01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. þriggja nm., fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn., Eiðs Guðnasonar, fulltrúa Samtaka um kvennalista, Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur og fulltrúa Alþb. sem hér stendur.

Lánsfjáráætlun er spá um lántökur, innlendar og erlendar, í þágu ríkisgeirans, sveitarfélaga og fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og um erlendar lántökur einkaaðila. Lánsfjárlög eru hins vegar samþykkt í því skyni að afla heimilda til lántöku ríkissjóðs í samræmi við stefnu ríkisstj. á hverjum tíma.

Það er skemmst frá að segja að allt útlit er fyrir að lánsfjáráætlun og lánsfjárlög verði nokkuð fjarri raunverulegri þróun mála eins og hún virðist verða á þessu ári, að ekki sé talað um þau markmið sem ríkisstj. setti sér í upphafi síns starfsferils.

Þegar þessi ríkisstj. kom til valda var það yfirlýst markmið hennar að langtímaskuldir þjóðarinnar færu ekki yfir 60% af þjóðarframleiðslu. Um þetta urðu miklar umræður haustið 1983 og hæstv. fjmrh. lýsti því þá yfir að það væri ætlun ríkisstj. að standa fast við það að erlendar langtímaskuldir þjóðarinnar færu ekki fram úr þessu marki og stjórnin mundi fara frá ef ekki yrði við þetta staðið. Ég hygg að menn muni minnast þessara yfirlýsinga sem einmitt voru m. a. gefnar í þessari hv. deild.

Það liggur hins vegar fyrir að þegar í árslok 1983 nam þessi hlutfallstala 60.6% og í árslok 1984 var þessi hlutfallstala komin upp í tæp 62% . Skv. þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur hjá Seðlabankanum áætlar hann þetta hlutfall 64% í árslok 1985 miðað við þau áform um erlendar lántökur sem felast í lánsfjárlagafrv. og brtt. meiri hl. og miðað við þann vöxt þjóðarframleiðslu 0.7%, sem nú er gert ráð fyrir. En þrátt fyrir það að tölurnar í lánsfjárlögum séu bersýnilega mjög óraunhæfar og verði greinilega töluvert miklu hærri en þar er gert ráð fyrir liggur ljóst fyrir að jafnvel þótt reiknað sé með allra lægstu tölum, þ. e. tölunum sem hæstv. ríkisstj. vill miða við, þá spáir Seðlabankinn því að hlutfall langtímaskulda af þjóðarframleiðslu fari upp í 63.9% í árslok 1985 skv. nýlegum upplýsingum Bjarna Braga Jónssonar hjá Seðlabanka.

En það eru ekki aðeins þessi áform hæstv. ríkisstj. sem hafa farið á nokkuð annan veg en til stóð. Nú um áramótin var birt sú yfirlýsing ríkisstj. að dregið yrði úr erlendum lántökum sem svaraði um 1000 millj. kr. Þessi yfirlýsing var gefin einhvern tíma seinast í janúarmánuði og skömmu áður en það frv. sem hér er til umr. kom til 1. umr. í deildinni. Síðan er ekki liðinn langur tími. Maður skyldi halda að yfirlýsing, sem gefin var fyrir aðeins rúmum tveimur mánuðum, væri ekki þegar orðin að engu. En það er skemmst af að segja að það blasir nú við, þegar tillögur meiri hl. liggja fyrir, að hér hefur eingöngu verið um áróðurshjal að ræða og frómar óskir. Það vottar ekki fyrir neinni raunhæfri viðleitni af hálfu ríkisstj. til að draga úr erlendum lántökum sem þessu nemur ef frá er skilin lækkun á lántökuheimild Landsvirkjunar sem nú er áætluð 884 millj. kr. í staðinn fyrir 1200 millj. kr. Ég hygg að sá niðurskurður muni bersýnilega og óhjákvæmilega hafa í för með sér minnkun framkvæmda sem þessari upphæð nemur og er það rétt stefna, eins og ég mun víkja að síðar.

