01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4006 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

235. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál hlaut nokkrar breytingar, smávægilegar þó, í Nd. og varð því að koma aftur til Ed. Menntmn. Ed. hefur fjallað um málið og er sammála um að mæla með því að það verði samþykkt eins og það kom frá Nd.

Þær breytingar, sem gerðar voru á frv. þar, eru þær að í stað síðustu mgr. 11. gr. háskólalaganna komi tvær nýjar greinar svohljóðandi:

„Heimilt er að flytja lektor í dósentsstöðu og dósent í prófessorsembætti skv. nánari ákvæðum í reglugerð. Háskólaráð getur lagt til að forstöðumaður háskólastofnunar sé fluttur í prófessorsembætti eftir sömu reglum og gilda um flutning dósents í prófessorsembætti.“

Þetta eru þau ákvæði sem bættust þarna við. Þarna er verið að koma til móts við óskir Háskólans um framgangskerfi eða útvíkkun á því framgangskerfi sem um nokkra hríð hefur verið þarna við lýði.

Við 5. gr. var gerð sú breyting við ákvæði um heimild til handa Háskólanum að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum, er séu hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða önnur félög, að tekið er fram að einungis skuli Háskólanum leyft að eiga aðild að slíkum félögum séu þau með takmarkaða ábyrgð og eins að þau stundi rannsóknar- og þróunarstarfsemi eða framleiðslu og sölu tengda slíkra starfsemi í því skyn að þróa hugmyndir og hagnýta niðurstöður rannsókna og þjónustuverkefna sem Háskólinn vinnur að hverju sinni.

Nefndin er sammála um að mæla með þessum breytingum. Þetta mál hefur verið nokkuð lengi í meðferð þingsins. Hér er komið mjög til móts við óskir Háskólans, háskólaráðs og Félags háskólakennara um þær nauðsynlegu breytingar sem talið er að muni efla starfsemi Háskólans að miklum mun. Að vísu vantar hér enn þá inn í framgangskerfið ákvæði um rannsóknarfólk og sérfræðinga við Háskólann. Að því þarf enn að vinna nokkuð og þyrfti að vinda að því bráðan bug að móta tillögur um það efni. Er þess að vænta að það geti komið í eðlilegu framhaldi af þessum breytingum á háskólalögum.