01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3997 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Svo undarleg er öll afgreiðsla þessa máls og það hefur komið skýrt fram hér að ég þarf ekki neinu þar við að bæta. Ég á hér hins vegar tvær brtt. sem ég skal hafa um örfá orð.

Sú fyrri var boðuð hér við 1. umr. og kom fram þann sama dag og er um 20 millj. kr. aukið framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Við 1. umr. tók hæstv. fjmrh. vel í úrlausn þessa máls og í beinu framhaldi af því veitti hann 10 millj. kr. aukafjárveitingu til sjóðsins. Þetta ber að þakka. Þótt vissulega hefði verið þörf margfaldrar þeirrar upphæðar þá virði ég svo undirtektir hæstv. ráðh. að ég dreg brtt. mína á þskj. 472 til baka og tel hana hafa gert allnokkurt gagn, þó að enn skuli treyst á viðbót í gegnum erfðafjársjóð eins og við höfum áður rætt um við hæstv. fjmrh. í Sþ. Ég veit þó ekki um lyktir þess máls enn. Hins vegar mun ég að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn skerðingarákvæðinu sjálfu. Hitt er vitað að með fjárlögum þessa árs tók Alþingi því miður alvarlegt skref í niðurskurði þessa sjóðs, alvarlegra jafnvel en í fyrra, og var þá langt gengið. Þá reyndum við þm. að fá fram lagfæringu eitthvað í áttina að því sem lög kveða á um. En ég tek aftur fram að brtt. sem borið hefur slíkan árangur hlýtur að verða dregin til baka af minni hálfu um leið og ég þakka það að hæstv. ráðh. skyldi taka þannig á málum að hann bætti úr brýnustu þörf þessa sjóðs, því að útilokað hefði verið að úthluta úr sjóðnum ef þessi viðbót hefði ekki til hans komið og er reyndar nógu erfitt eins og mál standa í dag.

Hin till. er í beinu samhengi og samræmi við þáltill. sem nú liggur fyrir Sþ. um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum. Þegar sú till. var flutt í Sþ. af okkur hv. 5. þm. Austurl. var mjög undir hana tekið, m. a. af hv. þm. Birni Dagbjartssyni, sem er gjörkunnugur þessum málum og veit mætavel hvað þarf að gera, ekki síður í orkusparnaðinum en í sambandi við mengunarvarnirnar. Ég tók að vonum eftir því, að á það var bent í þessum umræðum að fjármagns væri vant til átaks í þessum efnum, og hefur það reyndar verið viðkvæðið frá fyrsta flutningi þessarar till., en ég flutti till. um mengunarvarnir og orkusparnað í fiskimjölsverksmiðjum lítillega fyrir 5–6 árum fyrst. Þá var sú till. kveðin niður vegna þess að við vorum þá að sigla inn í minnkandi loðnuveiði og stöðvun loðnuveiða og þar af leiðandi þótti ekki ástæða til þess þá að vera að samþykkja aukin álög á þessar verksmiðjur til úrbóta. Kannske hefði það þó einmitt verið rétti tíminn fyrir þær að vinna að þessum málum á þann veg að þær gætu bætt úr þessu mikla vandamáli því að það vandamál sem stafar af mengun frá þessum verksmiðjum er vissulega mikið og brýnt úrlausnar einmitt nú þegar dæmið hefur snúist við hjá okkur og við erum blessunarlega að sigla inn í loðnuveiði í stórauknum mæli, en með þeim hliðarafleiðingum sem íbúar margra staða þekkja allt of vel. Ekki er því að undra að víða að hafa komið bæði fyrr og nú eindregnar stuðningsyfirlýsingar um málið og áskoranir um að samþykkja það.

Hér er sem sé flutt till. um fjármagn til þessa brýna verkefnis og skal ekki orðlengt þar um frekar. Ég minni á hvernig fyrir þessu máli fór á sínum tíma þegar loðnuveiðarnar drógust saman og stöðvuðust svo síðar. Texti till. er afar einfaldur og er á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:

„Á eftir 9. gr. komi ný grein er verði 10. gr. og orðist svo:

Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að taka lán að upphæð 100 millj. kr. til þess að endurlána Fiskveiðasjóði vegna mengunarvarna og orkusparnaðar í fiskimjölsverksmiðjum.“

Það er rétt að leggja ekki síðri áherslu á seinni liðinn, orkusparnaðinn, sem ótvírætt yrði hér á ferð og um leið almennur sparnaður varðandi þennan mikilvæga þátt í okkar þjóðarbúskap, þennan vaxandi þátt nú. Þegar aðrir fiskstofnar hafa brugðist kemur nýting á þessum stofni mjög til góða fyrir allan þjóðarbúskapinn.