En mér virðist og okkur, sem minni hl. nefndarinnar skipum, blasa við að annar niðurskurður, sem hér er gerður, sé ekkert annað en sýndarmennska eins og t. d. að lækka áætlaða lántöku ríkissjóðs um 750 millj. kr. rétt eftir að fjárlög hafa verið afgreidd og þótt ekki sé kunnugt um það að forsendur fjárlaga hafi í einu eða neinu breyst eða þar séu einhver útgjöld sem verði minni en áður var ákveðið eða eitthvað hafi verið skorið niður af því sem ákveðið var í fjárlögum. Þetta er sem sagt ósköp einfaldlega hin ágæta pennastriksaðferð, að strika út tölu án þess að það gegni neinu öðru hlutverki, að því er séð verður, en að breyta tölunum.

Það er deginum ljósara að verði útgjöld ríkissjóðs með þeim hætti sem fjárlög gera ráð fyrir — og við höfum ekki fengið í hendur neinar upplýsingar um að það verði á annan veg — þá mun ríkissjóður taka þessar 750 millj. kr. að láni með einum eða öðrum hætti hvað sem líður samþykkt lánsfjárlaganna. Það verður þá annaðhvort gert með formlegri lántöku og öflun lánsheimildar í lánsfjárlögum næsta árs, eins og stundum hefur tíðkast, ellegar með því að auka skuldir ríkissjóðs við Seðlabanka. Nema skýringin liggi í því að ríkisstj. eigi von á svo miklu meiri tekjum í ríkissjóð en gert var ráð fyrir þegar tekjuáætlun ríkissjóðs var endurskoðuð síðla í desember. En ekki höfum við í stjórnarandstöðunni fengið neinar upplýsingar um að von sé á stórauknum tekjum miðað við það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Nákvæmlega sömu sögu er að segja um það áform sem felst í þessari áætlun að lækka lántökur einkaaðila úr 1836 millj. í 1500 millj. Þeir sem sömdu þessa áætlun töldu, þegar áætlunin var samþykkt, að talan 1836 væri líklegust lántökuupphæð einkaaðila á árinu 1985. Það hefur ekkert verið upplýst um það að neitt það hafi breyst í sambandi við lántökur einkaaðila, sem aðallega ganga í gegnum svokallaða langlánanefnd, sem réttlæti það að þessi spátala sé lækkuð úr 1836 millj. í 1500 millj. Þetta er bara einföld pennastriksaðferð til að breyta tölum á blaði.

Ef ætlunin er að fylgja þessum niðurskurði eftir með allt öðrum og gjörbreyttum útlánareglum langlánanefndar væri vissulega gott að fá upplýsingar um það. En við, sem skipum minni hl. n., höfum ekki fengið neinar slíkar upplýsingar í hendur og teljum, miðað við þær forsendur sem fyrir liggja, að hér sé um hreinan sýndarniðurskurð að ræða sem ekki sé ætlunin að fylgja eftir á einn eða annan hátt.

Miðað við þær forsendur sem stjórnarmeirihlutinn gefur sér er nú áætlað að erlendar lántökur nemi 6915 millj. kr. Það þýðir að áætlunin hefur verið lækkuð um 385 millj. miðað við þá lánsfjáráætlun sem fram var lögð fyrir áramót en ekki um 1000 millj. eins og lýst var yfir í upphafi ársins. Þar að auki bætist við að skorið hefur verið niður um 750 millj. plús 336 millj. með pennastriksaðferð sem enga merkingu hefur. Ef tekið væri tillit til þess og þær tölur látnar standa áfram, þ. e. 750 millj. og 336 millj. vegna einkaaðila, þá má öllum vera ljóst að lánsfjáráætlunin hefur hækkað um milli 700 og 800 millj. kr. en ekki lækkað um 1000 millj. eins og boðað var í ársbyrjun. Það hefur sem sagt verið gert þveröfugt við það sem ákveðið var í ársbyrjun, lánsfjáráætlun hefur verið hækkuð verulega í stað þess að draga úr erlendum lántökum.

