01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4003 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir vel unnin störf við gerð lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga og vona og fagna því fyrir fram að við getum afgreitt það mál í hv. Ed. í dag.

Ég skal reyna að hafa mál mitt ekki langt en það eru nokkur atriði sem ég vil þó ekki láta ósvarað. Fyrst er það þá athugasemd hv. 3. þm. Norðurl. v. Hann er nú að vísu ekki hér viðstaddur en það er sama. Sama fullyrðing kom fram frá öðrum þm. hér: að yfirlýst markmið um erlendar lántökur hafi farið fram úr því marki sem sett var þegar ríkisstj. gerði sín fyrstu fjárlög. Þau markmið héldu við gerð fyrstu fjárlaga. Ég vona að enginn hv. þm. geri ráð fyrir því að þegar einu sinni eru sett markmið eða gerð einhver fjárlög þá haldi þau og standi við gerð allra fjárlaga sem viðkomandi ríkisstj. eða fjmrh. þarf að standa í að gera. Það eru sveiflur í þjóðfélaginu sem gera það að verkum að það er alveg útilokað að gera áætlun sem stenst 100% fram í tímann. Það fer m. a. eftir aflabrögðum. Það fer eftir þjóðarframleiðslu á hverjum tíma hvort prósenturnar eru háar eða lágar af þjóðarframleiðslunni, þó að þær aukist ekki í krónutölu, þannig að þessi áróðurspunktur er fyrir löngu úr gildi fallinn.

Ég vil svara hv. 3. þm. Norðurl. v. líka. Hann spurði hvernig hinar nýju starfsreglur langlánanefndar yrðu. Ég get upplýst það að það er áformað að langlánanefnd verði lögð niður og að bankakerfið geti ekki, ef svo má segja, tekið jafnfrjálslega erlend lán eins og það hefur gert heldur fái hver banki sinn skammt og verði á sama hátt og aðrar ríkisstofnanir að gera sínar áætlanir. Og fram yfir þær fá þeir ekki heimild til að fara. Hver banki hafi sem sagt sinn skammt af erlendum lántökum til umráða fyrir sína viðskiptavini og síðan eigi einstaklingar og fyrirtæki, sem ekki þurfa á ríkisábyrgð að halda, ekki þurfa á öðrum ábyrgðum að halda en þeir hafa skapað sér sjálfir með „goodwill“, með löngu samstarfi fyrirtækja eða einstaklinga, að geta fengið lán án afskipta ríkisins.

Að sjálfsögðu hefur lánsfjáráætlun hækkað frá því að hún var fyrst lögð fram. Þó ekki væri nema vegna þess að upphaflega var gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir skiluðu fullum 40% af ráðstöfunarfé sínu. Það er óraunhæft. Þeir hafa aldrei gert það svo að mér þótti skynsamlegra að reikna með því meðaltali sem þeir hafa skilað hingað til sem raunverulegu framlagi frá þeim í skuldabréfakaupum. Þar af leiðandi féll sú prósentuupphæð sem þeir munu kaupa úr 40% í 34%. Það er skýringin á því að lánsfjáráætlun hækkar smávegis.

Ég harma það að minn forveri í embætti skuli orða það svo að skerðingarákvæði Alþingis þýði sama og þjófnað frá viðkomandi aðilum sem eiga að fá skv. lögum ákveðið framlag. Skerðingarákvæðin eru einfaldlega til komin vegna þess að Alþingi Íslendinga hefur samþykkt meira í útgjöldum, meiri kvaðir á ríkissjóð en tekjuhliðin leyfir þrátt fyrir stórauknar erlendar lántökur á undanförnum árum. Það er einmitt þess vegna sem nauðsynlegt er að skerða þessa sjóði, hvort sem þeir heita sjóðir sveitarfélaga eða annarra.

Hv. 5. landsk. þm. talaði mikið um hringlandahátt í meðferð lánsfjárlaga. Þetta er alveg rétt. Þetta er miklu meiri hringlandaháttur en ég get sætt mig við. Ég er alls ekki vanur svona vinnubrögðum sjálfur, og ég harma þau, við skulum ekkert vera að draga úr því, enda væri það ekki hægt vegna þess að við höfum talað opinskátt fram og til baka um þessi mál. Ég vona bara að það þurfi ekki að vera svona í framtíðinni. En það er ekki vegna ósamlyndis milli ráðherra heldur bara aðstæðna í þjóðfélaginu.

Mér er það líka ljóst að allt frá valdatöku þessarar ríkisstj. hafa menn í öllum flokkum, og hafa þá kannske verið vægustu andstæðingarnir þeir sem hafa verið í ríkisstjórnarandstöðu, viljað þessa stjórn feiga af ýmsum ástæðum. Ég endurtek það að vægustu andstæðingarnir hafa verið í stjórnarandstöðunni. (EG: Þetta var nú gott að heyra.) Já, það er ágætt ef fram kemur, eins og einn blaðamaður orðaði það um daginn, svona eyrnakonfekt fyrir hv. 5. landsk. En ég held því fram að vinnubrögðin við gerð þessara fjárlaga í nefndinni hafi verið góð. Ef það er einhverjar athugasemdir við þau að gera þá koma þær frá ríkisstj. vegna þess vanda sem er aðsteðjandi á mörgum sviðum í þjóðfélaginu. Við skulum ekki vera með neinar blekkingar, sýndarmennsku, sjónarspil eða eitthvað sem er marklaust. Þetta er staðreyndin, og ég tek undir það með hv. 5. landsk. þm. Það væri að blekkja sjálfan mig ef ég færi að reyna að verja það.