Ég tef heldur ekki tímann hér með endurtekningu um skerðingarákvæðin. Ég ræddi þau nokkuð við 1. umr. Ég vil aðeins segja það hér og nú að þegar skerðingin er orðin jafngífurleg og við sjáum að er í frv. nú, þá er ljóst að menn eru gersamlega hættir að taka alvarlega lagaákvæði um framlag til sérstakra brýnna verkefna, jafnvel verkefna sem þeir hafa nýlega samþykkt. Ég hef bæði í stjórn og stjórnarandstöðu gagnrýnt þessi ákvæði lánsfjárlaga. Í tíð fyrrv. stjórnar voru vissulega skerðingarákvæði á ferð þó þau mættu kallast barnaleikur á borð við það sem nú er varðandi suma þessa sjóði. Því að nú keyrir svo um þverbak á flestum sviðum að það er óhjákvæmilegt að benda enn og aftur á það hversu lagafyrirmæli eru þverbrotin og einskis virt. Að vísu hefur hæstv. fjmrh. haft þá hreinskilni til að bera að hann hefur sagt að nær væri að breyta hreinlega þeim lögum sem væru svo óraunhæf að þau gerðu kröfur til ríkisins sem ríkisvaldinu væri ekki kleift að standa við. Ég get alveg tekið undir það með hæstv. ráðh. að það er miklu viðkunnanlegra og skemmtilegra fyrir Alþingi, að maður tali nú ekki um hið siðræna gildi þess, að taka slík lög til endurskoðunar og breyta þá þeim gjaldstofnum sem til þessara mála eiga að renna, ef það er meiningin til frambúðar, en þurfa ekki að horfa upp á þessi skerðingarákvæði í lánsfjárlögum, svo stórkostleg sem þau eru, þegar þau eru farin að nema jafnvel allt að helmingi þess sem lög kveða á um. Það er alveg rétt að þá er vissulega miklu heilbrigðara að breyta sjálfum lögunum ef það er framtíðarstefna hæstv. ríkisstj., ef um framtíð má tala hjá henni, að þessi framlög skuli vera í þeim farvegi sem þau eru í þessum lánsfjárlögum með þeim skerðingarákvæðum sem þar eru sett inn. Ef það er framtíðarstefnan, þá tek ég undir með hæstv. fjmrh. að það er hreinna til verks gengið að breyta bara lögunum um hina ýmsu tekjustofna og afmarkaðar tekjur sem til þessara málaflokka eiga að renna.

Ég ætla ekki við afgreiðslu þessa máls að efna til neins óvinafagnaðar hér og fara að deila við hv. 5. landsk. þm. um orkustefnu og orkunýtingu, erlenda stóriðjustefnu, sem nú hlýtur að hafa fengið að blómstra í 22 mánuði, ef marka má það sem hæstv. núv. iðnrh. hefur haft á sinni stefnuskrá. Ég mun heldur ekki ræða í tengslum við það offjárfestingar Landsvirkjunar hér á Þjórsársvæðinu, sem knúðar voru fram m. a. í tíð fyrrv. stjórnar og hefur verið fram haldið af fullum krafti, í stað þess að fara þá skynsamlegu braut að virkja annars staðar en á þessu eldvirka svæði, svo sem nú hefur verið gert varðandi Blönduvirkjun og vonandi verður framhald á, en þessari geggjunarstefnu á þessu svæði hætt eða a. m. k. hægt mjög á henni. En nátengt orkunýtingu kemur einmitt mál frá tíma fyrrv. orkuráðherra inn í þessa mynd sem hefði breytt umframorkunni von bráðar í arðbært verkefni ef að hefði verið staðið svo sem þá stóðu öll efni til. Ég skal því aðeins í lokin minna á mál sem var enn einu sinni hér til umræðu á Alþingi á dögunum, kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.

Augljóst er að leit að erlendum eignaraðila hefur enn engan árangur borið. Það kom mjög glögglega fram í svörum hæstv. ráðh. núna á dögunum. Augljóst er einnig að slíkur aðili yrði með mjög takmarkaðan eignarhlut ef hann kæmi til. Því er það fullljóst að til að hefja framkvæmdir, eins og hefur nú bærilega verið ýjað að áður af hæstv. iðnrh., hefja þær á þessu ári, það var svo sem nefnt líka á síðasta ári að hefja ætti framkvæmdir, kollhríðin væri ein eftir og þá færu menn að sjá verksmiðjuna rísa þarna austur frá, en það er a. m. k. alveg deginum ljósara að miðað við stöðu málsins í dag þarf að koma til fé á lánsfjáráætlun til að hæstv. ráðh. geti fullyrt eitthvað af þessu tagi. Það verður því tekið eftir því hvernig þessi lánsfjáráætlun verður afgreidd nú varðandi þennan þátt. Það er ekkert slíkt á döfinni og því virðist það líka liggja ljóst fyrir með afgreiðslu lánsfjáráætlunar m. a. að á þessu ári verður ekkert aðhafst við þessa verksmiðju og þá eiga menn bara hreinlega að viðurkenna það. Ég tel nefnilega að afgreiðsla lánsfjáráætlunar án þessa liðar, án þess að kísilmálmverksmiðjan sé tekin inn með undirbúningsfjárveitingu, hvað þá heldur framkvæmdafjárveitingu, sé staðfesting þess að ekkert verður gert. Ég tel rétt að benda á þetta hér og nú en skal ekki hefja almenna umræðu um málið. Það er sem sagt óvissan ein sem áfram skal gilda. Það er meginmálið og er staðfest hér. Það væri miklu skemmtilegra, a. m. k. gagnvart heimamönnum, að það væri viðurkennt af hæstv. ráðh. að þetta væri staðreynd þessa árs, hvað svo sem gæti orðið um framhaldið. En það blæs ekki byrlega fyrir því máli nú um stundir.