Við sem skipum minni hl. n. teljum það brýnasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar að verulega sé dregið úr erlendum lántökum og þær takmarkaðar við óhjákvæmilegar og verulega arðbærar framkvæmdir. Helmingurinn af erlendum langtímaskuldum Íslendinga er bundinn í orkumannvirkjum. Miðað við síðustu upplýsingar, sem veittar hafa verið um orkuspá, er ljóst að ekki er þörf á viðbótarorku í þágu íslenskra orkunotenda nærri eins fljótt og áður var reiknað með. Okkur sýnist því að mjög komi til greina að draga enn frekar úr framkvæmdum á vegum Landsvirkjunar en ríkisstjórnarmeirihlutinn gerir hér ráð fyrir þótt vissulega megi segja að þar sé stefnt í rétta átt.

Margt fleira má nefna sem orkar tvímælis í þessum lántökuáformum ríkisstj. Svonefnt þróunarfélag var nefnt á nafn í lánsfjáráætlun þegar hún var lögð fram, nánar tiltekið á bls. 7, og var þessu félagi ætluð 500 millj. kr. lántaka. Eftir að brtt. meiri hl. hafa verið samþykktar er þetta fyrirbrigði ekki lengur að finna í lánsfjáráætlun sem sérgreint viðfangsefni, það hverfur út í tómarúmið og finnst ekki lengur. Ástæðan mun vera sú að stjórnarflokkunum hefur gengið illa að koma sér saman um þessa nýju stofnun, sem mun vera ætlað að taka við hlutverki Framkvæmdastofnunar, verður uppvakningur Framkvæmdastofnunar þegar hún hefur verið að velli lögð og hverfur úr lifanda lífi. En stjórnarflokkarnir hafa einfaldlega ekki getað almennilega gert það upp við sig hvort hér á að vera um að ræða sjóð eða félag. Draugagangurinn út af þessari stofnun hefur sem sagt verið í gangi í þingflokkum stjórnarinnar nú um langt skeið án þess að þeim tækist að koma sér saman um dauðadægur Framkvæmdastofnunar. Því liggja hér engar ákvarðanir fyrir og er tekin ákvörðun um það að flytja þessar 500 millj. yfir í lántöku Framkvæmdasjóðs.

Um ráðstöfun á þessu fé höfum við spurt í fjh.- og viðskn. Ed. Hv. formaður nefndarinnar, Eyjólfur Konráð Jónsson, sem vissulega vill greiða götu nm. við upplýsingaöflun, tjáði okkur að ákveðin ráðstöfun þessa fjár væri til umræðu hjá stjórnarflokkunum og ákveðnar tölur hefðu þar verið settar á blað og nefndi þær tölur í okkar eyru. En ákvarðanir munu ekki liggja fyrir og er því ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þennan þátt málsins.

Þá er ljóst að lánsfjárútvegun til Byggingarsjóðs ríkisins kann að vera langt undir því sem þörf verður á þegar til kemur og kann það að valda stórkostlegum vandræðum hjá húsbyggjendum á því ári sem nú er að líða.

Það er vissulega staðreynd, sem segir í nál. okkar, að undirstaða núverandi húsnæðislánakerfis er hrunin. Tekjustofnarnir hver af öðrum hafa verið að breytast í útgjaldaliði. Má þar nefna skyldusparnaðinn sem var raunverulega neikvæður um 80 millj. á seinasta ári. Sjóðurinn borgaði sem sagt 80 millj. kr. meira út til þeirra sem höfðu sparað en hann fékk frá þeim sem voru að spara. Þetta heitir að útstreymi sé meira en innstreymi og leiddi til þess að sjóðurinn var raunverulega að tapa á þessum viðskiptum.

Óljóst er hvernig fara mun á þessu ári en margt bendir til þess að þessi saga gæti endurtekið sig. Í tillögum meiri hl. mun vera gert ráð fyrir að jafnvægi geti hér orðið á, innstreymi verði eitthvað nálægt því sem útstreymi verður. En hitt er kannske allt eins líklegt að útstreymið verði meira og sjóðurinn verði því í peningalegum vandræðum vegna þess.

