01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4001 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. 5. landsk. þm. gerir oft athugasemdir við Bandalag jafnaðarmanna ef hann heldur að þess þurfi. Ég vil fullvissa hv. þm. um að hv. varaþm., Jónína Leósdóttir, sem hefur setið sem áheyrnarfulltrúi fyrir Bandalag jafnaðarmanna í þessari nefnd, hefur skoðanir á lánsfjárlögum þó að hún hafi ekki séð ástæðu til þess að skrifa undir minnihlutaálit. Þetta ætti að nægja fyrir hv. þm. Það vill svo til að fulltrúi Kvennalistans er ekki staddur hér svo að hann hefur snúið sér til annarra kvenna í deildinni til að gera sínar athugasemdir. En það er ekki ný bóla, a. m. k. það sem af er minni setu hér á þingi.

Ég ætla ekki að tala langt mál varðandi þessi lánsfjárlög. Ég gerði athugasemd hér við 1. umr. en mig langar samt sem áður að byrja á því að vitna í Hagtölur mánaðarins fyrir janúar 1985. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frá lokum ágúst til loka nóvember versnaði staðan á endurlánareikningunum um 778 millj. kr., en rúmlega 90 millj. kr. innstæða var á reikningunum í lok ágúst. Staðan batnaði nokkuð í desember, en þó var um 517 millj. kr. skuld á þessum reikningum í lok ársins, sem var jöfnuð m. a. með greiðslum frá A-hluta ríkissjóðs. Þessar greiðslur frá A-hluta ríkissjóðs inn á endurlána reikninga urðu þess valdandi m. a. að 916 millj. kr. innstæða á viðskiptareikningum A-hlutans í Seðlabankanum eftir lokun á gamlársdag minnkaði töluvert eftir endanlegar færslur sem fara fram í byrjun janúar.

Útstreymi fjár úr Seðlabankanum í gegnum endurlánareikningana stafaði einkum af því, að innlend lánsfjármögnun A- og B-hluta ríkissjóðs brást á árinu 1984, aðallega vegna mikillar innlausnar spariskírteina.“

Ég nefni þetta til þess að benda á að þær tölur sem við erum að fjalla um hér eru jafnvel hreyfðar fram og til baka eftir því hvort hallinn er meiri á A- eða B-hluta, þannig að endanlega líta þessar tölur allt öðruvísi út í árslok. Lánsfjárlög fyrir 1984 hljóðuðu endanlega upp á rúma 7 milljarða, þar af erlendar lántökur 4.5 milljarðar. Niðurstöðutölur þess frv. til lánsfjárlaga sem við erum hér að ræða um eru 9 milljarðar 303 millj. kr., þar af 6 milljarðar 910 millj. erlent lánsfé. Hér er m. ö. o. verið að auka erlendar lántökur um 2.4 milljarða kr. frá lánsfjárlögum 1984. Það er því ljóst að hér er ekki um samdrátt í lántökum að ræða heldur þvert á móti auknar lántökur.

Bjartsýni ríkir líka varðandi lánsfjáröflun innanlands. Árið 1984 var þessi lánsfjáröflun 752 millj. 300 þús. kr. en nú er áætlað að fá 1 milljarð 225 millj. hjá lífeyrissjóðunum. Vel má vera að þetta standist. Mér finnst það samt mjög ósennilegt.

Fleiri athugasemdir má gera við þetta frv. sem komið hafa hér fram áður. Ég tek undir það álit minni hl. að varlegar mætti fara varðandi orkumálin. Ég las það í grein í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu að iðnrh. boðaði að orkuveislunni væri lokið. Ég get nú ekki séð að svo sé endanlega þar sem á að halda áfram við Blönduvirkjun án þess að hafa neina kaupendur að þeirri orku. Við munum eiga nóga umframorku í landinu til þess að geta sett upp a. m. k. meðalstóran iðnað, hvar sem menn vildu koma honum fyrir, svo að við ættum að staldra við og fá markað fyrir þá orku sem nú þegar er hægt að framleiða áður en farið er út í stærri virkjanir.

Minni hl. nefnir hér ýmis skerðingarákvæði. Ég verð nú að segja eins og er að það skýtur eilítið skökku við að gagnrýna auknar erlendar lántökur og segja svo: Hér má ekki skerða og á hinum staðnum ekki heldur. Mér fyndist hreinlegra að segja: Fyrst við viljum ekki taka meiri lán verðum við að skera einhvers staðar niður. Og því segi ég það að þótt það sé sárt að skert séu framlög til Kvikmyndasjóðs og fleiri málefna get ég ekki verið sammála slíkum mótbárum án þess að bent sé þá á hvar á að skerða. Það er númer eitt.

Okkur er líka kunnugt um að aukafjárveiting er oft veitt ef skerðingarnar koma hastarlega niður. Það höfum við séð m. a. á s. l. ári. Ég veit til þess að til sumra þessara framkvæmda hefur nú þegar verið veitt aukafjárveiting þó svo að ég sé ekki að mæla því bót.

Þróunarsjóður eða þróunarstofnun hefur verið nefnd hér. Þær 500 millj. sem á að afla til þeirrar stofnunar eða sjóðs eru nú settar á biðlista, ef svo má segja, í Framkvæmdasjóð. Ég held að það varði þjóðina mjög miklu að þessum fjármunum verði komið til skila í iðnaðaruppbyggingu hér á landi. En ég ætla aðeins að segja mína skoðun í því máli. Ég vildi fremur að þessu fjármagni yrði dreift um landið til kjördæmanna og útdeilt þar en að það yrði sett inn í Framkvæmdastofnun og yrði síðan miðstýrt hér úr Reykjavík. Við höfum nóg af slíkum báknum. Með því móti yrði aðeins um breytingu á nafnspjaldi að ræða en ekki neina raunverulega breytingu á útvegun fjármagns. Ég held að við verðum að treysta landsbyggðinni til þess að hafa eitthvað um það að segja í hvað hún vilji verja því fjármagni sem henni er ætlað til uppbyggingar iðnaðar eða til annarra þarfa.

Þetta frv. til lánsfjárlaga sem hér er lagt fram er aðeins til þess að viðhalda núverandi ástandi. Þar er ekki að finna neina stefnubreytingu eða nýja stefnumörkun.