Ég vil aðeins víkja hér að þeim spurningum, sem hv. 5. landsk. þm. lagði fyrir mig. Hann talaði mikið um framlag til húsbyggjenda og það gerði hv. 3. þm. Norðurl. v. líka. Við gefum þær upplýsingar að árið 1982 fær Byggingarsjóður ríkisins 57 millj. og Byggingarsjóður verkamanna 111 millj., eða samtals 168 millj. Árið 1983 fékk fyrri sjóðurinn 142 millj. og Byggingarsjóður verkamanna 158, eða samtals 300 millj. Árið 1984 fær Byggingarsjóður ríkisins 200 millj. og Byggingarsjóður verkamanna 200 millj., eða samtals 400 millj. úr ríkissjóði. Árið 1985 er reiknað með að 622 millj. renni til Byggingarsjóðs ríkisins og 282 millj. til Byggingarsjóðs verkamanna, eða samtals 904 millj. Þetta er yfir 100% hækkun milli ára 1984/1985. Það er því eitthvað annað en rýrara framlag til byggingarsjóðanna sem hér er að verki og gerir vandann svo stóran sem hann raunverulega er.

Ef tekið er tillit til þess vanda sem steðjar að mannúðarmálefnum, eins og kom hér fram hjá hv. 2. þm. Austurl., skerðingar á sjóðnum til fatlaðra og fleira, hvernig í ósköpunum geta menn þá búist við því að Kvikmyndasjóður hækki úr 6 millj. frá s. l. ári upp í kannske 35–40 millj. ef hann fengi allan þann söluskatt sem reiknað er með skv. lögum? Það er ekki réttlætanlegt á nokkurn hátt. Ég verð að telja það mjög mikla aukningu, líklega meiri aukningu en á nokkrum öðrum lið, að framlag til Kvikmyndasjóðs hefur, með aukafjárveitingu sem ég hef þegar veitt, þrefaldast á milli ára, úr 6 millj. upp í 18 millj., enda eru þeir aðilar sem standa að Kvikmyndasjóði og hafa við mig talað persónulega mjög ánægðir með þá hækkun. Þeir skilja að það var ekki hægt að verða við öllu.

Þá kom hér spurning frá hv. 5. landsk. sem ég skal reyna að svara. Hún er um skiptingu á því fjármagni sem á að fara til þróunarfélagsins, skildi ég það ekki rétt? Rétt skilið, já. Ég vil þá lesa hér upp það sem ég hef og get upplýst í því efni. Til rannsókna og tilrauna fara 50 millj., til Framleiðnisjóðs landbúnaðar eða Búnaðarsjóðs 50 millj., til Sjávarútvegssjóðs 50 millj., til Iðnlánasjóðs 50 millj., til Framkvæmdastofnunar vegna lána þar til þróunarfélagið hefur starfsemi sína 50 millj. og svo til þróunarfélagsins 50 millj. Þetta eru samtals 300 millj.

Ég vona að ég hafi þá gefið hv. 5. landsk. þm. þær upplýsingar sem hann bað um í sinni ágætu ræðu. Ég fagna því að hv. 2. þm. Austurl. hefur dregið til baka till. sína um framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þar gerði hann till. um 60 millj. kr. framlag. Það framlag verður nú með aukafjárveitingum 50 millj. Ég hef átt tal við þá sem ráðstafa fé úr þeim sjóði og þeir telja að þessi viðbót hafi leyst allan þeirra vanda þó að þeir gætu auðvitað hugsað sér að nota miklu stærri upphæð en þá sem hv. 2. þm. Austurl. gerði till. um. Ég verð því miður að leggja til að brtt. hans á þskj. 515 verði felld einfaldlega vegna þess að ég tel ekki mögulegt að bæta 100 millj. kr. framlagi við það sem þegar er komið á lánsfjáráætlun.

Í lokin vil ég segja það við hv. 2. þm. Austurl., og ég hef áður kynnt það, að einn af okkar færustu lögfræðingum, Páll Líndal, er núna í eins konar lagahreinsun. Hann hefur skilað til mín í dag frumvörpum sem má leggja niður. Það eru 10 lög sem hann leggur til að verði lögð niður skv. þeirri skýrslu sem hann gaf mér um landbúnaðinn. Hann er núna að taka út fjmrn. og ég vona að eitthvað álíka komi út úr því. Svona mun hann halda áfram með lögin þangað til hann hefur lokið lagahreinsuninni.