Þá er ljóst að lántökur hjá lífeyrissjóðunum verða undir hælinn lagðar á þessu ári. Þær verða kannske verulega miklu minni en meiri hl. gerir hér ráð fyrir. Ástæðan er sú að þrengingar á lánamarkaði hér á Íslandi eru nú meiri og ægilegri en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar. Vextir hafa rokið upp úr öllu valdi, raunvextir á einkamarkaði eru algengir frá 13 og upp í 18%, eins og má sjá í auglýsingum dagblaðanna, vegna þess að ríkisstj. gaf vextina að verulegu leyti frjálsa á s. l. hausti. Af því varð keðjuverkun, hækkunin á útlánavöxtum bankanna hafði stórkostleg áhrif á vaxtaprósentur á einkamarkaði og þarf ekki að rökstyðja það frekar því það er staðreynd. Ríkissjóður hefur reyndar einnig þurft að hlaupa með í þessari þróun og orðið að hækka mjög verulega vaxtafót á spariskírteinum sem hann hefur haft til sölu.

Það þarf ekki að rökræða það frekar eða gera grein fyrir því að þúsundir manna eru nú á vonarvöl vegna stefnu ríkisstj. í vaxta- og verðtryggingarmálum. Það að þessi mikli munur skyldi verða á kaupmætti annars vegar og lánskjaravísitölu hins vegar ásamt þeim miklu hávöxtum sem fylgt hafa í kjölfarið og eru ekki síður meginorsök þess ástands sem nú ríkir — orsakirnar má rekja til þessa tvenns sem ég hef nú nefnt-það er ekki síður hávaxtastefnan sem hér skiptir verulega miklu máli. Þessi stefna hefur leitt til algerra greiðsluþrota hjá þúsundum fjölskyldna sem ekki sjá út úr þeim vandræðum sem þær eru komnar í.

Ríkisstj. hefur gripið til þess ráðs að skera niður nýbyggingarlán um 200 millj. kr. til að koma lítillega til móts við þetta fólk. En það er skemmst af að segja að sú aðstoð, sem ætluð er til að bjarga fjölskyldum frá gjaldþroti, virðist vera lítið annað en gálgafrestur. Svo sannarlega þurfa þar að koma miklu róttækari ráðstafanir til ef ekki á að stefna í stórkostleg vandræði. Mín skoðun er sú að í þeim fjölda, sem nú virðist vera í greiðsluþroti vegna stefnunnar í lána- og vaxtamálum og nemur nokkrum þúsundum, sjái menn aðeins toppinn á ísjakanum og að þessi ísjaki eigi eftir að lyfta sér upp á komandi árum og þeir eigi ekki eftir að verða nokkur þúsund sem lenda í greiðsluþroti — ég vil segja hreinu gjaldþroti ef ekkert verður að gert — þeir verði tugir þúsunda. Svo gífurlegar eru afleiðingar af stefnu ríkisstj. í lána- og vaxtamálum á undanförnum tveimur árum.

Við í minni hl. nefndarinnar segjum orðrétt um þetta efni í lok okkar nál. að við lýsum fullri ábyrgð á hendur ríkisstj. um það hvernig komið er fyrir lánakerfinu í húsnæðismálum og þeirri staðreynd að þúsundir fjölskyldna eigi nú í meiri erfiðleikum en dæmi er um áður vegna rangrar stjórnarstefnu í þessum efnum. Að þessu sögðu þarf ekki að rökstyðja það frekar að þetta frv. er mjög ófullkomið og tæpast marktækt. Við teljum hins vegar óhjákvæmilegt að lánsfjárlög verði samþykkt í einni eða annarri mynd tafarlítið því það má ekki dragast öllu lengur að fjárfestingarsjóðirnir geti gengið frá útlánaáætlunum sínum og geti farið að veita viðskiptavinum sínum fyrirgreiðslu og það er beðið eftir afgreiðslu lánsfjárlaganna. En miðað við það hvernig lánsfjárlögin eru úr garði búin teljum við eðlilegast að sitja hjá við afgreiðslu málsins en munum gera grein fyrir sjónarmiðum okkar og afstöðu til einstakra greina hver fyrir sig í þessari umr.

