarverksmiðjunnar er hækkuð um 15 millj. kr. eða úr 60 millj. kr. í 75 millj. kr. Í ljósi nýrra upplýsinga um framkvæmdir verksmiðjunnar er þessi hækkun nauðsynleg. Ekki þarf að leita heimildar til þessarar hækkunar í lánsfjárlögum þar sem hún er þegar til staðar í lögum um verksmiðjuna sjálfa, lögum nr. 61/1981.

Lántökur hitaveitna hækka samtals um 166 millj. frá upphæð áætlunarinnar. Lántökuheimild Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hækkar um 20 millj. kr. Það er eingöngu vegna fjármagnskostnaðar. Auk þess er Hitaveitu Akureyrar heimiluð 140 millj. kr. lántaka til skuldbreytinga og framkvæmda, en greiðslubyrði veitunnar af áhvílandi lánum er mjög þung eins og kunnugt er. Þá er Hitaveitu Siglufjarðar heimiluð 6 millj. kr. lántaka vegna erfiðrar greiðslustöðu.

Þar sem löggjöf um svonefnt þróunarfélag liggur ekki fyrir er talið rétt að fella niður 4. gr. frv. Þess í stað er ráðgert að fela Framkvæmdasjóði að annast nauðsynlegar lántökur í sambandi við þróunarfélagið. Lántökuheimild Framkvæmdasjóðs skv. 7. gr. er því hækkuð um 500 millj. kr. eða úr 942 millj. kr. í 1442.

Bætt er við nýrri grein, sem verður 9. gr., sem heimilar Útflutningslánasjóði 70 millj. kr. erlenda lántöku á árinu 1985, en sjóðurinn fór fram á lántökuheimild fyrir 120 millj. kr. Gert er ráð fyrir að af 500 millj. framlaginu til Þróunarsjóðs muni Útflutningslánasjóður fá 50, þannig að hann fái í heild þær 120 millj. sem hann fór fram á. Þessi lántökuheimild er ætluð til að gera sjóðnum kleift að standa undir fjárskuldbindingum sínum og ýmiss konar mikilvægum verkefnum. Þessi lántaka er án ríkisábyrgðar umfram það sem leiðir af lögum um Landsbanka Íslands, en sjóðurinn er þar til húsa eins og menn vita.

Í III. kafla frv. kemur ný grein sem verður 26. gr. Nauðsynlegt er að afla viðbótarheimildar til erlendrar lántöku vegna lánsfjárlaga 1984. Við framkvæmd lánsfjáröflunar 1984 reyndist óhjákvæmilegt að afla 367 millj. kr. með erlendum lántökum þar sem innlend lánsfjáröflun reyndist mun minni en áætlað hafði verið. Hér er um að ræða 287 millj. kr. erlenda lántöku Byggingarsjóðs ríkisins og 80 millj. kr. erlenda lántöku Endurlána ríkissjóðs til að mæta innlausn eldri spariskírteina ríkissjóðs.

Að teknu tilliti til allra þátta fela brtt. í sér heildarlántökur að fjárhæð 9 milljarðar 303 millj. kr., þar af 2 milljarðar 393 millj. kr. innanlands og 6 milljarðar 910 millj. erlendis. Þessar tillögur eru taldar raunhæfara mat á innlenda lánsfjármarkaðinum en gert var ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Þetta kemur m. a. fram í því að skuldabréfakaup lífeyrissjóða af opinberum fjárfestingarlánasjóðum eru nú áætluð um 34% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í stað um 39%. Löngum hefur verið reynt að afla fjár sem svaraði til 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða, en það mun sjaldnast eða aldrei hafa tekist. Reynsla síðustu ára sýnir að ekki er varlegt að áætla mikið umfram 34% til þessara kaupa.

Þrátt fyrir lækkun á innlendum lántökum hafa erlendar lántökur þjóðarbúsins verið lækkaðar um tæpar 700 millj. kr. í meðförum nefndarinnar, hvort svo sem sú áætlun stenst nú í raun, en það hljótum við þó að vona.

Ég endurtek sem sagt þakkir til meðnm. fyrir mikil og góð störf og legg til að málinu verði að lokinni 2. umr. vísað til 3. umr. og ef forseti og dm. væru því samþykkir væri auðvitað ánægjulegt að geta haft hana í dag líka.