Ég vil láta þess getið fyrir hönd Alþb. að við erum algjörlega móttallin skerðingu á framlögum til ýmissa málefna í þessu frv. Við munum greiða atkvæði á móti skerðingu á framlögum til Kvikmyndasjóðs. Hann á að fá liðlega 30 millj. kr., eins og við þekkjum hvað best sem unnum að þessum málum á s. l. vori og samþykktum ný lög um Kvikmyndasjóð hér í deildinni, en hann fær ekki nema 8 millj. kr. í fjárlagafrv. Ef tillgr. verður samþykkt eins og hún kemur fyrir þá fær hann þessar 8 millj. kr. sem þar standa auk 10 millj. kr. aukafjárveitingar sem mér er tjáð að hæstv. fjmrh. hafi veitt sjóðnum. Það var vissulega góðra gjalda vert að fjmrh. skyldi sjá sig um hönd og veita þessa aukafjárveitingu. Þá er sjóðurinn samtals búinn að fá 18 millj. kr. á þessu ári. En það er ekki nægilegt að okkar dómi og auðvitað ekki í neinu samræmi við það sem við gerðum okkur vonir um þegar við samþykktum lögin um Kvikmyndasjóð fyrir tæpu ári síðan hér í deildinni.

Við munum líka greiða atkvæði gegn hinum gífurlegu skerðingum á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, á framlögum til Félagsheimilasjóðs, á framlögum til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum og á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessar skerðingar. Þær hafa mjög oft verið til umræðu hér á þinginu, sérstaklega skerðingin á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem er stórfelldust í fjármunum talið og kannske viðkvæmust af þeim öllum, hittir kannske þann hópinn sem síst af öllu má við því að skerðing af þessu tagi nái fram að ganga.

En ég vil bæta því við að endingu að ef skerðingin til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verður samþykkt hér í þinginu þá verður það í fyrsta skipti sem ríkissjóður gengur á það lagið að taka af framlagi sem sveitarfélögin hafa áratugum saman haft í jöfnunarsjóð sinn af söluskattstekjum. En ég hygg hins vegar að ef gengið verður á þetta lagið verði þetta að vísu í fyrsta sinn en sennilega ekki í seinasta sinn. Ég vara við því að hér er gefið mjög hættulegt fordæmi. Auðvitað kom það til álita meðan ég var í starfi fjmrh. að skerða þetta eins og allt annað sem menn veltu fyrir sér að skerða. Menn verða vissulega að vera með hnífinn á lofti í þessu starfi og leita hvar unnt er að skera. En það var niðurstaða okkar að hérna væri komið inn á svið þar sem ekki væri nokkur leið að forsvara það að skerða fjárveitingu vegna þess að þetta er fé sem sveitarfélögin eiga, þetta er tekjustofn sem þau eiga. Það er því í raun og veru bara verið að fara í sjóð þeirra, það er verið að stela úr sjóðum þeirra með því að skera niður framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Niðurskurður á framlagi Kvikmyndasjóðs er þó þrátt fyrir allt dálítið annars eðlis vegna þess að þar er ríkið bara einfaldlega að takmarka þá fjárveitingu sem það ætlar að láta í ákveðinn sjóð. Þannig hafa þessar skerðingar flestar verið að ríkissjóður hefur verið að takmarka fjárveitingar sínar. En þarna veður bara ríkissjóður í sjóð allt annarra aðila, þ. e. sveitarfélaganna, og ætlar sér að taka þar dávæna upphæð. Það er fordæmið sem ég tel að geti verið mjög varhugavert til frambúðar og ég undrast það stórlega að sveitarfélögin skuli ekki mótmæla þessu með harðari hætti en raun ber vitni.